Ef hitastig til langs tíma á Íslandi og Grænlandi er borið saman leiðir það í ljós afar áhugaverða fylgni, að mati greinarhöfundar.

Ef hitastig til langs tíma á Íslandi og Grænlandi er borið saman leiðir það í ljós afar áhugaverða fylgni, að mati greinarhöfundar. Svo virðist sem hitastig falli og rísi á sama tíma í báðum löndum með öllum þeim afleiðingum sem það hefur fyrir lífríki og lífshætti, en jafnvel nokkur brot úr gráðu geta haft mikil áhrif.

Vissulega er það svo að meðalhiti á Grænlandi og Íslandi breytist ekki alltaf á sama hátt í báðum löndum frá ári til árs eða frá einum áratug til annars. Hér á landi getur verið ríkjandi norðanátt og kuldi að jafnaði, eða suðlæg átt og hlýindi, þó að á Grænlandi eigi það sama ekki fyllilega við, mánuðum og árum saman. En málið horfir öðruvísi við þegar litið er á meðaltöl margra áratuga, að ekki sé talað um nokkrar aldir. Þá eru vindáttirnar eins og þær eiga að sér til lengdar, ef svo má segja, og þá verður hitamunur landanna marktækur með mikilli nákvæmni. Þetta sýnir sig þegar tvær algerlega óháðar aðferðir eru notaðar til að bera saman hitafar í 1100 ár á Íslandi og loftslag á Grænlandsjökli á sama tíma.

Hitafar á Íslandi 901-2000.

Neðra línuritið á teikningunni sem hér fylgir sýnir áætlun um hitafar í Stykkishólmi í 1100 ár eftir sögulegum gögnum og hitamælingum. Það var fyrst sýnt á ráðstefnu í Aspen í Colorado árið 1962 og var birt í bókinni Hafísnum árið 1969, en síðan hefur það tekið mjög litlum breytingum. Fyrstu hitamælingarnar eru úr Reykjavík 1823-1845, en þá byrjaði Árni Thorlacius veðurathuganir sínar í Stykkishólmi, og þar hafa þær haldið áfram síðan. Á þessu langa tímabili frá 1823 mátti svo finna samhengið milli lofthitans og dvalar hafíssins við landið á hverjum áratug. En um hafísinn við landið er til allgóð vitneskja allt frá því um 1600, og á henni mátti byggja áætlun um hita hvers áratugar á árunum frá 1601 og fram yfir 1820. Sýnu erfiðara var að meta hita áratuganna frá því um 901-1600. Það var gert með hliðsjón af sambandi lofthitans eftir 1600 og fjölda harðæra á hverjum áratug sama tímabils. Þau harðæri voru skilgreind á vissan hátt: Annaðhvort var miðað við að þá hefði orðið mannfall af harðrétti eða hafís náð austur fyrir land og til suðurlands, nema hvort tveggja væri. Varla þarf að taka fram að þessi fyrri hluti línuritsins er miklu ónákvæmari en hinn síðari, og því er forvitnilegt að fá samanburð á honum og rannsóknunum á Grænlandsjökli.

Það línurit lofthitans á Íslandi sem með þessu fæst sýnir fjögur misheit tímabil. 901-1200, 1201-1600, 1601-1920 og 1921-2000. Meðalhiti þeirra er sýndur með svörtu stallalínunni. Ekki er hitamunurinn milli þeirra mikill, en allar rannsóknir sýna að litlar hitabreytingar geta haft örlagarík áhrif á hag þjóðarinnar, bæði landbúnað og fiskveiðar.

