ERFÐAEFNISSKRÁ lögreglu verður brátt að veruleika hér á landi, en rúm fjögur ár eru liðin frá því að Alþingi samþykkti lög um að skránni yrði komið á laggirnar.

ERFÐAEFNISSKRÁ lögreglu verður brátt að veruleika hér á landi, en rúm fjögur ár eru liðin frá því að Alþingi samþykkti lög um að skránni yrði komið á laggirnar. Nú standa yfir viðræður við bandarísku alríkislögregluna, FBI, um afnot af hugbúnaði stofnunarinnar til að byggja upp gagnagrunninn.

Hugbúnaður FBI, CODIS, er m.a. nýttur til að tengja saman gagnagrunna lögreglu víðs vegar um Bandaríkin, en öll 50 ríki Bandaríkjanna hafa samþykkt lög sem heimila töku lífsýna úr dæmdum mönnum og að erfðaefnisupplýsingar um þá séu færðar í gagnagrunn. Hér á landi verður erfðaefnisskrá lögreglu vistuð í einni tölvu í húsnæði ríkislögreglustjóra og verður hún ótengd öðrum tölvum, til að tryggja öryggi upplýsinganna.

Árni Albertsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá embætti ríkislögreglustjóra, segir að þótt styttist í að erfðaefnisskrá lögreglu verði að veruleika borgi sig ekki að nefna neina dagsetningu í því sambandi, enda sé samningum við FBI ekki lokið og töluverðan tíma taki að ljúka öllum tæknimálum.

Við rannsókn lífsýna í sakamálum er leitað eftir erfðaefni, DNA, með óskilgreint hlutverk. Niðurstöðurnar eru eingöngu nýtanlegar til að bera kennsl á menn, en ekki er hægt að lesa neinar heilsufarsupplýsingar úr þeim. Gert er ráð fyrir að lífsýnunum verði eytt eftir að erfðaefnið hefur verið greint. Þá sé ekki hægt að nota þau síðar í öðrum tilgangi en þeirra var aflað.