Snörurnar eru á leið til Noregs.
Snörurnar eru á leið til Noregs.
Eftir Birtu Björnsdóttur birta@mbl.is Í DAG hefst í ellefta sinn þriggja daga kántríhátíð í Breim í Noregi.
Eftir Birtu Björnsdóttur birta@mbl.is
Í DAG hefst í ellefta sinn þriggja daga kántríhátíð í Breim í Noregi. Í fyrsta sinn geta Íslendingar státað sig af flytjendum á hátíðinni en Snörurnar, þær Eva Ásrún Albertsdóttir, Erna Þórarinsdóttir og Helga Möller, koma þar fram á föstudaginn ásamt hljómsveit.

Samstarf Snaranna hefur legið niðri undanfarin ár þótt þær hafi ekki formlega sagt því slitið. Þegar þeim bauðst að koma fram á hátíðinni fannst þeim tilvalið tækifæri að blása í seglin og hefja samstarf að nýju.

"Við erum búnar að syngja saman síðan 1996 en þá kom fyrsta platan okkar út," segir Eva Ásrún.

"Guðrún Gunnarsdóttir var upphaflega með okkur en Helga Möller kom í hennar stað árið 1997 en þá kom síðari platan okkar út."

Eva Ásrún segir samstarfið hafa verið heldur losaralegt eftir það og þá sérstaklega fyrir þær sakir að Erna hafi verið búsett bæði í London og í Mývatnssveitinni.

"Það dróst bara allt of lengi hjá okkur að koma saman aftur," segir Eva Ásrún.

Tilurð þátttökunnar er sú að eiginmaður Ernu er vinur Nils Sandal sem er í forsvari fyrir hátíðina. Þegar hann komst að því að Erna væri búin að gefa út tvær kántríplötur með vinkonum sínum í Snörunum bauð hann þeim að koma fram á hátíðinni.

"Hann bauð okkur fyrst að koma fyrir tveimur árum en við vorum ekki tilbúnar," segir Eva Ásrún.

"Hann bauð okkur svo gull og græna skóga að þessu sinni svo það var ekki hægt að segja nei við því. Þetta var líka fínt tilefni til að setja saman hljómsveit til að spila með okkur en við höfum aldrei gert það áður."

Snörurnar hafa snarað saman sex manna hljómsveit til undirleiks en hana skipa þeir Albert Ásvaldsson, Birgir Kárason, Magnús Ásvaldsson, Magnús Kjartansson, Valmar Väljaots og Vilhjálmur Guðjónsson.

"Við ætlum að leika lög af gömlu plötunum okkar á hátíðinni en við erum þessa dagana einnig að vinna að nýju efni og það stendur til að gefa út nýja plötu á næstunni," segir Eva Ásrún og bætir við að í kjölfarið standi til meiri spilamennska hjá Snörunum. "Við erum bara rétt að byrja aftur."

Auk Snaranna koma fram á hátíðinni blágras-söngvarinn Ricky Skaggs, en hann er einn þekktasti kántrítónlistarmaður Bandaríkjanna og hefur hlotið 8 Grammy-verðlaun fyrir tónlist sína, og samlandi hans Billy Yates, en nýjasta platan hans Anywhere but Nashville var af mörgum talin ein besta kántríplata ársins 2004.