Fyrsti ballettmeistari Þjóðleikhússins hitti "stelpurnar sínar" ÞAÐ var glatt á hjalla á Vesturgötunni á skírdag, þar sem fyrstu nemendur Listdansskóla Þjóðleikhússins voru saman komnir heima hjá Bryndísi Schram, fyrrverandi ballerínu og eiginmanni hennar...

Fyrsti ballettmeistari Þjóðleikhússins hitti "stelpurnar sínar"

ÞAÐ var glatt á hjalla á Vesturgötunni á skírdag, þar sem fyrstu nemendur Listdansskóla Þjóðleikhússins voru saman komnir heima hjá Bryndísi Schram, fyrrverandi ballerínu og eiginmanni hennar Jóni Baldvin Hannibalssyni utanríkisráðherra. Gestirnir voru boðnir á heimili þeirra hjóna til þess að hitta og heiðra fyrsta ballettmeistara Þjóðleikhússins sem jafnframt var fyrsti skólastjóri Listdansskólans, Erik Bisted. Hann og kona hans Else, voru boðin hingað til lands hátíðarsýningu dansflokksins á Coppelíu í Borgarleikhúsinu.

Það mátti vart á milli sjá hver glaðastur var yfir endurfundunum, en líklega hafði þó hinn virðulegi, roskni Dani, Erik Bisted vinninginn, en þó var svo mjótt á mununum að ekkert skal hér um það fullyrt. Það er með ólíkindum að Bisted skuli vera 77 ára gamall. Hreyfingar hans eru fjaðurmagnaðar og öruggar, og hvergi gætir fums. Hann er farinn að tapa sjón, en þegar hann var kominn í návígi við ballerínurnar sínar, sem hann stjórnaði af mikilli festu fyrir 40 árum, þá ávarpaði hann hverja og eina með nafni, og allar voru þær "elsku stelpurnar mínar", eins og hann orðaði það svo hlýlega.

Blaðamaður Morgunblaðsins gat ekki annað en dáðst að Bisted, þegar tækifæri gafst á þessari gleðistund til þess að spyrja hann nokkurra spurninga, því viðtalið fór að mestu leyti fram á íslensku, með einstaka dönskuslettu.

"Auðvitað er það afskaplega ánægjulegt fyrir mig og konu mína, Elsu, að vera boðin hingað til lands, á þessum merku tímamótum íslensks listdans. Fyrir það verðum við ævinlega þakklát," segir Bisted.

Aðspurður hvað hann teldi að hefði breyst frá því hann var við stjórnvöl listdansins hér á landi, sagði Bisted: "Það er sjálfsagt ýmislegt sem hefur breyst. Dansinn er mun nær því í dag að vera atvinnugrein, en hann var þá. Aginn hefur aukist til muna," segir Bisted og hlær við, "því ég minnist þess að stelpunum mínum fannst nóg til um þann aga sem ég hafði á mínum nemendum. Sérstaklega man ég eftir því hversu baldin hún Bryndís gat verið! Raunar var hún og er áreiðanlega enn þann dag í dag heilmikill prakkari! Þeim fannst öllum sem ég væri strangur kennari, en ég hafði og hef þá skoðun að án aga, nái listafólk aldrei langt í listgrein sinni. En þrátt fyrir agann, varð ég góður vinur allra stelpnanna og allar götur síðan hefur mér þótt afar vænt um þær."

"Í gær sá ég svo ekki verður um villst, að ballettnum sem listgrein hefur miðað vel áfram frá því ég fór héðan fyrir 35 árum og það gladdi mig. Ég er viss um að í Listdansskóla Íslands er unnið mikið og gott starf. Raunar var ég sannfærður um það eftir dvöl mína hér, að dansinum ætti eftir að fleygja fram hér á landi, og því get ég ekki sagt að ég hafi verið svo undrandi í gær miklu frekar glaður."

Þar með er friðurinn úti, því "stelpurnar" hans Eriks Bisted þyrpast allar að til þess að knúsa og kyssa þetta gamla átrúnaðargoð sitt.

A.B. Morgunblaðið/Sverrir

Það var glæsilegur hópur fyrrum ballerína og starfsmanna Þjóðleikhússins sem stillti sér upp fyrir ljósmyndara í stofunni hjá Bryndísi og Jóni Baldvin, með fyrsta ballettmeistara Þjóðleikhússins, Erik Bisted (fimmti frá vinstri).