Minning Þórður Björnsson fv. ríkissaksóknari Fæddur 14. júní 1916 Dáinn 21. mars 1993 21. þ.m. lést Þórður Björnsson fyrrum ríkissaksóknari. Með Þórði er genginn mikilhæfur maður, sem um langt árabil hafði með höndum erfið og vandasöm störf á sviði opinberrar réttarvörslu.

Þórður var fæddur 14. júní 1916 í Reykjavík, sonur dr. juris Björns Þórðarsonar, fv. forsætisráðherra og konu hans Ingibjargar Ólafsdóttur Briem. Að loknu glæsilegu lagaprófi 1940 varð hann fulltrúi við embætti lögmanns í Reykjavík, fulltrúi hjá sakadómaranum í Reykjavík 1941, sakadómari í Reykjavík 1961, skipaður yfirsakadómari í Reykjavík 1964, uns hann var skipaður ríkissaksóknari frá 1. júlí 1973. Embætti ríkissaksóknara gegndi hann svo allt til þess, að hann lét af störfum fyrir aldurssakir 30. júní 1986. Margvísleg önnur störf hafði Þórður með höndum um daga sína og kom víða við sögu enda áhugamálin mörg. Meðal slíkra starfa hans og hugðarefna má m.a. nefna störf hans að bæjarmálefnum Reykavíkur á árunum 1950-1962, störf að flugmálum, félagsmálum lögfræðinga og dómara svo og störf í ýmsum stjórnskipuðum nefndum og ráðum, sem fjölluðu um margháttuð efni, einkum á sviði refsi- og réttarfarslöggjafar.

Aðalstörf hans voru þó sem fyrr segir lengst af dómarastörf, en síðustu starfsár hans hvíldu embættisskyldur ríkissaksóknara á herðum hans. Það er sannfæring mín, að þau störf hafi Þórður rækt af mikilli eljusemi og nákvæmni. Munum við, sem unnum með honum á þessum vettvangi, lengi minnast þeirra starfa hans. Er Þórður lét af störfum í lok júní 1986, lýsti hann nokkuð viðhorfi sínu til þessara starfsskyldna í blaðagrein, og veit ég, að margir lagamenn minnast nú við fráfall Þórðar þeirra orða, er hann lét þá falla um þetta efni, þ. á m. um þær embættisskyldur, sem að hans dómi hvíla á herðum ríkissaksóknara. Orð hans þá voru merk hugvekja til allra þeirra, sem um þessi málefni fjalla. Ætla ég, að sagan muni síðar meir leiða í ljós, hversu trúr Þórður var þessum viðhorfum sínum sem ríkissaksóknari. Þórður er og öllum minnisstæður fyrir frábæran flutning mála fyrir dómstólum. Kom þar margt til, svo sem traust þekking á málum og lagagrundvelli þeirra, svo og tilþrifamikill flutningur málanna og af slíkri íþrótt ræðumennsku, að eftirminnileg er öllum, er á hlýddu.

Við fráfall Þórðar er margs að minnast frá samskiptum okkar á starfsferli hans, sem náðu yfir röska þrjá áratugi. Minnist ég með þakklæti margra ráða hans og hvatningarorða, m.a. á fyrstu árum rannsóknarlögreglu ríkisins, er unnið var að skipulagi og mótun þeirrar stofnunar. Náin samráð voru og oft milli okkar, er veigamikil mál eða álitaefni komu upp.

5. apríl 1960 gekk Þórður að eiga Guðfinnu Guðmundsdóttur, hina mætustu konu, og var Guðfinna sannarlega gæfa hans.

Við Erla heiðrum minningu Þórðar Björnssonar og sendum Guðfinnu okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Hallvarður Einvarðsson.