Vilhjálmur Bjarnason
Vilhjálmur Bjarnason
Eftir Rúnar Pálmason runarp@mbl.
Eftir Rúnar Pálmason runarp@mbl.is
VILHJÁLMUR Bjarnason, aðjúnkt við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, segir að þýski bankinn Hauck & Aufhäuser, hafi aldrei átt hlut í Búnaðarbankanum heldur hafi S-hópurinn fengið lán hjá þýska bankanum til að fjármagna kaupin og veðsett um leið hlutabréf í Búnaðarbankanum. Vilhjálmur segir að fyrri eigendur Búnaðarbankans, íslenska þjóðin, hafi verið blekktir með því að láta líta svo út að þýski bankinn hafi tekið þátt í kaupunum.

Aðalframkvæmdastjóri Hauck & Aufhäuser kom hingað til lands til að vera við undirskrift samningsins og hefur í fjölmiðlum m.a. sagt að Búnaðarbankinn væri áhugaverður fjárfestingarkostur. "Annaðhvort skrökvar hann í fjölmiðlum eða hann skrökvar í ársskýrslunni sinni," sagði Vilhjálmur í samtali við Morgunblaðið. Það væri alveg ljóst að ef Hauck & Aufhäuser hefði átt hlut í Búnaðarbankanum, hefði það átt að koma fram í ársskýrslu bankans en svo væri ekki.

Vilhjálmur sagði að áður hefðu komið fram að engin merki væru um Búnaðarbankann í ársskýrslunni, þetta væru í sjálfu sér ekki nýjar upplýsingar. Aðspurður sagði hann að margir hefðu leitað skýringa hjá þýska bankanum á þessu misræmi en þeir hefðu engin svör fengið. "Það var bara skellt á þá," sagði hann.

Vilhjálmur sagði að frá upphafi hefði legið ljóst fyrir að S-hópurinn hefði ekki átt fyrir Búnaðarbankanum og því orðið að útvega fé með einhverjum hætti. Hópurinn hefði því tekið lán hjá hinum þýska banka, en til þess að tilboð hópsins liti betur út hefði verið sagt að þýski bankinn væri hluthafi. Þýski bankinn hefði hins vegar aldrei ráðið nokkru um þennan meinta hlut, heldur hefðu aðrir farið með eignarhaldið, annaðhvort einhver innan S-hópsins eða hugsanlega Kaupþing. Síðar hefði lánið verið greitt upp, m.a. með gróðanum sem myndaðist þegar hlutabréf í Búnaðarbankanum snarhækkuðu. "Það er ekkert athugavert við að fá lán, en það er ýmislegt athugavert við að fá lán en segja að það sé eitthvað annað," sagði Vilhjálmur.

Búnaðarbankinn sameinaðist Kaupþingi formlega í mars 2003, þremur mánuðum eftir að skrifað var undir samninginn um sölu ríkisins á bankanum. Vilhjálmur telur að sameiningin hafi verið á teikniborðinu frá upphafi.

Aðspurður sagði Vilhjálmur að ástæðan fyrir því að hann ræddi þessi mál í samtali við Ríkisútvarpið í gær, væri einfaldlega sú að hann hefði verið spurður. Þá hefði hann bent á að Ríkisendurskoðun hefði talið óeðlilegt að S-hópurinn fékk greiðslufrest og jafnframt að söluverð á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum, 11,9 milljarðar, hefði átt að vera hærra þar sem ráðandi hlutur í bankanum hefði verið seldur á einu bretti.

Einu lán Eglu komu frá Landsbankanum

Í APRÍL 2003 sendi Egla hf. frá sér yfirlýsingu vegna umfjöllunar í fjölmiðlum sameiningu Kaupþings og Búnaðarbankans, þar sem m.a. kom fram að eina lánafyrirgreiðslan sem Egla hefði hlotið hefði verið frá Landsbankanum, viðskiptabanka Eglu og Kers hf. "Eigið fé Kers hf. er nú metið um 10 milljarðar króna og að undanförnu hefur félagið selt eignir að verðmæti um 5 milljarðar króna, í samræmi við endurskoðaða fjárfestingastefnu félagsins. Salan á hlut Kers hf. í Vátryggingafélagi Íslands hf. til Kaupþings fyrir 2,8 milljarða króna var liður í þessari endurskipulagningu fjárfestinga félagsins," segir í yfirlýsingunni.

Fjórir fulltrúar á aðalfundi

Þá væri rangt að þýski bankinn Hauck & Aufhäuser ætti ekki fulltrúa í nýju bankaráði Búnaðarbanans að fulltrúar bankans hefðu ekki mætt á aðalfund Búnaðarbanka Íslands hf. í mars 2003. Hvorki fleiri né færri en 4 fulltrúar þýska bankans hefðu setið aðalfund Búnaðarbankansþar á meðal Gatti, aðalframkvæmdastjóri hans, að því er fram kom í yfirlýsingu Eglu.

Þátttöku erlends banka var fagnað

ÞEGAR kaupsamningurinn vegna sölu á 45,8% hlut ríkisins í Búnaðarbankanum til S-hópsins var undirritaður í janúar 2003 kom fram að þýski bankinn Hauck & Aufhäuser hefði eignast 16,3% hlut í Búnaðarbankanum í gegnum hlut sinn í Eglu, sem var stærst þeirra félaga sem stóð að S-hópnum svokallaða. Í fréttatilkynningu frá kaupendum var því fagnað að traustur erlendur banki tæki þátt í að fjárfesta í íslenskri fjármálastofnun og að tengslin myndu nýtast í markaðssókn erlendis. Um ári síðar var tilkynnt að þýski bankinn hefði selt hluta af eign sinni í Búnaðarbankanum og fyrr í þessum mánuði var tilkynnt um að hann hefði selt það sem eftir var til Kjalars ehf. félags í eigu Ólafs Ólafssonar stjórnarformanns Samskipa. Þá hafði Búnaðarbankinn reyndar verið hluti af KB banka og síðar Kaupþing banka, í um tvö ár.