Rúrí og Páll Steingrímsson borgarlistamenn ásamt borgarstjóra og formanni menningar- og ferðamálaráðs.
Rúrí og Páll Steingrímsson borgarlistamenn ásamt borgarstjóra og formanni menningar- og ferðamálaráðs. — Morgunblaðið/Jón Svavarsson
STEINUNN Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri útnefndi myndlistarkonuna Rúrí og Pál Steingrímsson kvikmyndagerðarmann borgarlistamenn Reykjavíkur 2005 á þjóðhátíðardaginn.
STEINUNN Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri útnefndi myndlistarkonuna Rúrí og Pál Steingrímsson kvikmyndagerðarmann borgarlistamenn Reykjavíkur 2005 á þjóðhátíðardaginn. Veitti hún hvorum listamanni um sig ágrafinn stein, heiðursskjal og ávísun að upphæð 500 þúsund krónur.

Útnefning borgarlistamanns er heiðursviðurkenning til handa reykvískum listamanni sem með listsköpun sinni hefur skarað fram úr og markað sérstök spor í íslensku listalífi. Útnefningin fór fram í Höfða og gerði Stefán Jón Hafstein formaður menningar- og ferðamálaráðs grein fyrir vali ráðsins á borgarlistamanni Reykjavíkur 2005.

Tekið var fram að þó Rúrí og Páll beri nú bæði titilinn borgarlistamaður Reykjavíkur séu þau sjálfstæðir listamenn sem standa einir að hverju höfundarverki. Dæmi séu þó um að þau aðstoði hvort annað við útfærslu verkanna og segja megi að virðing fyrir náttúrunni sé sameiginleg áhersla í listsköpun þeirra.

Leiðrétt 20. júní:

Rangt nafn í myndatexta

Ranglega sagði í myndatexta með frétt af útnefningu borgarlistamanna í blaðinu í gær, að Páll Steingrímsson, sem útnefndur var borgarlistamaður, væri á myndinni, sem tekin var að lokinni útnefningunni. Hið rétta er að á myndinni var Steingrímur Pálsson, sonur Páls, sem tók við viðurkenningunni fyrir hönd föður síns, en Páll var á sama tíma staddur á Bessastöðum að taka við riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu. Eru viðkomandi beðnir velvirðingar á þessum mistökum.

Leiðrétt 21. júní:

Dufþakur Pálsson

Sonur Páls Steingrímssonar kvikmyndagerðarmanns, sem tók við útnefningu föður síns sem borgarlistamanns, heitir fullu nafni Steingrímur Dufþakur Pálsson. Hann notar nafnið Dufþakur dagsdaglega og þekkja hann fáir sem Steingrím en þannig var hann kynntur í leiðréttingu í Morgunblaðinu í gær.

Nafnið Dufþakur var þekkt hér á landnámsöld. Samkvæmt Nöfnum Íslendinga virðist það ekki hafa verið notað sem eiginnafn hér á landi síðan, fyrr en Dufþakur Pálsson var nefndur því, en hann er fæddur 1963. Einn af þrælum Hjörleifs, fóstbróður Ingólfs Arnarsonar, hét Dufþakur. Hann lagði á ráðin um víg húsbónda síns og flúði til Vestmannaeyja. Hann endaði ævi sína í Dufþaksskor, sem nú heitir Dufþekja, og er norðan í Heimakletti.