23. júlí 2005 | Fólk í fréttum | 1450 orð | 4 myndir

Tónlist | Ferill Pálma Gunnarssonar í brennidepli á Vopnafirði um helgina

Tíminn flýgur hratt

Ísland var gripið Evróvisjón-æði 1986 þegar ICY hópurinn fór til Noregs með lagið um Gleðibankann. Árangurinn varð þó ekki jafngóður og vonir stóðu til.
Ísland var gripið Evróvisjón-æði 1986 þegar ICY hópurinn fór til Noregs með lagið um Gleðibankann. Árangurinn varð þó ekki jafngóður og vonir stóðu til.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Liðin eru fjörutíu ár frá því Pálmi Gunnarsson steig fyrstu skrefin á farsælum tónlistarferli. Ásgeir Ingvarsson ræddi við hann af því tilefni.
FÁIR íslenskir tónlistarmenn hafa átt jafnlangan og farsælan feril og Pálmi Gunnarsson. Um helgina fagnar Pálmi 40 ára tónlistarafmæli sínu á Vopnafirði, í bænum þar sem hann er fæddur og uppalinn og fór fyrst að gutla á hljóðfæri.

"Í raun má segja að ég sé byrjaður 13 eða 14 ára. Þá er ég kominn í bítlaband á síldarárunum á Vopnafirði. Það var allt iðandi í tónlist þar á þessum tíma," segir Pálmi, spurður um fyrstu skrefin. "Ég var 14 ára, 1964, þegar ég eignaðist fyrsta alvöru rafmagnshljóðfærið og var þá kominn á fullt í tónlistinni."

Refirnir á Laugum

Fyrsta alvöru hljómsveit Pálma var bandið Foxes sem til varð í Héraðsskólanum á Laugum.

"Ferillinn spannst þannig að eftir Laugar kom stutt tímabil þar sem ég spilaði ekkert. Þá var ég að flækjast um allan heim, reyndar með vini mínum úr Foxes, en þegar ég kom til baka fór ég í hljómsveit austur á fjörðum og var að spila á síldarárunum á Seyðisfirði og Hornafirði," heldur Pálmi áfram sögunni.

Skólun Magnúsar Ingimarssonar

Þegar Pálmi var 19 ára hreppti hann lausa stöðu í hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar, nokkuð sem Pálmi vill meina að hafi skipt sköpum fyrir tónlistarferil hans: "Það losnaði staða bassaleikara og söngvara hjá Magnúsi heitnum, sem var á þeim tíma einn af okkar fremstu hljómsveitarstjórum. Ég sótti um bréflega og mér var vippað til Reykjavíkur í prufu og fékk síðan starfið. Ég komst inn fyrir náð og miskunn, því ég lét í það skína að ég væri góður bassaleikari en ég hafði ekki snert á því hljóðfæri neitt að ráði, nema bara rétt til að pikka upp nokkur lög.

Magnús sá nú fljótt að ég hafði kannski ekki sagt honum alveg rétt og satt til, en hann áttaði sig líklega á því að það væri auðvelt að gera úr mér bassaleikara og að ég gæti haldið lagi. Hann réð mig því á þeim forsendum að ég æfði mig eins og vitfirringur og stæðist kröfurnar sem hann, sem hljómsveitarstjóri, gerði til sinna manna.

Magnús ól mig svolítið upp. Hann tuktaði mig til sem tónlistarmann og gerði kröfu um að ég nýtti þessa hæfileika sem ég hafði, og gerði það eins og maður. Hann kenndi mér án þess að ég tæki eftir því og var alltaf að troða í mig tónlist og þekkingu sem hefur nýst mér síðan." Pálmi þakkar Magnúsi árangur sinn í tónlist að miklu leyti: "Hæfileikarnir nýtast manni ekki nema maður fái einhverja svona þjálfun til viðbótar. Magnús var maður sem skrifaði út fyrir sitt fólk og setti menn í alveg ógurlega erfið verkefni. Það var æft á hverjum einasta degi."

