15. júlí 2005 | Íþróttir | 726 orð | 1 mynd

Eyjamenn í slæmri stöðu eftir jafntefli á heimavelli

Páll Hjarðar á hér í baráttu við einn sóknarmanna B-36 frá Færeyjum.
Páll Hjarðar á hér í baráttu við einn sóknarmanna B-36 frá Færeyjum. — Morgunblaðið/Sigfús
ÍBV og B-36 frá Færeyjum skildu jöfn í Eyjum í gærkvöldi í UEFA-bikarnum, 1-1 og óhætt að segja að úrslitin hafi komið á óvart.
ÍBV og B-36 frá Færeyjum skildu jöfn í Eyjum í gærkvöldi í UEFA-bikarnum, 1-1 og óhætt að segja að úrslitin hafi komið á óvart. Reyndar eru Færeyingarnir í toppbaráttu heima fyrir á meðan Eyjamenn eru í botnbaráttu Landsbankadeildarinnar en þó sáu það flestir á Hásteinsvellinum að Eyjamenn eiga að vinna B-36. Hins vegar spiluðu heimamenn einn af sínum verri leikjum í sumar og því fór sem fór.

Eftir Júlíus G. Ingason
Það var eins og leikmenn ÍBV væru ekki tilbúnir í slaginn því það voru Færeyingarnir sem byrjuðu betur og voru frískari fyrsta stundarfjórðunginn. Og fyrsta markið kom strax á sjöttu mínútu, þá sóttu Færeyingar upp vinstri kantinn og Bergur Midjord sendi fyrir markið. Hvorki sóknarmaður B-36 né varnarmenn ÍBV komust í boltann sem sigldi alla leið í markið, sannarlega klaufalegt hjá Eyjamönnum en leikmenn B-36 fögnuðu innilega.

Aðeins tveimur mínútum síðar þurfti Birkir Kristinsson að taka á honum stóra sínum þegar Niels Joensen átti ágætan skalla að marki sem Birkir varði. En smám saman tókst Eyjamönnum að vinna sig inn í leikinn, Pétur Óskar Sigurðsson var nærri búinn að jafna á átjándu mínútu þegar hann slapp í gegnum vörn gestanna og lék á markvörð þeirra en varnarmenn vörðu skot hans. En honum gekk betur sjö mínútum síðar þegar hann vann boltann af varnarmönnum B-36, lék sig í gegn og renndi boltanum í netið og jafnaði þar með leikinn. Það sem eftir lifði fyrri hálfleiks voru Eyjamenn sterkari en þó vantaði alltaf herslumuninn og staðan því 1-1 í hálfleik.

Ef áhorfendur á Hásteinsvellinum voru svekktir með fyrri hálfleikinn þá var síðari hálfleikurinn ekki til þess fallinn að bæta geð þeirra. Leikmenn B-36 lögðu meiri áherslu á að halda fengnum hlut og þurftu í raun ekki að hafa mikið fyrir því þar sem Eyjamenn voru algjörlega á hælunum í síðari hálfleik.

Matthew Platt átti þeirra hættulegasta færi þegar hann átti skot að marki B-36 en markvörður þeirra varði ágætlega út við stöng. Besta færi hálfleiksins fékk hins vegar fyrrverandi leikmaður ÍBV, Allan Mörköre þegar hann slapp í gegn eftir varnarmistök ÍBV en Birkir varði meistaralega frá honum. Fleiri urðu mörkin ekki og Eyjamenn gengu vonsviknir af velli.

Leikmenn ÍBV geta svo sannarlega nagað sig í handarbökin að hafa ekki náð hagstæðari úrslitum í gærkvöldi. Færeyska liðið spilaði reyndar ágætlega og leikmenn liðsins voru skipulagði og fastir fyrir. Hins vegar eiga Eyjamenn að vera með mun betra lið en það var eins og leikmenn liðsins hefðu ekki áhuga á að komast áfram í Evrópukeppninni. Nú dugir þeim ekkert minna en að skora mark á útivelli auk þess að halda hreinu í síðari leiknum, nokkuð sem hefur ekki verið sterkasta hlið ÍBV í sumar enda aðeins skorað eitt mark á útivelli í Landsbankadeildinni en fengið á sig fjórtán.

Arfaslakt hjá okkur

Birkir Kristinsson og Pétur Runólfsson voru þeir einu sem sýndu sitt rétta andlit í daufu Eyjaliði. Birkir var afar ósáttur við spilamennskuna. "Fyrirfram hefði maður verið afar ósáttur við þessi úrslit en úr því sem komið var þá áttum við ekkert meira skilið. Það kom ágætur kafli hjá okkur í fyrri hálfleik en síðan ekki sögunni meir. Seinni hálfleikur var arfaslakur hjá okkur og ég veit ekki hvað var eiginlega að. Menn hljóta að vera svona þreyttir eftir þessa leiki í deildinni en samt sem áður var þetta arfaslakt hjá okkur.

Við vitum að við getum betur og eigum að geta unnið þetta lið hér á heimavelli. Núna erum við búnir að setja okkur í mjög erfiða stöðu, þurfum helst að sækja sigur og nú þurfum við bara að hysja upp um okkur buxurnar og fara að spila fótbolta á útivelli. Við verðum bara að byrja í Keflavík á mánudaginn og fylgja því svo eftir í Færeyjum," sagði Birkir.

Ánægðir en heill leikur eftir

Pól Thorsteinsson, fyrirliði B-36 var ánægður í leikslok. "Við komum hingað til að ná í hagstæð úrslit og við erum ánægðir. Mér fannst við miklu betri fyrstu fimmtán mínúturnar og þeir voru heppnir með jöfnunarmarkið. Boltinn fór þá í okkar mann og skaust inn fyrir, beint á sóknarmann þeirra sem var í góðu færi. Við erum auðvitað ánægðir með jafntefli hér en gerum okkur grein fyrir að það er heill leikur eftir. En ef við fáum okkar stuðningsmenn á völlinn þá er allt hægt. Það væri gaman að komast áfram en við þurfum að gleyma þessum leik núna og búa okkur undir þann næsta.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.