Guðjón Sævar Jóhannesson fæddist á Kýrunnarstöðum í Hvammssveit 17. maí 1936. Hann lést á heimili sínu 1. ágúst síðastliðinn og fór útför hans fram frá Fossvogskirkju 8. ágúst.

Látinn er í Reykjavík Guðjón Jóhannesson læknir.

Við Guðjón vorum bræðrasynir. Hann var 6 árum yngri en ég, og ein af fyrstu minningum mínum um hann er frá sumrinu sem ég varð fjórtán ára og kom að Kleifum í Gilsfirði, æskuheimili hans vestur í Dölum, til þess að vera þar í sveit. Hann stendur í hlaðinu, heilsar varfærnislega og skoðar mig með hinum brúnu augum Ormsættarinnar. Ég komst brátt að því að þessi drengur hafði þegar tileinkað sér tungutak fullorðinna, og seinna frétti ég að hann hefði þá um veturinn farið að læra ensku eftir útvarpinu. Alla ævi síðan var Guðjón Jóhannesson að læra tungumál og hef ég enga tölu á þeim tungum sem hann átti við.

Á helstu Evrópumál var hann, að ég held bærilega læs, en mér er nær að halda að áhugi hans á ýmsum þeim tungumálum sem fjær liggja hafi ekki verið minni.

Nokkuð er það að haustið 1966 er við hjónin tókum hús á honum í Eskilstúnum, þar sem hann gegndi læknisstörfum, hafði hann kver í höndum sem bar nafnið "Forn-armensk málfræði".

Ekkert var fjær Guðjóni Jóhannessyni en að hreykja sér af tungumálakunnáttu sinni. Ambögur og smekkleysi í meðferð máls átti hann hins vegar bágt með að þola, jafnt fyrir það þó að um erlend mál væri að ræða. Ég minnist þess t.a.m. að eitt sinn er við hjón heilsuðum upp á þau Jóhönnu í Lundi í Svíþjóð, lét hann þau orð falla að sér þætti ófært hvað sænsku læknarnir væru gjarnir á að tala slæma sænsku.

Á Íslandi er málfræði líkast til komin á neðstu tröppu allra fræða meðan markaðsfræðin tróna á þeirri efstu.

Allt um það hélt Guðjón Jóhannesson alla ævi tryggð við þessa lítilsmetnu fræðigrein. Ekki svo að skilja að hún yfirskyggði aðra þætti málvisku hans né hið lifandi orð bókmenntanna. En skáldskapur af öllu tagi átti í Guðjóni Jóhannessyni hollan vin og mikinn kunnáttumann.

Og þegar ég lít til baka finnst mér að torfundinn hafi verið sá meiri háttar höfundur sem hann hafi ekki haft af einhver kynni.

Stundum finnst oss engu líkara en að þeir menn sem hvað mestu koma í verk á lífsleiðinni hafi haft rýmri tíma en aðrir til hvers sem vera skal.

Á Guðjóni Jóhannessyni var a.m.k. aldrei neinn asa að sjá, og oft er hann sat að spjalli í þröngum hópi stóð hann helst ekki upp úr stól fyrr en líða tók á nótt. Sama gilti um símtölin. Hringdi ég til hans eða hann til mín gat spjallið staðið hátt í klukkustund þó að við ættum oft margt ósagt að skilnaði.

Í viðræðu lá Guðjóni ekki hátt rómur, og af meðfæddu yfirlætisleysi tók hann ekki til máls fyrr en viðmælandinn hafði lokið sér af. En þegar hann hóf mál sitt lifnaði yfir honum, augnaráðið varð skarpara og oft hló hann dálítið bældum, en eigi að síður býsna smitandi hlátri, enda var gamansemi ríkur þáttur í eðli hans.

Enda þótt Guðjón Jóhannesson hafi vissulega litið til fleiri átta en venja var til um sérmenntað fólk af hans kynslóð, er ekki að sjá að það hafi í neinu spillt áhuga hans á sérgrein sinni, læknisfræðinni. A.m.k. lauk hann í þeirri grein doktorsnámi frá Lundarháskóla. Og um árabil var til hans leitað af erlendum sjúkrahúsum um greiningu ýmissa taugameina.

Kannski mætti spyrja hvernig maður sem aldrei sást flýta sér hafi getað sinnt öllu því sem hér er talið. Því verður líklega seint svarað; en hitt veit ég, að hann er horfinn af sviðinu, og ég verð ekki svo gamall að ég sakni hans ekki.

Stefán Sigurkarlsson.