Jafnvígur á kontrabassa og rafbassa

Pálmi lærði um skeið við Tónlistarskóla Reykjavíkur hjá Einari B. Waage kontrabassaleikara. "Ég náði mér í nokkur stig þar, en mátti ekki mikið vera að því að sinna klassíkinni," segir Pálmi. "Það voru aðrir hlutir að taka tímann frá manni, en ég hafði rosalega gott af náminu og fór á þessum tíma að spila djass á fullu með Guðmundi heitnum Ingólfssyni. Með því var ég að djöflast í poppinu og spilaði allskonar tónlist. Ég var t.d. að spila á kontrabassa í þjóðlagatónlist og starfaði mikið við upptökur á allskonar tónlist. Það var töluvert af bassaleikurum þá, en ekki endilega margir sem voru jafnvígir á kontrabassa og rafbassa eins og ég."

Júdas súperstjarna

Pálma skaut fyrst upp á stjörnuhimininn snemma á 8. áratugnum: "Ég tók þátt í uppsetningu á Jesus Christ Superstar hjá Leikfélagi Reykjavíkur, og lék þar eitt af aðalhlutverkunum: Júdas. Bæði fékk stykkið gríðarlega góða dóma á þessum tíma og ég þótti standa mig vel. Þetta var ægilega skemmtilegur kapítuli. Söngleikurinn varð rækilegur smellur og ég varð í raun þekktur á einni nóttu."

Mannakorn slá í gegn

Baldur Már Arngrímsson lék með Pálma í söngleiknum en það var gegnum vinskap þeirra að ferill Pálma með Mannakornum hófst. Fyrstu upptökurnar með þeirri hljómsveit komu Pálma á framfæri sem tónlistarmanni: "Fyrsta platan, Mannakorn, varð gríðarlega vinsæl. Svo komu þær hver á fætur annarri og eru í dag, held ég, orðnar 9 talsins."

Mannakorn áttu síðan heiðurinn að fjöldamörgum ástsælustu lögum Íslendinga og sendi frá sér smelli á smelli ofan.

Brunaliðið kveikir í landsmönnum

Þá gerðist það að Jón Ólafsson bjó til hljómsveitina Brunaliðið, sem átt hefur fáa sína líka hvað vinsældir varðar: "Það band skaust upp á stjörnuhimininn með einu lagi: "Ég er á leiðinni" eftir Magnús Eiríksson. Það lag varð alveg óhugnanlega vinsælt á rosalega stuttum tíma."

Alls sendi Brunaliðið frá sér þrjár plötur, þá fyrstu, jólaplötu og fljótlega þriðju plötuna, en ekki varð meira úr sveitinni. Bandið var ekki hvað síst merkilegt fyrir það að vera í raun fyrsta hljómsveitin sem sett var saman í því augnamiði að búa til metsöluhljómsveit: "Útgefandinn smíðaði þetta konsept, hóaði saman fullt af skrautfjöðrum og hnoðaði saman í eitt band. Við vorum líka svo heppin að fá þessi fínu hit-lög á fyrstu plöturnar. Það munar auðvitað um það þegar þú ert með eitthvað sem steinliggur og ég efast um að það séu mörg lög sem eiga eftir að toppa vinsældir "Ég er á leiðinni" jafnlangan tíma og það var í gangi." Ásamt Pálma voru í hljómsveitinni þau Ragga Gísla, Magnús Eiríks, Maggi Kjartans, Laddi, Diddú, Þórður Árnason og Sigurður Karlsson.

Um þetta leyti tók Pálmi ýmis hliðarstökk. Hann spilaði í hljómsveitinni Póker með Pétri heitnum Kristjánssyni og í hljómsveitinni Friðryk. "Friðryk var hörku rokksveit. Við gerðum eina plötu sem mér þykir mjög vænt um í dag."