Loftslag á Grænlandsjökli

Árið 1966 urðu þau tímamót að borað var djúpt í Grænlandsjökul í rannsóknaskyni. Af efnasamsetningu borkjarnans mátti ráða nokkuð um hver lofthitinn hefði verið á mismunandi dýpi þegar snjórinn féll. Þessar rannsóknir eru nú komnar svo langt að til er listi yfir hlutfallið milli súrefnissamsætnanna O16 og O18 í snjólagi hvers einasta árs síðan árið 1133 fyrir Krist. Miðað er við borun á ákveðnum stað sem er einkenndur með stöfunum GISP2, um það bil 700 kílómetrum norðar en Ísland, miðja vegu milli austur- og vesturstrandar Grænlands. Rauða stallalínan sýnir einmitt þessi meðaltöl súrefnisins á sömu tímabilum og svarta stallalínan frá Íslandi er reiknuð fyrir. Það liggur í augum uppi hvað samræmið er gott milli þessara tveggja línurita. Þó að það stafi ef til vill að einhverju leyti af tilviljun, er þetta samt mjög eindregin vísbending um að langvarandi loftslagsbreytingar fylgist að á Íslandi og Grænlandi, og jafnvel víðar. Því má segja að Sigurður Þórarinsson hafi verið sannspár þegar hann sagði að hafísinn við Ísland væri eins konar hitamælir, ekki aðeins Íslands, heldur alls Norður-Atlantshafsins og landanna sem að því liggja. Það var einmitt sú hugmynd hans sem kom mér til að ætlast á um loftslag á Íslandi á sögulegum tíma. Og það var hann sem bað mig að hlaupa í skarðið fyrir sig þegar hann gat ekki sótt loftslagsráðstefnuna í Aspen fyrir 43 árum.

Áhrif loftslagsbreytinga

Þrisvar sinnum í sögu Íslands virðist hafa orðið tiltölulega snögg loftslagsbreyting. Í lok 12. aldar lækkar hitinn um svo sem hálfa gráðu og þá fer skyndilega að bera á harðærum, miklum fjölda fátækra förumanna og baráttu milli höfðingja um búsmala, fóður og hvers konar varning. Þá byrjar Sturlungaöld. Hafísinn leggst að og jöklar fara vaxandi, hratt í fyrstu. Næst er það rétt um 1600 sem enn kólnar og mannfall af harðrétti verður hvað eftir annað næstu aldir, en jöklarnir ganga fram með rykkjum og ná hámarki um 1890. Skyndilega batnar snemma á 20. öld þegar loftslagið tekur stóra stökkið og verður jafn hlýtt og á landnámsöld. Það eru mestu tíðindi í íslenskri loftslagssögu. Hafísinn hverfur að mestu og jöklar minnka með miklum hraða. Og ýmsum hagfræðingum og sagnfræðingum til undrunar gerist það að jafnvel í heimskreppunni blómgast efnahagur til lands og sjávar. Tímabundinn hafís á sjöunda áratug veldur eðlilega nokkrum þrengingum í landbúnaði, og sennilega gættu menn þess ekki að haga sókn í sjávarfang í samræmi við skert lífsskilyrði í sjónum, með alvarlegum afleiðingum fram á þennan dag.

Þó að meðalhiti langra tímabila sé mikilvægur er hitt líka þýðingarmikið að vita hvað hiti einstakra styttri skeiða, til dæmis áratuga, víkur mikið frá langtímameðallaginu. Þetta sýnist koma allvel fram á árunum 1601- 1920. Með nokkuð jöfnu millibili koma þá einir átta áratugir sem eru kaldari en meðaltalið svo að nemur þriðjungi úr gráðu. Þá er hitinn að jafnaði um 2,7 stig. Þá verður hungurdauði algengur, líklega síðast árið 1887. Þess á milli verða einstakir áratugir 0,7 stigum hlýrri eða svo. Bústofninn eykst þá og mannfallið í harðindunum er unnið upp. Ætla má að á fyrri skeiðum Íslandssögunnar hafi breytileiki loftslagsins verið svipaður, en ekki nærri eins örlagaríkur vegna meiri hlýinda. Og á hlýindaskeiði síðustu aldar er einmitt líka um 0,7 stiga munur á hlýjustu og köldustu áratugum. Þannig má greina ákveðna reglusemi í sögunni af loftslagi Íslands, og af henni má kannski læra nokkuð um hvaða breytileika lofthitans er að vænta í framtíðinni þegar stórkostleg áhrif af manna völdum eru hugsanleg. En það er önnur saga.

Heimildir: Páll Bergþórsson 1962. Óprentuð skýrsla til History Section of the Conference on the Climate of the Eleventh and Sixteenth Centuries, Aspen, Colorado 16.-24. júní 1962.

Páll Bergþórsson 1969. Hafís og hitastig á liðnum öldum. Hafísinn 333-345. Almenna bókafélagið 1969.

Páll Bergþórsson 2004. Tilraunasalur veðranna. Jöklaveröld 87-94. Skrudda 2004.

Grootes, P.M., and M. Stuvier 1997. Oxygen 18/16 variability in Greenland snow and ice.......Journal of Geophysical Research 102, 26455-26470 (1997).