Kristján Rúnar Kristjánsson
Kristján Rúnar Kristjánsson
*KRISTJÁN Rúnar Kristjánsson eðlisfræðingur varði doktorsritgerð sína 12. ágúst sl. við raunvísindadeild Háskóla Íslands. Heiti ritgerðarinnar er Periodic Tachyons and Charged Black Holes: Two Problems in Two Dimensions. Andmælendur voru dr.
*KRISTJÁN Rúnar Kristjánsson eðlisfræðingur varði doktorsritgerð sína 12. ágúst sl. við raunvísindadeild Háskóla Íslands. Heiti ritgerðarinnar er Periodic Tachyons and Charged Black Holes: Two Problems in Two Dimensions. Andmælendur voru dr. Paolo Di Vecchia, prófessor við Nordita, norrænu stofnunina í kennilegri eðlisfræði, og dr. David Lowe, prófessor við eðlisfræðideild Brown University í Bandaríkjunum.

Ritgerðin er á sviði kennilegrar öreindafræði og fjallar meðal annars um samspil þyngdarfræði og skammtafræði. Í almennu afstæðiskenningunni eru þekktar lausnir á jöfnum Einsteins sem lýsa svartholi gæddu massa og rafhleðslu en að öðru leyti í tómarúmi. Þessar lausnir eru mjög sérstakar því ef þær eru framlengdar inn í svartholið koma í ljós göng sem leiða inn í annan heim í ákveðnum skilningi. Tilvist þessara ganga er hins vegar óviss, þar sem áhrifum skammtafræði hefur verið sleppt við útleiðslu lausnanna. Samkvæmt skammtafræðinni myndast aragrúi rafhlaðinna agna í sterku rafsviði svartholsins og slíkar agnir breyta hugsanlega innviðum svartholsins.

Til að lýsa skammtafræði rafhlaðins svarthols þarf að nota þyngdarskammtafræði en sú kenning á enn langt í land og því veit enginn nákvæmlega hvernig skammtaáhrif breyta innri gerð sígildra svarthola. Í ritgerðinni er sett fram tvívítt líkan sem gerir okkur kleift að rannsaka slík skammtaáhrif kerfisbundið í einfölduðum heimi. Líkanið er leyst með tölulegum aðferðum, bæði fyrir sístæð svarthol og svarthol sem verða til við þyngdarhrun rafhlaðins efnis. Sístæðu svartholin þarf að fóðra með straumi af rafhlöðnum ögnum til að vega á móti afhleðslu vegna skammtaáhrifa, en tímaháðu svartholin sem verða til við þyngdarhrun afhlaðast með tímanum. Í ljós kemur að ormagöngin sem er að finna í sígildu fræðunum falla saman þegar skammtaáhrif eru tekin með í reikninginn, svo að tímarúm sem inniheldur slíkt svarthol minnir fremur á hefðbundinn alheim með óhlöðnu svartholi.

Verkefnið var unnið í samstarfi við dr. Lárus Thorlacius, prófessor við eðlisfræðiskor Háskóla Íslands, sem jafnframt er leiðbeinandi, og dr. Andrei Frolov við Stanford University í Bandaríkjunum. Í doktorsnefndinni sitja, auk Lárusar, dr. Þórður Jónsson og dr. Ragnar Sigurðsson, en þeir eru báðir vísindamenn við Raunvísindastofnun Háskólans.

Kristján Rúnar Kristjánsson er fæddur árið 1977. Hann lauk stúdentsprófi frá MR árið 1997, B.S.-prófi í stærðfræði og B.S.-prófi í eðlisfræði frá Háskóla Íslands árið 2000 og M.S.-prófi í kennilegri eðlisfræði frá sama skóla árið 2002. Síðan hefur Kristján unnið að doktorsritgerðinni við Raunvísindastofnun Háskólans, NORDITA í Kaupmannahöfn, CERN í Sviss og Stanford University í Kaliforníu.

Kristján er sonur Kristjáns Leifssonar verkstjóra og Sigrúnar Þórarinsdóttur kennara og er giftur Stellu Soffíu Jóhannesdóttur bókmenntafræðingi.