Veit hvað hann gerir Buffett hefur náð meiri ávöxtun á fjárfestingar sínar en flestir aðrir.
Veit hvað hann gerir Buffett hefur náð meiri ávöxtun á fjárfestingar sínar en flestir aðrir. — Reuters
Uppáhaldsdrykkur hans er Cherry Coke. Hann tekur oft einfalda hamborgara fram yfir glæsilegar máltíðir. Hann býr í sama húsinu og hann keypti fyrir hálfri öld.
Uppáhaldsdrykkur hans er Cherry Coke. Hann tekur oft einfalda hamborgara fram yfir glæsilegar máltíðir. Hann býr í sama húsinu og hann keypti fyrir hálfri öld. Skrifstofa hans er íburðarlítil, staðsett í gamalli byggingu og ekki er að sjá að þaðan sé einu af verðmætustu hlutafélögum heims stýrt. Starfsmenn eru fáir og hafa flestir starfað þar í langan tíma, ritarinn í nokkra áratugi. Heimasíða félagsins er sett upp með svo einföldum hætti að ætla mætti að forritari þess hefði gengið frá henni á nokkrum klukkutímum, sem er líklegast staðreyndin. Fyrir utan stofugluggann sést í götuljós og þar taka bílstjórar sér góðan tíma til að keyra fram hjá. Þannig vonast þeir til að sjá næstríkasta mann heims bregða fyrir, Warren Buffett.

Fjölmargar bækur hafa verið skrifaðar um Warren Buffett og fer þeim stöðugt fjölgandi. Flestar reyna að bregða upp mynd af þeirri heimspeki sem að baki býr á fjárfestingaraðferðum Buffet. Það er vart að ósekju því hann hefur ávaxtað fé sitt og annarra með undraverðum árangri í meira en hálfa öld.

Áhrif kreppunnar miklu

Lestur ævisögunnar Buffett: The Making of an American Capitalist eftir Roger Lowenstein, sem var gefin út árið 1994, er frábær vettvangur til að kynna sér hvernig persóna Buffet samtvinnaði nauðsynlega þætti fjárfestingarspeki sem gerði honum kleift að ávaxta fé betur ár eftir ár en sambærilegar hlutabréfavísitölur.

Bókin hefst á upphafsárum hans. Buffett fæddist sama ár og kreppan mikla hófst, árið 1930. Erfiðar fjölskylduaðstæður mótuðu æskuár hans. Móðir hans átti við skapgerðarvandamál að stríða og faðir hans þótti afar strangur. Áhrif kreppunnar höfðu jafnframt áhrif á hinn unga Buffett og mótuðu hann sem sparsaman einstakling. Hann fór jafnframt að reyna margvíslegar leiðir til að afla tekna. Hann hafði gaman af því að sökkva sér í sinn eigin heim við að finna ýmiss konar munstur í tilverunni og það átti eftir að koma til góða hvað varðar tölfræðilegar greiningar sem skiluðu sér beint í tekjuöflun.

Rétt um tvítugt kynnist Buffett læriföður sínum, Benjamin Graham, prófessor við Columbia-háskólann. Graham var afar sérstök persóna. Ólíkt því sem almennt er talið var líf hans og hugsjónir í litlu samræmi við varfærnislega og ígrundaða fjárfestingarspeki hans. Buffett öðlaðist hjá honum tölfræðilega þekkingu hvað varðar hlutabréf. Sagt var að nemendur skráðu sig oft í tíma hjá Graham aðeins til að fá hugmyndir um þau góðu fjárfestingartækifæri sem Graham minntist iðulega á.

Eftir að hafa numið hjá Graham (og 14-faldað sína eigin fjárfestingu á aðeins 6 árum) stofnaði Buffett fjárfestingarfélög sem vinir og vandamenn fjárfestu aðallega í. Fljótlega fór orðspor hans að berast út og stöðugt fjölgaði þeim sem treystu Buffett fyrir sparifé sínu.

