Blái Hnötturinn. Úr sýningu Þjóðleikhússins.
Blái Hnötturinn. Úr sýningu Þjóðleikhússins. — Morgunblaðið/Ásdís
Greinarhöfundur segir margar af frægustu skáldsögum tuttugustu aldarinnar vera "staðleysubókmenntir og dystópíur, en dystópían er, að segja má, andhverfan við útópíuna.

Greinarhöfundur segir margar af frægustu skáldsögum tuttugustu aldarinnar vera "staðleysubókmenntir og dystópíur, en dystópían er, að segja má, andhverfan við útópíuna. Eiga slík bókmenntaverk það sammerkt að óttast komandi framtíð og sjá höfundar þeirra teikn á lofti í samtíð sinni um eitthvað sem illa gæti farið." Í þessari grein skoðar hann tvö verk Andra Snæs Magnasonar, Bláa hnöttinn og Lovestar í þessu tiltekna hugmyndafræðilega samhengi.

Eftir því sem samfélög eru einsleitari og efnislegri því hagkvæmari og stöðugri teljast þau, enda felst meiri kostnaður í fjölbreytni og andlegum gildum, en ella. Þar af leiðandi er ætíð leitað leiða til að skapa stöðluð mót fyrir samfélögin og manninn. Nú á dögum fer sú viðleitni að mestu leyti fram í gegnum markaðinn, auglýsingar og neyslu. Og er markmiðið að gera sem flesta að góðum og dyggum neytendum einhverrar vöru eða vara. Stöðugt dynja á fólki skilaboð um hvernig lífsviðmið best sé að tileinka sér. Þeir sem ekki falla að þeim viðmiðum lenda utangarðs. Það væri svo líklega kjöraðstaða allra yfirvalda eða fyrirtækja að geta haft fullkomna stjórn á fólki og mótað líf þess á hagkvæman hátt. Auðvitað er hér um talsverða einföldun að ræða, en engu að síður hefir markaðurinn og neyslusamfélagið, er við búum við, ótrúlega mikil áhrif á líf okkar og myndi án vafa vilja hafa enn meiri áhrif væri þess unnt...Hugmyndir sem þessar myndu falla vel að samfélagi staðleysunnar, eða dystópíunnar, sem snýst fyrst og fremst um að fella alla einstaklinga í sama kerfi. Boðorð dagsins gæti því verið hið sama og á upphafssíðu sögu Aldous Huxleys, Veröld góð og ný ( Brave New World ), "SAMFÉLAG - SAMRÆMI - STÖÐUGLEIKI."

Formgerð og innihald dystópíunnar

Margar af frægustu skáldsögum tuttugustu aldarinnar eru staðleysubókmenntir og dystópíur, en dystópían er, að segja má, andhverfan við útópíuna. Eiga slík bókmenntaverk það sammerkt að óttast komandi framtíð og sjá höfundar þeirra teikn á lofti í samtíð sinni um eitthvað sem illa gæti farið. Það er að segja samfélag sem gæti orðið dystópískt.

Í samfélagi dystópíunnar er stöðugt unnið gegn einstaklingsbundinni hugsun. Allir eiga að vera hlýðnir og auðsveipir og hafa heildina að leiðarljósi. Í heildrænni samfélagsmynd rúmast síðan ekkert af því sem samtímamanninum er eðlilegt og hafa tilfinningar vikið fyrir stöðugri línulegri líðan. Allt verður að lúta lögmálum kerfisins og kerfið er snautt af mannlegum eða húmanískum gildum og þar af leiðandi á listsköpun til dæmis ekki upp á pallborðið. Þar ríkir köld vísinda- og staðreyndahyggja sem hefir í för með sér áherslu á neyslu, efnisleg gæði, bælingu líkamans og almenna skilvirkni, sem útilokar alla dramatík og náttúrufegurðardýrkun, enda er náttúrufegurð ekki praktísk. Til að þessu sé fylgt eftir er allt að því skothelt eftirlitskerfi sem sér um að allir fylgi þeirri línu sem lögð er, enda þarf ekki að vita neitt eða hugsa, kerfið sér um það. Í slíkri veröld finnast því ekki sérkenni eða sérvitringsháttur og skiptir kerfið meira máli en einstaklingurinn. Sagan er tekin til gagngerrar endurskoðunar og hreinsuð af óæskilegum atriðum auk þess sem því er við bætt er fellur betur að kerfinu burtséð frá sannleikanum. Alla jafna hefir kerfið svo einhvers konar tákngerving eða guðs ígildi sem er upphafsmaður ráðandi samfélagsforms og undirliggjandi í því öllu.

