Richard Atwood heldur á lofti sýnishorni af kjörseðlinum.
Richard Atwood heldur á lofti sýnishorni af kjörseðlinum. — Morgunblaðið/Davíð Logi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þingkosningar fara fram í Afganistan í dag en þær marka lok Bonn-ferlisins svokallaða. Davíð Logi Sigurðsson heimsótti Afganistan nýverið og fjallar hér um kosningarnar, þýðingu þeirra og um stöðuna í þessu stríðshrjáða landi.

Eftir heimsókn til Afganistans er mun auðveldara en áður að skilja hvernig þeir Osama bin Laden og Mullah Omar, sem var leiðtogi talibanastjórnarinnar í Afganistan, gátu horfið sporlaust eftir hernaðaríhlutun Bandaríkjamanna í landinu haustið 2001. Hér hverfur allt í ryki og móðu, landið er erfitt yfirferðar; það er auðvelt að finna holur í jörðinni eða hella uppi í fjöllum til að felast í. Það er raunar svo, að maður áttar sig varla á því, þegar flogið er inn til lendingar á alþjóðaflugvellinum í Kabúl, að fyrir neðan mann sé milljónaborg. Húsin og fólkið og bílarnir falla inn í landslagið, allt er svo þurrt ásýndar, brúnt á lit.

Kannski má yfirfæra þessu lýsingu á Afganistan í öðrum skilningi einnig; það er erfitt að átta sig almennilega á stöðu mála í þessu stóra landi í fárra daga heimsókn, útilokað að fá einhverja yfirsýn yfir stöðuna í stjórnmálum, öryggismálum, samfélaginu í heild sinni. Skýringin er kannski að hluta til sú að sumpartinn er ekki til neitt, eitt Afganistan; landið er svo brotakennt sem þjóðríki. Grundvallarstofnanir samfélagsins virka varla, dómskerfið hefur verið óvirkt til margra ára, stjórnvöld hafa takmörkuð völd utan við Kabúl. Hér búa mörg þjóðarbrot, margir ættbálkar, mörg tungumál eru töluð.

Landfræðilegar aðstæður og áratuga löng hernaðarátök skipta máli líka. Þetta er miðaldasamfélag þar sem ekki er sjaldgæft að menn geri mál upp sín í millum, án milligöngu samfélagsstofnananna sem leika miðlægt hlutverk í lífi okkar sem búum á Vesturlöndum.

Einn helsti sérfræðingurinn í málefnum Afganistans, stjórnmálafræðingurinn Barnett Rubin, hefur skrifað bók sem nefnist The Fragmentation of Afghanistan ; titillinn segir allt sem segja þarf.

5.800 manns í framboði

Þingkosningar fara fram í Afganistan í dag og þær marka endalok Bonn-ferlisins svokallaða, sem efnt var til eftir fall talibanastjórnarinnar síðla árs 2001. Með Bonn-ferlinu var mörkuð sú leið sem síðan hefur verið fylgt í pólitískum skilningi í Afganistan, átti hún að tryggja að komið væri á fót ýmsum þeim stofnunum sem hvert lýðræðisríki þarf að hafa. Samin var stjórnarskrá og hún samþykkt, í október á síðasta ári voru síðan haldnar forsetakosningar, þar var Pastúninn Hamid Karzai kjörinn forseti Afganistans með yfirburðum.

Þegar ég heimsótti Afganistan nýverið voru talsmenn alþjóðastofnana og ISAF, stöðugleikasveitanna sem Atlantshafsbandalagið (NATO) fer fyrir skv. umboði öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, bjartsýnir á að þingkosningarnar í dag færu vel. Og þeim kann að verða að ósk sinni, það kann allt að ganga vonum samkvæmt - en ýmislegt er engu að síður bogið við þessar kosningar, þegar mælikvarði vestrænna kosninga er notaður.

En vandamálin sem blasa við skipuleggjendum kosninganna eru líka viðamikil.

Það fara fram tvenns konar kosningar í Afganistan í dag. Kosið er til neðri deildar afganska þingsins, Wolesi Jirga , en þar munu alls sitja 249 fulltrúar, a.m.k. tveir frá hverju héraði landsins. En jafnframt er verið að kjósa héraðsþing [e. provincial councils]; í framhaldinu mun hvert héraðsþinganna 34 velja einn fulltrúa á Meshrano Jirga , efri deild afganska þingsins, öldungadeildina svokölluðu.

Alls eiga að sitja 102 fulltrúar í öldungadeildinni, Hamid Karzai forseti skipar persónulega þrjátíu og fjóra þeirra, 34 eru tilnefndir af landshlutaráðum [e. district councils] sem enn á eftir að kjósa.

