Hannes Pétursson
Hannes Pétursson
eftir Hannes Pétursson með innganginum ,,Ferðin heim. Um ljóð Hannesar Péturssonar" eftir Njörð P. Njarðvík. - 461 bls. Mál og menning. 2. útgáfa. 2005.

Fá skáld yrkja betur en Hannes Pétursson. Um sumt minna ljóð hans á tæra og djúpa lygnu. Mér hefur löngum virst styrkur hans vera fólginn í snarpri myndsköpun sem einkennist jafnan af knöppu og einföldu myndmáli. Myndin stendur fyrir sínu án skýringar. En undir yfirborði hinnar kyrrlátu myndveraldar eru einnig fólgin heimspekileg átök sem gæða kvæði hans í senn tilvistarlegri dýpt og fágaðri hugsun.

Ljóðasafn Hannesar, sem nýlega kom út í annað sinn með fróðlegum og ítarlegum inngangi Njarðar P. Njarðvík, veitir góða yfirsýn yfir ljóðagerð hans. Náttúran og sagan gegna þar veigamiklu hlutverki. En oft sem eins konar rammi utan um heimspekilega hugsun. Í mínum huga er hugmyndaheimur Hannesar fyrst og fremst glíma við veruna og tímann og ekki ólíklegt að ýmsum finnist hugsun hans kallast á við hugmyndir Heideggers og jafnvel Nietzsches. Óvissa og tilvistarlegur efi setja mark sitt á ljóðin. Í þekktri ljóðmynd segir Hannes frá því þegar stjörnufræðingurinn Kóperníkus gengur um undir stjörnum og tungli í sveit þar sem allt virðist vera í föstum skorðum. En bændurnir sem koma af ökrunum og sjá til hans vita ekki að með hugmyndum sínum og rannsóknum hjó hann ,,þessa jörð af feyskinni rót - henti / sem litlum steini langt út í myrkur og tóm".

Myrkur og tóm eru stór orð og undirstrika þá upplausn heimsmyndar og óvissu sem einkenndi svo mjög kveðskap eftirstríðsáranna. En hinn trúarlegi efi sem ávallt er einnig fyrir hendi í ljóðum Hannesar gegnir ekki minna hlutverki í mótun ljóðveraldar hans. Talað við einhyrning úr ljóðabókinni Eldhyl er kunnasta kvæði Hannesar þar sem meginefnið er slíkur efi. Þar notar skáldið táknmyndir, einhyrning og fisk, sem vísa til Krists, til að undirstrika nærveru sína og fjarveru við guðdóminn. Hann segist hafa átt einhyrninginn sem bróður og leiðtoga í bernsku. "En þig missti ég / og þín er ég að leita sífellt..."

Ljóð Hannesar bera því merki leitar í heimi þar sem guð er týndur. Í slíkum heimi verður maðurinn að taka að sér hlutverk guðdómsins í tilverunni og stundin að taka við af eilífðinni. Hannes kom snemma fram sem allt að því fullmótað skáld og þegar í fyrstu ljóðabók hans sjáum við þessa hugsun setta fram af miklu listfengi í kvæðinu Skeljum þar sem hún er falin í formi þjóðkvæðis. Kvæðið undirstrikar líka hvernig skáldið brúar hefð og nútíma með nútímalegri hugsun í hefðbundnum búningi. Ljóðmælandi hvetur okkur til að tína skeljarnar sem skolast hafa á land þó að þær lykist ekki um glitrandi steina eða perlur:

þær lykjast um annað;

þitt líf og þinn heim

því augnablikið

það býr í þeim

Við skulum ganga

suður með sjá

skeljarnar sindra

sandinum á

göngum og tínum

og gætum þess vel

að njóta er opnast

hin örlitla skel.

Frá vissu sjónarhorni virkar þessi hugsun sem flótti inn í veröld hins stundlega og ódýra. Kvæðið er ort í köldu stríði þar sem andstæð öfl tókust á og á þeim tíma þótti ýmsum ljóð Hannesar bera keim af þess háttar flótta. En slík er ekki ætlan skáldsins. Miklu fremur vakir sú hugmynd að baki að í guðlausum heimi sé það okkar ábyrgð að leita leiða til að skapa mannlega og ásættanlega veröld. Hannes er skáld sem heldur því fram að jörðin sé allt "og miklu meira en nóg / ef mennirnir kynnu að lifa" eins og segir í Söngvum til jarðarinnar. Einmitt sá kvæðabálkur þótti á sínum tíma bera merki tómhyggju. En sé litið á hann sem viðbrögð við hrynjandi himnum eftirstríðsáranna, gildiskreppu og upplausn, sést að þrátt fyrir að dauðinn og tómið séu fyrirferðarmikil í honum er hann fyrst og fremst lofsöngur um lífið í skugga dauðans:

Þyrstum huga safna ég lífinu saman

í sérhverri hreinni nautn: í lestri, í kossi -

svo allt verður tilfinning, dýrmæt og

daglega ný.

En Dauðinn á eftir að koma. Hann veit

hvar ég bý.

Líf okkar er upplifun, leit og nautn hins nýja. Það er stundlegt fremur en eilíft, jarðbundið fremur en upphafið. Það er tilveran í stundinni, lífsnautnin frjóa. Stund og staðir. Veran og tíminn. Handan þeirrar tilveru og þeirrar stundar er óvissan, hið óþekkta. Efinn. Hannes Pétursson skáld er sá sem túlkað hefur stund okkar á jörð og efann um hið ókomna af hvað mestu listfengi.

Skafti Þ. Halldórsson