Algengasta formúla dystópískra bókmennta er þannig að allir eru samdauna kerfinu. Allir nema einn maður. Í þessum manni endurspeglast viljinn til að hugsa fyrir sig sjálfur, taka sínar ákvarðanir, fá að efast eða bara að lifa með sínum tilfinningum. Hann er með öðrum orðum í uppreisn gegn kerfinu. Oft er það svo fyrir eins konar tilviljun að uppreisn á sér stað; einhvers konar galli í kerfinu hrindir af stað atburðarás sem gengur í berhögg gegn ríkjandi fyrirkomulagi. Í framhaldi af uppreisninni á kvenmaður það til að ganga til liðs við uppreisnarsegginn og stundum eru þau samferða í uppreisninni. Þar spilar ástin í flestum tilfellum stærstu rulluna, en hún er auðvitað, líkt og allar tilfinningar, ekki æskileg innan kerfisins og ef hún verður að vera það þá verður kerfið í það minnsta að hafa hönd í bagga með henni. Kerfið reynist svo erfiður andstæðingur og reynir að koma höggi á uppreisnarseggina, sem oftast leggja á flótta. Sá flótti leiðir vanalega til einhverra náttúru- og upprunalegra lykta.

Lovestar og Sagan af bláa hnettinum

Það er ekki hægt að segja að form dystópíunnar hafi verið vinsælt hjá íslenskum rithöfundum gegnum tíðina. En formið hefir verið vinsælt á alþjóðavísu og þá ekki bara sem bókmenntaform, því það hefir einnig getið af sér fjölmargar kvikmyndir. Allt frá afþreyingarmyndum á borð við Demolition Man (1993) með Sylvester Stallone og Söndru Bullock í aðalhlutverkum til menningarklassíkurinnar Logan's Run (1976) með enska leikaranum Michael York í aðalhlutverki (að vísu er Logan's Run gerð eftir skáldsögu Williams F. Nolans).