Alls eru um 5.800 manns í framboði í dag, skiptist sá fjöldi nokkuð jafnt, tæplega helmingur er í framboði til Wolesi Jirga , ríflega helmingur til héraðsþinganna. Notast er við flókið hlutfallskosningakerfi, SNTV (e. Single Non-Transferable Vote), sem gerir það að verkum að engir stjórnmálaflokkar eru í framboði sem slíkir, aðeins einstaklingar.

Augljóst var af viðræðum við starfsmenn alþjóðastofnana og sendiráða í Afganistan að þeim þykir þetta kerfi flækja myndina um of, þeir hefðu kosið annað, einfaldara kerfi. En Karzai forseti mun hafa beitt sér fyrir þessu fyrirkomulagi. Hann er sagður hafa óbeit á stjórnmálaflokkum og starfi þeirra, honum þykir framganga þeirra í Afganistan ekki gefa tilefni til að ýta beri undir starfsemi þeirra.

En þá ber vitaskuld að gæta að því, að stjórnmálaflokkar í Afganistan hafa þróast með öðrum hætti en á Vesturlöndum, þar sem stjórnmálaflokkar eru ein af grundvallarundirstöðum lýðræðisins. Í Afganistan hafa flokkar myndast í kringum einstaka stríðsherra eða einstaka vopnaða hópa.

Andstæðingar Karzais segja aftur á móti að afstaða hans mótist fyrst og síðast af því, að hann vilji ekki að til verði öflugar stofnanir sem láti illa að stjórn og séu líklegar til að beita sér gegn honum.

Ekki þarf raunar að efa að einstakir frambjóðendur tengjast einstökum flokkum eða hópum. Ekkert er við þetta að athuga og þegar þing kemur saman að afloknum kosningum er mönnum frjálst að draga sig saman í dilka og mynda þingflokka. Þykir það raunar eitt af því sem gerir þessar kosningar spennandi; hvort nýtt þing muni verða andsnúið forsetanum - sem náði yfirburðakosningu í forsetakjörinu fyrir ári - eður ei. Vekur eftirtekt að sá sem auglýsir manna mest í Kabúl-borg er einmitt Yunus Qanuni sem fékk næstflest atkvæði í forsetakosningunum í fyrra.

Qanuni, sem er tadjíki og kemur frá Panjsher-dal, þar sem Sovétmenn og talibanar mættu hvað mestri mótspyrnu á sínum tíma, hefur spáð því að allt að helmingur þingmanna muni verða á hans bandi. Hann segist ekki vilja að löggjafarsamkundan og framkvæmdavaldið fari í hár saman en hefur hins vegar lýst því yfir að þingið muni ekki endilega leggja blessun sína yfir allt sem frá stjórn Karzais kemur. Qanuni segir það helsta vanda Afganistans að landinu stýri veikur leiðtogi; ummæli sem benda ekki til að sérstakir kærleikar séu með honum og Karzai forseta.

Konur 12% frambjóðenda

Annað sem vekur athygli í þessu íhaldssama samfélagi - þetta er nokkuð sem alþjóðastofnanir hafa haldið á lofti sem dæmi um þær breytingar til batnaðar sem séu að eiga sér stað í Afganistan - er að konur eru 10% frambjóðenda, alls 582. Þar af eru 328 konur í framboði til Wolesi Jirga , þ.e. þær eru 12% frambjóðenda, og af 249 þingsætum er búið að taka 68 frá fyrir konur.

Kynjakvóti er semsé í gildi, ákveðið hefur verið að 25% fulltrúa í neðri deild þingsins verði konur en skv. tölum Þróunarhjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNDP) er hlutfall kvenna á þingi hærra í aðeins nítján löndum í heiminum.

Þá er gert ráð fyrir því að 43% kjósenda verði konur (konur voru 40% kjósenda í forsetakosningunum í fyrra) en alls eru á kjörskrá ríflega tólf milljónir manna.

Hver frambjóðandi fær tákn

Flókið mál og langdregið verður að telja alla kjörseðla og fá niðurstöðu í kosningunum, áætlað er að úrslita verði ekki að vænta fyrr en að þremur vikum liðnum. Kjörseðlarnir eru síðan sérkapítuli út af fyrir sig, líkt og Richard Atwood, yfirmaður kjörstjórnar, skýrði fyrir okkur á fundi í Kabúl.

