6. september 2005 | Íþróttir | 993 orð | 1 mynd

Kristbjörg Ingadóttir þjálfari kvennaliðs Fylkis í knattspyrnu

Rosaleg hamingja að komast upp

Kristbjörg Helga Ingadóttir er stolt af stúlkunum sínum í Fylki sem eru komnar upp í efstu deild í fyrsta skipti eftir að hafa sigrað í 1. deild kvenna á tímabilinu sem er að ljúka. Hún mun stjórna þeim áfram.
Kristbjörg Helga Ingadóttir er stolt af stúlkunum sínum í Fylki sem eru komnar upp í efstu deild í fyrsta skipti eftir að hafa sigrað í 1. deild kvenna á tímabilinu sem er að ljúka. Hún mun stjórna þeim áfram. — Morgunblaðið/Þorkell
"ÞAÐ var að sjálfsögðu rosaleg hamingja að sigra í deildinni og komast upp í efstu deild," sagði Kristbjörg Helga Ingadóttir, þjálfari kvennaliðs Fylkis í knattspyrnu, sem tryggði sér um helgina sæti í Landsbankadeild kvenna næsta ár. Fylkir lagði þá Þór/KA/KS 3:2 í hreinum úrslitaleik.
Eftir Skúla Unnar Sveinsson skuli@mbl.is
Árangur Fylkis er ekki síst athygli verður vegna þess að þetta er annað árið sem félagið sendir kvennalið í meistaraflokki til keppni að þessu sinni og Kristbjörg var einnig við stjórnvölinn hjá félaginu í fyrra þegar liðið tók þátt í fyrsta sinn. Fylkir var með meistaraflokk á árunum 1982-1984 og varð meðal annars Reykjavíkurmeistari innanhúss, og aftur 1998-1999.

"Fylkir var með kvennalið fyrir nokkrum árum, en það var ekki jafn markviss vinna og nú er í Árbænum," sagði Kristbjörg sem segist kunna mjög vel við sig í þjálfarastöðunni.

"Ég kann bara mjög vel við þetta. Ég spilaði aðeins með í fyrra en ekkert í ár enda er það full vinna að vera á hliðarlínunni."

Stúlkurnar í Fylki eru ekki gamlar og fæstar í raun komnar á meistaraflokksaldur. "Ég geri fyllilega ráð fyrir að allar haldi áfram hjá okkur enda eru allar stelpurnar, nema tvær, aldar upp hjá okkur. Fylkir er ungt lið og stelpurnar ekki gamlar þannig að það er mikilvægt að halda vel utan um þetta á næstu árum.

Ég er með stelpur niður í fjórða aldursflokk. Þrjár fastar manneskjur eru hjá mér úr þriðja flokki og í raun eru bara fimm stelpur sem hafa aldur til að vera í meistaraflokki. Það er því í rauninni bjart framundan ef vel verður haldið utan um þetta," sagði Kristbjörg.

Vel staðið að málum í Árbænum

Hún segir vel staðið að málum í Árbænum. "Það er unnið alveg frábært starf hjá Fylki í kring um kvennaboltann og alls ekki yfir neinu að kvarta í sambandi við það. Ég held því að það sé virkilega bjart framundan. Fylkir hefur alltaf staðið vel að barna- og unglingastarfi og síðan hefur meistaraflokkurinn hjá okkur verið tekinn með trompi - og ég hef ágætan samanburð. Stelpurnar eru mjög heppnar."

Kristbjörg tók við Fylki í fyrra þegar ákveðið var að byrja með meistaraflokk kvenna. "Það hafði svona blundað aðeins í mér að þjálfa, en alls ekki meistaraflokk, heldur fyrst og fremst krakka. Ég er náttúrlega alin upp í Árbænum og það var stutt á völlinn. Einn bekkjarbróðir minn hafði þjálfað þessar stelpur og óskaði eftir að stofnaður yrði meistaraflokkur. Hann var með mér í fyrra að þjálfa og dró sig síðan út úr þessu. Hann kom þessu af stað.