Einn íslenskur rithöfundur hefir þó unnið með formið í báðum þeim sögum er komið hafa út eftir hann. Það er rithöfundurinn Andri Snær Magnason með skáldsögunni Lovestar (2002) og barnabókinni Sagan af bláa hnettinum (1999). En þær má báðar fella undir flokk staðleysubókmenntanna og dystópíunnar. Að vísu er byrjun Sögunnar af bláa hnettinum útópísk, eða öllu heldur arkadísk. En arkadía felur í sér frumstætt samfélag þar sem íbúarnir lifa í sátt og samlyndi við náttúruna og nýta það sem hún hefir að bjóða. Þannig er og umhorfs á bláa hnettinum. Þar er lýst stað, eða staðleysu, sem er fjölbreyttur og fallegur frá náttúrunnar hendi. Íbúarnir lifa á náttúrunnar gæðum og bera virðingu fyrir henni og eru friðsamir. Í einfaldleika þessarar samfélagsskipan eru upplifanir íbúanna af umhverfinu einstaklingsbundnar og skapandi, enda er hnötturinn eingöngu byggður börnum. En skjótt skipast veður í lofti og með komu hins fullorðna Gleði-Glaums Geimmundarsonar hefst dystópískt skeið á bláa hnettinum. Glaumur skilur ekki hvernig börnin geta lifað við þessar leiðinlegu og tilbreytingarsnauðu aðstæður og hefst handa við að innleiða kerfisbundið stuð sem allir eiga að aðhyllast. Hið kerfisbundna stuð fæst þó ekki ókeypis. Til þess að stuðvæða samfélag barnanna verður hann að ræna fiðrildadufti, negla sólina fasta, reka skýin og regnið burt og teflonhúða börnin þannig að duftið fari ekki af þeim. En þetta er til þess gert að krakkarnir geti, með hjálp fiðrildaduftsins, flogið og skemmt sér allan sólarhringinn. Afleiðingin er sú að einstrengingslegur þankagangur myndast. Hið eina sem kemst að er stuðið og víkja öll manneskjuleg gildi fyrir því (þau geta meira að segja ekki faðmast útaf teflonhúðuninni). Gjaldið sem Gleði-Glaumur tekur fyrir stuðvæðinguna er æska barnanna og smátt og smátt þurreys hann æskubrunn þeirra. Uppreisnin gegn þessu gerist fyrir slysni. Vinirnir Hulda og Brimir lenda óvart á hinni hlið hnattarins, sem er myrkvuð, skýjuð og blaut vegna þess að Glaumur er búinn að festa sólina þeirra megin og reka burt skýin. Þar komast þau í kynni við krakka sem, þrátt fyrir aðstæðurnar, halda fast í sömu gildi og ríktu eina tíð hjá Huldu og Brimi. Við það sjá þau villur síns vegar og er þau komast aftur heim taka þau til við að berjast gegn kerfinu við litla hrifningu hinna og er fyrir vikið útskúfað.

Það er auðvelt að lesa Söguna af bláa hnettinum á allegorískan hátt með Gleði-Glaum sem tákngerving markaðarins og kerfisins. Börnin standa fyrir manneskjuleg gildi sem spillt er með einsleitu kerfinu (æska þeirra tæmd) þannig að afdrif barnanna á myrkvuðu hliðinni skipta ekki svo miklu máli, eða alltént ekki það miklu máli að þau vilji, fyrst um sinn, láta eitthvað af þeirra gæðum frá sér fara svo hin börnin geti haft það jafngott og þau.

Sé horft á þetta í ljósi samtíma heimsmála er auðvelt að heimfæra sólarhliðina upp á vestræna neyslumenningu og myrkvuðu hliðina upp á þriðja heiminn sem er svo fyrir komið að hluta til vegna velsældar hins vestræna. Vestræni heimurinn vill sjaldnast vita eitthvað af hinum nema þegar hann á hagsmuna að gæta og er tilbúinn, rétt eins og börnin sólarmegin, að fara í stríð (sjá bls. 76) til að verja hagsmuni sína. Það er því um smættaða mynd af heiminum að ræða og kallast sú mynd um margt á við skáldsögu Pauls Auster, In the Country of Last Things (1987), þar sem, að segja má, öllum vandamálum heimsins er hrúgað á einn stað og fyrir utan er heimur sem lítið sem ekkert vill vita af þeim vandamálum.

Í Lovestar hefir kerfið gengið svo langt að markaðsvæða og gera að neysluvarningi, auk alls annars, dauðann, ástina, trúna á Guð og þær bænir sem honum (þeim) eru ætlaðar, auk þess að ná valdi á skynfærum fólks: málstöðvum, sjón og heyrn. Lovestar er það sem kalla mætti hreinræktaða dystópíu. Þar er allt að finna sem einkennir það form: þar er tákngervingur kerfisins eða Lovestar sjálfur sem er stofnandi og upphafsmaður þess, eftirlit sem er svo sterkt að hvern kúk má rekja til eiganda síns (sjá bls. 169), bæling raunverulegra líkama þar sem geirvörtur eru taldar ósnyrtilegar (sjá bls. 146), þar þarf fólk ekki að hugsa sjálfstætt því eins fljótt og er unnt er það flokkað niður í markhóp og fær það sem hentar því best, hvort sem það lýtur að efnislegum þáttum eða ástinni, sem þannig hefir í raun verið gerð efnisleg, náttúrunni hefir ekki beint verið útrýmt, en hún hefir verið betrumbætt, sagan hefir svo líka verið löguð að ríkjandi stjórnarháttum.

