Myndin sýnir Sæfaxa TF-ISP klifra upp úr botni Dýrafjarðar og er flugbáturinn að beygja á suðlæga stefnu til Reykjavíkur. Hinn víðfrægi breski listamaður Wilfred Hardy málaði myndina eftir fyrirsögn Snorra Snorrasonar. Í klifri var afli hreyflanna á þessum árum beitt þannig að snúningurinn var 2300 á mínútu (RPM) og aflið 35 tommur (manifold pressure) en í flugtaki 2700 snúningar og 48 tommur. Sæfaxi var rúmu einu tonni léttari en hinir Catalina-flugbátarnir, sem voru búnir hjólum til lendingar á landi, og því talsvert skarpari í flugtaki. Auk þess klifraði hann betur, var léttari í stýrum og flaug ekki fjarri hraða Douglas-flugvélanna. Það var því umtalað meðal flugmanna að þessi Catalina-flugbátur væri sá besti. Í láréttu flugi var hraði hans um 120 hnútar.
Myndin sýnir Sæfaxa TF-ISP klifra upp úr botni Dýrafjarðar og er flugbáturinn að beygja á suðlæga stefnu til Reykjavíkur. Hinn víðfrægi breski listamaður Wilfred Hardy málaði myndina eftir fyrirsögn Snorra Snorrasonar. Í klifri var afli hreyflanna á þessum árum beitt þannig að snúningurinn var 2300 á mínútu (RPM) og aflið 35 tommur (manifold pressure) en í flugtaki 2700 snúningar og 48 tommur. Sæfaxi var rúmu einu tonni léttari en hinir Catalina-flugbátarnir, sem voru búnir hjólum til lendingar á landi, og því talsvert skarpari í flugtaki. Auk þess klifraði hann betur, var léttari í stýrum og flaug ekki fjarri hraða Douglas-flugvélanna. Það var því umtalað meðal flugmanna að þessi Catalina-flugbátur væri sá besti. Í láréttu flugi var hraði hans um 120 hnútar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Catalina-flugbátar þjónuðu Íslendingum í innanlands- sem og millilandaflugi á árum áður. Snorri Snorrason rifjar hér upp nokkur atriði úr sögu þeirra og hann fékk breska listamanninn Wilfred Hardy til að mála mynd af TF-ISP.

FYRSTA Catalina-flugbáti Íslendinga, sem bar einkennisstafina TF-ISP, var flogið til landsins haustið 1944. Flugstjóri var Örn Johnson, forstjóri Flugfélags Íslands. Ferðin hófst í New York og eftir rúmlega 9 klst. flug með einni millilendingu var höfð viðkoma í Goose Bay í Labrador áður en lagt var í flug yfir N-Atlantshafið, en flugbáturinn var ekki búinn hjólum til lendingar á landi. Í Goose Bay voru eldsneytisgeymar flugbátsins fylltir en þeir tóku 1.750 gallon. Flugtíminn til Íslands varð 10 klst. en lent var snemma morguns 12. október á Skerjafirðinum við Reykjavík.

Fékk flugbáturinn mjög slæmt veður og mikla ísingu á leiðinni frá Labrador. Þeyttu skrúfublöðin ís í skrokkinn og brotnaði þar rúða. Hefur flugbáturinn lengst af verið í myrkri þennan síðasta kafla leiðarinnar til Íslands, og því verið óhultur fyrir þýsku herflugvélunum sem oft voru á flugi við landið styrjaldarárin.

Sæti frá Stálhúsgögnum

Þetta var fyrsta flug íslenskrar flugvélar undir stjórn íslensks flugstjóra yfir N-Atlantshaf. Með Erni flugstjóra voru Smári Karlsson aðstoðarflugmaður og Sigurður Ingólfsson vélstjóri en auk þess voru tveir Bandaríkjamenn í áhöfninni.

Veturinn 1944-1945 var flugbáturinn búinn sætum fyrir 22 farþega og annaðist fyrirtækið Stálhúsgögn það verk. Sumarið 1945 fór þessi flugbátur þrjár ferðir með farþega og póst til Skotlands og Danmerkur og var fyrsta ferðin farinn 11. júlí og lent á voginum við Largs á Skotlandi. Var það fyrsta millilandaflug íslenskrar flugvélar með póst og farþega. Flugstjóri í þessum þremur ferðum, sumarið 1945, var Jóhannes R. Snorrason.

Flugbáturinn TF-ISP, sem hlaut nafnið Sæfaxi 1948, var endanlega tekinn úr umferð og rifinn haustið 1953. Hafði hann þá annast farþegaflutninga víða um land, verið notaður til síldarleitar og langferða til Grænlands með vísindamenn á vegum Grænlandsverslunarinnar. Var flogið allt norður til Pearylands, nyrsta lands jarðar, og lent á fjallavatni nál. 80º n.br.

Í lok ársins 1945 voru tveir Catalina-flugbátar keyptir í Kanada og voru báðir búnir hjólum til lendingar á landi. Kaupin annaðist Jóhannes R. Snorrason fyrir hönd Flugfélagsins og honum til aðstoðar var Gunnar Jónasson forstjóri. Fyrri flugbátnum flaug Jóhannes heim til Íslands í janúar 1946 og voru aðrir í áhöfninni kanadískir. Seinni flugbátnum flaug hann síðan til Íslands í október 1946 og var öll áhöfnin íslensk, en þar var Magnús Guðmundsson flugstjóri aðstoðarflugmaður, Jóhann Gíslason loftskeytamaður, Ásgeir Magnússon vélstjóri og Hreiðar Haraldsson siglingafræðingur. Fyrri flugbáturinn hlaut einkennisstafina TF-ISJ og nafnið Sólfaxi og sá síðari TF-ISK og nafnið Skýfaxi.

Reyndust vel í innanlandsfluginu

Catalina-flugbátarnir reyndust Íslendingum frábærlega vel í innanlandsfluginu, oft við afar erfiðar aðstæður, einkanlega þar sem undiralda af hafi náði inn þrönga firði en þar fengu flugbátarnir oft harða skelli. Hreyflar Catalina-flugbátanna voru sömu gerðar og í Douglas-flugvélunum, um 1.200 hestöfl hvor, traustir og gangvissir. Flughraðinn var um 110-115 hnútar og flugþolið afar mikið, þar sem í vængjum flugbátanna voru eldsneytisgeymar fyrir meira en 20 klst. flug. Í klifri var afli hreyflanna á þessum árum beitt þannig að snúningurinn var 2.300 á mínútu (RPM) og aflið 35 tommur (manifold pressure) en í flugtaki 2.700 snúningar og 48 tommur. Sæfaxi var rúmu einu tonni léttari en hinir Catalina-flugbátarnir sem voru búnir hjólum til lendingar á landi og því talsvert skarpari í flugtaki. Auk þess klifraði hann betur, var léttari í stýrum og flaug ekki fjarri hraða Douglas-flugvélanna. Það var því umtalað meðal flugmanna að þessi Catalina-flugbátur væri sá besti.

Í áhöfn flugbátanna voru þrír menn, flugstjóri, aðstoðarflugmaður og vélstjóri, en fyrstu árin var loftskeytamaður einnig í áhöfninni. TF-ISK var endanlega lagt árið 1960 og TF-ISJ árið 1961, eftir ævintýraferð með sportveiðimenn og náttúruskoðendur til óbyggða á norðausturströnd Grænlands.