— Morgunblaðið/Sigurður Sigmundsso
HELSTU hönnuðir, ráðgjafar og rannsóknamenn á sviði landbúnaðarbygginga á Norðurlöndum munu hittast á ráðstefnu á Íslandi í september.
HELSTU hönnuðir, ráðgjafar og rannsóknamenn á sviði landbúnaðarbygginga á Norðurlöndum munu hittast á ráðstefnu á Íslandi í september. Ráðstefnan er haldin til skiptis á Norðurlöndunum annað hvert ár, og er blanda af fræðilegum erindum, reynslusögum og vettvangsferðum.

"Það eru gríðarlegar fjárfestingar í landbúnaðarbyggingum og það skiptir miklu máli að þær séu vel hannaðar, bæði upp á að vinnan sé létt og að velferð dýranna sé sem best," segir Torfi Jóhannesson, sem er framkvæmdastjóri fundarins á Íslandi. Hann segir hönnuði þurfa að vera vel vakandi fyrir því sem gerist í öðrum löndum og því sé svona ráðstefna mikilvæg til dæmis til að miðla sérhæfðum lausnum.

"Þarna er miðlað upplýsingum um nýjar rannsóknir og skoðuð athyglisverð hönnun eða nýjungar í heimalandi ráðstefnunnar," segir Torfi. Framlag Íslendinga verður að kynna ódýrar og hagkvæmar lausnir sem hafa gefist vel hérlendis, en eru lítið útbreiddar á Norðurlöndunum.

Meðal þess sem ráðstefnugestum verður sýnt er gjafakerfi í fjárhúsum sem er íslensk þróun og óvíða notað erlendis.

"Við teljum líka að íslensk hesthús séu að jafnaði mjög vönduð og þá ætlum við að sýna þeim fjós, og þá fyrst og fremst hvernig menn hafa verið að breyta fjósum hérlendis. Það er mjög gaman að skoða ódýrar og hugvitssamlegar breytingar á eldri byggingum. Í fjósunum höfum við líka farið aðrar leiðir en Norðurlöndin varðandi gjafaaðstöðu og byggist sérstaða okkar á að við notum rúllubagga mikið."