Gegn kerfinu rís svo parið Indriði og Sigríður sem er ástfangið án þess að kerfið komi við sögu. Slík einstaklingsbundin hegðun ógnar kerfinu og gerir það því sitt besta til að stía þeim í sundur. Að vísu verður í vissum skilningi slys til þess að þau eru ekki talin samrýmast hvort öðru. Slys er veldur tilfinningaumróti hjá parinu og leiðir til uppreisnar af hálfu Indriða er hann reynir að vinna Sigríði til baka, en milli tilfinninga og uppreisnar má ætíð setja samasemmerki.

Í þessu samfélagi, sem nær yfir allan heiminn, er neyslan alfarið ráðandi aðili. Það er meira að segja hægt að spóla börn sín til baka (eiga varaeintak) sé maður ekki ánægður með hvernig þau hafa farið og er Indriði eintak númer tvö af sjálfum sér (það að spóla til baka verður reyndar bannað er fram líða stundir). Óneitanlega minnir það á vöruskil. En neyslan lætur sig ekki nokkuð annað varða en sölutölur og verður því einstaklingurinn eingöngu tala á blaði innan þess háttar samfélagsforms. Og til þess að fólk sætti sig örugglega við hlutskipti sitt getur það hringt í þar til gerða Eftirsjá til að fá staðfestingu á því að það sé að gera rétt. En Eftirsjáin þjónar því hlutverki að réttlæta fyrirfram mótað líf fólks fái það einhverjar efasemdir og hefir því svipuðu hlutverki að gegna og lyfið Soma, í Veröld ný og góð , sem fólk notar til að flýja tilfinningar sínar. Líf í dystópísku samfélagi er því umfram allt flatt og rúmar ekki frávik. Og þar sem ekki rúmast frávik finnst ekki andstaða og ef andstöðu er ekki að finna er alltaf hægt að ganga lengra og lengra með hið dystópíska samfélagsform.

Óttinn

Það er augljóst að báðar sögurnar endurspegla ótta yfir komandi framtíð. Ótta sem er kirfilega staðsettur í samtíma okkar. Samtíma sem heldur efnislegum gæðum á lofti á kostnað hinna andlegu, samtíma sem felur í sér einsleit skilaboð um það hvernig best sé að haga lífi sínu, samtíma þar sem náttúran og fegurð hennar hefir ekkert gildi í sjálfu sér, heldur eingöngu sem efnislegur þáttur (hvort hægt sé að virkja hana eður ei), samtíma sem er stjórnað af markaðsöflunum sem hafa það eitt að markmiði að hámarka sinn gróða án tillits til mannlegra gilda eða tilfinninga. Þær endurspegla þann ótta að við taki ómanneskjulegur heimur sem vill ekki vita af þjáningum annarra, heldur lifa í sínum eigin stuðvæna og efnislega heimi, ótta við heim sem stendur á sama!

Heimildir

Ég bendi, í þessu samhengi, á Staðleysur fyrsta hefti Ritsins: Tímarits Hugvísindastofnunar frá árinu 2002.

Aldous Huxley. 1988 (kom fyrst út 1932). Veröld góð og ný. Mál og menning, Reykjavík.

Andri Snær Magnason. 1999. Sagan af bláa hnettinum. Mál og menning, Reykjavík.

Sami. 2002. Lovestar. Mál og menning, Reykjavík.

Sumarliði R. Ísleifsson. 2002. "Fyrirmyndarsamfélagið Ísland." Ritið:1/2002 Tímarit Hugvísindastofnunar: 117-129.

Höfundur er bókmenntafræðingur.