Árið 1969 ákvað Buffett að leysa upp sjóði sína, því hann taldi sig ekki geta lengur fundið fjárfestingarkosti, sem stóðust kröfur hans. (Benda má á í því samhengi að þeir sem höfðu lagt 10 þúsund dali í Dow Jones-hlutabréfavísitöluna 12 árum áður áttu orðið rúmlega 15 þúsund dali en þeir sem höfðu fjárfest hjá Buffett höfðu tífaldað sömu fjárhæð!) Því seldi Buffett öll hlutabréfin og skilaði eigendunum peningunum. Hann ákvað þó að halda eftir eign sinni í gömlu framleiðslufyrirtæki á vefnaðarvörum. Fjármagnið frá þeim rekstri notaði hann til að fjárfesta í öðrum fyrirtækjum og byggði þannig grunninn að fjárfestingarfyrirtækinu Berkshire Hathaway. Nú um 35 árum síðar hefur Dow Jones-hlutabréfavísitalan 13-faldast en virði Berkshire Hathaway meira en 20 þúsund faldast.

Bestu kaupin

Bókin Buffett: The Making of an American Capitalist lýsir vel hvernig fjárfestingarspeki Buffetts breyttist smám saman. Í upphafi einblíndi hann aðallega á tölfræðileg atriði við lestur ársskýrslna og greindi með því fjárfestingartækifæri sem fóru fram hjá flestum öðrum. Smám saman veitti hann því meiri athygli hvernig markaðsstaða fyrirtækis var og er talið að hann hafi þar orðið fyrir töluverðum áhrifum af Philip Fisher sem skrifaði hina margrómuðu fjárfestingarbók Common Stocks and Uncommon Profits, sem gefin var út árið 1958. Eitt af þekktustu dæmum varðandi slíkt eru kaup Buffetts á Coca-Cola árið 1988. Fyrirtækið hafði átt í erfiðleikum en Buffett sá möguleika í markaðssókn víðs vegar um heim og þá sérstöðu sem drykkurinn hafði í augum neytenda. Bókin afhjúpar einnig þá goðsögn að Buffett selji aldrei hlutabréf og kaupi aðeins örugg virðisfyrirtæki. Bestu kaup hans hafa einmitt á stundum verið í fyrirtækjum sem hafa gengið afar erfiðlega í rekstri og eru með óvissar framtíðarhorfur. Auk þess hefur eignasafn hans tekið stöðugum breytingum með nokkrum undantekningum.

Tímans tönn

Við lestur bókarinnar kemur í ljós hversu mikill sérvitringur Buffett er. Fjölskyldulíf hans er skrautlegt. Konan hans skildi til að mynda við hann árið 1977 og árið eftir tók hann sér ástkonu. Fyrrverandi kona hans var þó sú sem var í fylgd með honum á samkomum utan heimabæjar hans. Hann virðist hafa litla ánægju af auðnum sem hann hefur áunnið sér heldur virðist hann fyrst og fremst hafa skemmtun af því að skapa auðinn á sjálfstæðan og skapandi hátt.

Það kemur skýrt fram í bókinni að sjálfstæði og sterkur persónuleiki Buffett eru stór hluti af hornsteinum fjárfestingarstefnu hans. Áhugavert er að fylgjast með því hvernig Buffett hefur í gegnum tíðina stöðugt endurmetið fjárfestingarstefnu sína án þess þó að missa sjónar á sögulegum staðreyndum og gildum sem standast tímans tönn.

Ekki hafinn yfir gagnrýni

Höfundur bókarinnar, Roger Lowenstein, bregður upp afar sterkri mynd af manni með þráhyggju af stöðugleika sem er samofið ævintýralegu lífi. Þrátt fyrir auðæfin og frægðina keppist hann við að viðhalda sumum þáttum í lífi sínu eins og ekkert hafi í skorist. Eins og í hinni stórkostlegu bók Lowenstein, When Genius Failed, sem gefin var út árið 2000, verða sögupersónur nánast lifandi í huga manns við lestur bókarinnar. Þó svo að Lowenstein bregði upp jákvæðri mynd af viðfangsefni sínu telur hann Buffett vera með engum hætti hafinn yfir gagnrýni, eins og oft einkennir bækur um Buffett. Helsti galli bókarinnar er að hún er orðin rúmlega tíu ára og því væri ekki úr vegi að uppfæra hana til dagsins í dag.

Til að öðlast heilsteypta mynd af Warren Buffett er ákjósanlegt að lesa einnig bókina Buffettology eftir Mary Buffett og David Clark, sem gefin var út 1997, en sú bók einblínir á megindlega þætti fjárfestingarspeki hans. Bækurnar mynda samsteypta heild sem er líkleg til árangurs við að öðlast hluta af þeirri speki sem hefur gert Buffett að lifandi goðsögn í heimi fjárfestinga.

marmixa@yahoo.com