KRIKKET er ekki beinlínis þjóðaríþrótt Íslendinga og hefur lítið verið leikinn hér á landi í gegnum tíðina. Nú er þó orðin breyting á en indverskir og pakistanskir starfsmenn Impregilo koma saman oft í viku og leika krikket. Að sögn Ómars R. Valdimarssonar, talsmanns Impregilo, er spilað hverja helgi og einnig eftir vinnu á virkum dögum ef vel viðrar.
Ómar segir að skipt sé í tvö lið og að í hvoru liði séu þrettán manns. "Liðin heita Kar11 og Kar14 en það eru nöfnin á þeim verkefnum sem Impregilo er með á Kárahnjúkum," segir Ómar og vísar annars vegar til vinnu við aðrennslisgöngin og hins vegar til stíflunnar sjálfrar. "Pakistanar og Indverjar spila saman í liði en ekki á móti hver öðrum eins og maður hefði ætlað miðað við hversu köldu andar milli þessara þjóða."
Ómar segir að krikketleikararnir hafi smíðað kylfurnar sínar sjálfir og einnig grindur fyrir markstangir. Leikið er á steyptum velli sem er jafnframt notaður sem fótbolta- og körfuboltavöllur. "Það er auðvitað ekkert mikið um tómstundir á Kárahnjúkum þannig að þetta er kærkomin viðbót," segir Ómar sem enn hefur ekki lagt í að spila með enda segir hann leikmennina vera þónokkuð góða.
Ómar segist hafa heyrt af einu krikketliði á Íslandi og vill koma á framfæri áskorun til þess um að mæta Kárahnjúkaliðinu á heimavelli.