[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ATVINNULEYSI mun að öllum líkindum ekki breytast mikið nú í júní að mati Vinnumálastofnunar. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu stofnunarinnar um atvinnuástand í maí.
ATVINNULEYSI mun að öllum líkindum ekki breytast mikið nú í júní að mati Vinnumálastofnunar. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu stofnunarinnar um atvinnuástand í maí.

Þar segir að atvinnuástandið batni yfirleitt á milli maí og júní og sem dæmi um það er bent á þróunina í fyrra þegar atvinnuleysi minnkaði um 0,2 prósentustig á milli mánaða, var 3,3% í maí en 3,1% í júní.

133% fjölgun lausra starfa

Laus störf eru mun fleiri nú en á sama tíma í fyrra. Í lok maímánaðar voru 1.710 störf í boði á landinu öllu en í lok maí á síðasta ári voru 732 laus störf í boði. Er það fjölgun um 133% á milli ára en á milli mánaða fjölgaði lausum störfum um 387, sem jafngildir 29,3% fjölgun. Mest var fjölgunin á Austurlandi en þar fjölgaði störfum um 358 á milli mánaða. Munar þar mestu um aukna þörf Bechtel fyrir vinnuafl, samkvæmt skýrslu Vinnumálastofnunar. Jafnframt fjölgaði lausum störfum á Vestfjörðum, Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra og á Suðurlandi en þeim fækkaði á Vesturlandi, Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu. Á höfuðborgarsvæðinu fækkaði lausum störfum um 53, úr 372 í 319, og jafngildir það 14,2% fækkun.

Alls eru 48% lausra starfa á Austurlandi en 19% eru á höfuðborgarsvæðinu.

Fjöldi skólafólks kemur inn

Á móti þessari þróun kemur að fjöldi skólafólks kemur inn á markaðinn og má því að mati Vinnumálastofnunnar gera ráð fyrir nokkurri aukningu skráninga á atvinnuleysisskrá, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu.

Vinnumálastofnun metur því að líklegt sé að atvinnuleysi breytist lítið í júní og verði áfram á bilinu 2,0-2,4%.