Ég er með 26 manna hóp og náði í stelpu niður í 4. flokk í sumar. Við erum að glíma við það vandamál að stelpurnar eru svo ungar að þær fara í sumarfrí með pabba og mömmu og þá verðum við að sækja niður í aðra flokka. Þessar stelpur sem hafa fengið að koma í liðið hafa staðið sig mjög vel."

Baráttan í riðli Fylkis í deildinni var hörð, en Fylkir endaði í fyrsta sæti, tveimur stigum á undan Haukum. "Það voru þrjú lið sem gátu alveg farið í þessa keppni; við, Haukar og Fjölnir. Allan ágúst vorum við að leika tóma úrslitaleiki um að komast upp og við vildum endilega vera í fyrsta sæti til að fá auðveldari mótherja í undanúrslitum."

Það kom líka á daginn að þær voru ágætlega heppnar með mótherja í undanúrslitunum því þar lentu þær á móti Hetti frá Egilsstöðum og höfðu betur í tveimur leikjum, samtals 17:1.

"Úrslitaleikurinn var svo við Þór/KA/KS og þar lentum við tveimur mörkum undir í upphafi leiks. Það var mikil spenna í stelpunum og reynsluleysið sagði til sín fyrstu tuttugu mínúturnar eða svo. Boltinn var langt frá því að vera besti vinur stelpnanna. Þær vildu helst ekki fá hann en svo, eins og gerist stundum þegar menn lenda undir, hrökk þetta í gang hjá okkur. Mér fannst þetta full ódýr mörk sem við fengum á okkur," sagði Kristbjörg.

Það verður ekki langt hlé hjá Fylki. "Ég skráði 2. flokkinn í bikarinn og við erum að spila í undanúrslitum á morgun [í dag] síðan þegar bikarinn er búinn tökum við því rólega út september, tökum okkur frí í október og svo byrjum við markvisst aftur í nóvember."

Áhugamál verður að vera lífsstíll

Oft hefur verið talað um að stelpur taki íþróttir ekki alveg jafnalvarlega og strákar - sleppi leikjum eða æfingum fyrir afmæli eða annað slíkt. "Þetta var dálítið svona og það bar á þessu hjá mér í fyrra. Sumar stelpurnar hjá mér eru að byrja í menntaskóla og það er nóg að gerast hjá þeim. En ég benti þeim á að þetta áhugamál þeirra yrði að verða lífsstíll. Það kom fyrir að þær gátu ekki komið á æfingu milli sex og átta vegna þess að þær voru að fara á ball klukkan tíu. En þetta hefur lagast hjá mér og er ekki vandamál. Ég held líka að stelpurnar í efstu deild geri ekki svona."

Getum staðið okkur í deildinni

Kristbjörg telur að Fylkir eigi fullt erindi í efstu deild. "Það er talsverður munur á deildunum, en ég hef trú á að við ættum að geta haldið okkur uppi. Deildin skiptist í tvennt eins og venjulega og þetta verða allt úrslitaleikir hjá okkur í neðri hlutanum. Við lékum í bikarnum við Stjörnuna í sumar og töpuðum 2:1 í mjög jöfnum leik. Við eigum því alveg að geta gert eitthvað í deildinni að ári. Stelpurnar gera sér grein fyrir að þetta verður erfitt. Við náðum markmiði okkar dálítið á undan áætlun og nú verðum við að setja okkur ný markmið. Ég verð áfram hjá Fylki, ég gerði 2ja ára samning og verð hérna því næstu tvö árin ef allt gengur upp."

Hún lék áður með Val, en er alin upp í Árbænum. Hún á ekki langt að sækja áhuga sinn á fótbolta en hún er dóttir Inga Björns Albertssonar. Hún er í sambúð með Guðmundi Benediktssyni knattspyrnumanni hjá Val og saman eiga þau tvö börn, strák sem er átta ára og stúlku sem er tveggja ára. "Þau eru bæði farin að sparka þó svo stelpan sé ekki eins áköf í þetta og strákurinn var á hennar aldri," segir Kristbjörg.

Spurð hvort einhvern tíma sé rætt um knattspyrnu á heimilinu neitar hún því ekki: "Það svona kemur fyrir!"

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.