Ingaló verðlaunuð á kvikmyndahátíð í Rúðuborg Hjálpar upp á dreifingu myndarinnar KVIKMYND Ásdísar Thoroddsen, Ingaló, fékk fyrstu verðlaun á norrænni kvikmyndahátíð í Rúðuborg í Frakklandi 10.-21. mars. sl.

Ingaló verðlaunuð á kvikmyndahátíð í Rúðuborg Hjálpar upp á dreifingu myndarinnar

KVIKMYND Ásdísar Thoroddsen, Ingaló, fékk fyrstu verðlaun á norrænni kvikmyndahátíð í Rúðuborg í Frakklandi 10.-21. mars. sl. Sólveig Arnarsdóttir, aðalleikkona myndarinnar, fékk fyrstu verðlaun fyrir leik í kvenhlutverki. Ásdísi hefur verið boðið að sýna Inguló á árlegri kvikmyndahátíð Museum of Modern Arts og kvikmyndaklúbbs Lincoln Center í New York í byrjun apríl.

Norræna kvikmyndahátíðin er ein af fimm stærstu kvikmyndahátíðum í Frakklandi og stóð valið að þessu sinni á milli 10 útnefndra norræna kvikmynda. Samtals voru sýndar um 100 myndir frá Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum á hátíðinni.

Hlýnaði um hjartarætur

Ásdís Thoroddsen sagði að sú viðurkenning sem fælist í valinu á Inguló væri jákvæð að tvennu leyti, þ.e. tilfinningalega og veraldlega. "Aðallega hlýnaði mér um hjartarætur en viðurkenningin hefur ekki síður gildi fyrir dreifingu myndarinnar því hún felur í sér eins milljón króna fjárframlag til að koma henni á markað í Frakklandi," sagði Ásdís og minnti á að erfitt væri að koma norrænum myndum á framfæri í Frakklandi. Sjónvarpstöðvar í fimm löndum, Þýskalandi, Slóveníu, Indlandi, Færeyjum og Íslandi, hafa keypt sýningarrétt myndarinnar.

Sömuleiðis opnast með kvikmyndahátíðinni í New York, "New Directors/New Horizons in Film", möguleikar á dreifingu í Bandaríkjunum. Þátttaka í hátíðinni hefur markað fyrstu spor margra ungra leikstjóra á framabrautinni.

Vænt um viðurkenningu Sólveigar

Ásdís sagði að sér hefði þótt afar vænt um viðurkenningu Sólveigar Arnarsdóttur. "Mér finnst það líka dálítið merkilegt vegna þess hversu ung hún er. Hún er heldur ekki leikaramenntuð en alin upp við þetta, dæmin sanna að það skiptir máli," sagði hún og bætti við að það gæti haft áhrif að sú persóna sem Sólveig léki í myndinni væri sjaldséð á hvíta tjaldinu. Hvað framtíðina varðaði sagðist Ásdís vera að vinna að tveimur kvikmyndum og væri áætlað að tökur á annarri hæfust í byrjun þessa árs á Íslandi.

Verðlaunaðar

ÁSDÍS Thoroddsen og Sólveig Arnarsdóttir.