Jafnframt gaf Pálmi út sólóplötur um þetta leyti: "Þetta voru plötur sem Jón Ólafsson vildi endilega að ég gerði. Þær voru að mörgu leyti ágætar en að öðru leyti kannski ekki voða góðar, þó það hafi verið margt skemmtilegt á þeim."

Gleðibankaförin mikla

Ein af stærstu stundum Pálma er tvímælalaust sögulegur flutningur ICY-hópsins á Gleðibankanum í Evróvisjónkeppninni í Bergen 1986:

"Gleðibankinn var í raun Mannakornslag sem átti ekki að fara í neina söngvakeppni. Við tókum þetta lag upp á einu kvöldi og fannst það voða sniðugt popplag og ætluðum að setja það á Mannakornsplötu." segir Pálmi frá. "Ég held ég sé að fara rétt með þegar ég segi að Elsa heitin, konan hans Magga Eiríkssonar, tók þetta lag, því henni fannst það svo skemmtilegt, og sendi kassettuna inn í keppnina án okkar vitundar. Við vorum síðan allt í einu kölluð til leiks."

Allt Ísland var gripið Evróvisjónæði: "Þetta var allt saman óvenjustórt og magnað: Að vera allt í einu að syngja fyrir nokkur hundruð milljón manns. Öll umgjörðin og lætin í kringum þetta voru náttúrulega yfirgengileg og merkilegt að maður skyldi sleppa hér um bil óskaddaður frá þessu."

Óþreytandi að spila

Eftir heimkomuna virðist sem meiri ró hafi færst yfir feril Pálma. Hann heldur áfram að vinna við tónlist og Mannakorn lifa áfram, þó að hljómsveitin hafi fengið að lúlla inni á milli, eins og Pálmi orðar það, enda var það síðast í fyrra að hljómsveitin sendi frá sér plötu. "Það var ein af okkar betri plötum og við erum að taka meira upp. Við höldum þessu áfram á meðan við nennum," bætir Pálmi við kankvíslega.

Í dag fæst Pálmi við ýmis verkefni. "Ég er að hlúa að djassáhuga mínum. Við erum með band hérna fyrir norðan sem heitir Park Project og erum að þróa það. Við höfum prufukeyrt það á tónleikum og erum að fara til Danmerkur í haust í tónleikaferð."

Félagsskapurinn mikilvægastur

Þegar Pálmi er beðinn um að nefna það sem hæst stendur upp úr á ferlinum er hann ekki lengi að hugsa sig um: "Ég hef oft hugsað út í þetta. Ég enda alltaf á því að segja að það sem lifir sterkast eftir þennan tíma er liðið sem ég er búinn að spila með. Það hefur skipt sköpum fyrir mig að hafa fengið að vinna með góðu tónlistarfólki, fá uppeldi hjá toppmanni eins og Magnúsi heitnum Ingimars, hitta síðan og eignast fyrir persónulegan vin og félaga einn af betri lagasmiðum landsins, Magnús Eiríksson, og síðan að vinna með öllu hinu æðislega fólkinu sem ég hef verið svo heppinn að fá að flytja tónlist með."

Vinafundur á Vopnafirði

Vegleg dagskrá verður á Vopnafjarðardögum um helgina og er tónlistarafmæli Pálma þar í brennidepli. "Það er meiningin að skoða þennan feril minn. Það verður voða gaman að standa í þessu. Krakkarnir á staðnum verða með sitt sérkvöld og ætla að fara í gegnum ferilinn og flytja lögin mín. Síðan mætir herskari af liði þarna austur." Mannakorn verða á sínum stað og gömlu refirnir úr Foxes ætla að spila saman í fyrsta skipti í nærri fjörutíu ár: "Við verðum með djass- og blúskvöld á hótelinu og þarna verða þeir, flottu tónlistarmennirnir: Eyþór Gunnarson, Gunnlaugur Briem, Magnús Eiríksson, Ellen Kristjánsdóttir, Agnar Már Magnússon, Benedikt Brynleifsson og Rúnar Georgsson. Það er ekki annað hægt en að það komi einhver skemmtilegheit út úr þessu."

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.