Í ljósi þess að aðeins einstaklingar eru í kjöri, og þegar fjöldi frambjóðenda er hafður í huga, gefur auga leið að kjörseðillinn er stórt og mikið plagg. Kemur einnig til annað vandamál, sem er það að allt að 85% afganskra kvenna og 55% karla eru ólæs. Ekki er því nóg að setja nafn á kjörseðla til að frambjóðendur þekkist - og ólæsið flækir ennfremur kosningabaráttuna, eins og gefur að skilja, því að frambjóðendur geta ekki treyst á að kjósendur skilji skrif þeirra í bæklinga eða á veggspjöld. Sættust menn á þá lausn að úthluta öllum frambjóðendum sérstöku tákni; tákni sem verður á kjörseðlinum auk nafns frambjóðandans og myndar af honum. Frambjóðandi getur því sagt væntanlegum kjósendum sínum að leita að sínu tákni - t.d. hesti, tígrisdýri, demanti eða jarðarberi - og merkja X við það.

"Við munum taka viljann fyrir verkið," segir Atwood. "Þó að seðillinn verði ekki nákvæmlega rétt út fylltur, eins og við á Vesturlöndum myndum skilgreina það, þá munum við láta þá reglu gilda, að ef vilji kjósandans sé skýr þá sé í lagi með atkvæðið."

Vafasamir aðilar í framboði?

Sé tæknileg framkvæmd kosninganna flókin þá virðast ýmsir aðrir annmarkar jafnvel enn stærri; nefnilega þeir að óumdeilt er að í framboði verða ýmsir aðilar sem við aðrar kringumstæður fengju ekki að bjóða fram og/eða væru e.t.v. á bak við lás og slá.

Að vísu voru nýverið um tuttugu frambjóðendir dæmdir úr leik; sannað þótti skv. þeim leikreglum sem kjörstjórn vinnur eftir að þeir væru leiðtogar vopnaðra hópa eða hefðu bein tengsl við slíka hópa. En miðað við þau samtöl, sem ég átti við starfsfólk alþjóðastofnana í Kabúl, hefði farið best á því að meina talsvert fleiri frambjóðendum að fara fram.

Reglurnar eru hins vegar með þeim hætti, að til að menn yrðu dæmdir óhæfir til framboðs þurfti fyrst að sýna fram á að þeir hefðu hlotið dóma fyrir glæpi; dómskerfið í Afganistan hefur hins vegar verið ónýtt svo lengi, menn hafa leyst deilumál eftir öðrum leiðum, að margir sleppa í gegnum þessa síu sem það hefðu ekki átt að gera.

Þá heyrast raddir um að Bandaríkjamenn hafi komið í veg fyrir að ýmsir, sem þeir telja mikilvæga bandamenn í hinni svokölluðu baráttu gegn hryðjuverkum, yrðu dæmdir úr leik. Er ljóst að ekki allir eru jafn ánægðir með þessi afskipti Bandaríkjamanna.

Mikið af vopnum í umferð

Það er annars gífurlega mikið magn af vopnum í umferð í Afganistan, ég gekk framúr manni í miðbæ Kabúl sem hafði með sér gamlan riffil og í verslunarferð á Chicken Street var, þegar skoðað var í búðir í húsasundi einu, hægt að finna verslun sem bauð upp á hundruð kalashnikov-rifflna. Enn eru milljónir jarðsprengna grafnar í jörðu, haft var í flimtingum við okkur í heimsókninni til Afganistans að allir ættu sitt eigið vopnabúr í kjallaranum.

Blasir við að það er ekki ákjósanlegt að byggja upp lýðræðissamfélag við aðstæður, þar sem fjöldinn allur af smákóngum hefur yfir að ráða einkaher og miklu magni vopna; sem hann gæti kosið að beita ef hlutir þróuðust með öðrum hætti en hann kýs. Á hinn bóginn er ekki hægt að kippa öllum vopnum úr umferð í einu vetfangi; umræddir aðilar verða auðvitað að skynja að aðstæður hafi breyst með þeim hætti, að rétt og eðlilegt sé að vopn séu fjarlægð úr hinni pólitísku jöfnu.

Er óhætt að álykta að sú stund sé ekki runnin upp, að nægilegur stöðugleiki hafi skapast í Afganistan til að þetta verði. Bandarískir hermenn í suðurhluta landsins lenda enn iðulega í bardögum við leifar liðs talibanastjórnarinnar og al-Qaeda, svo dæmi séu nefnd. Annars konar árásir hafa einnig átt sér stað, m.a. gegn fulltrúum alþjóðastofnana og hjálparsamtaka.

Sagðist James L. Jones, æðsti yfirmaður herafla NATO í Evrópu (SACEUR), hins vegar á fréttamannafundi sem ég sótti í Kabúl ekki telja að árásir í landinu væru skipulagðar af nákvæmni af talibönum eða al-Qaeda. Árásirnar væru oft tilviljanakenndar, þær beindust ekki alltaf að erlendum herjum, stundum tengdust þær fremur glæpastarfsemi og/eða valmúaræktinni í nokkrum héruðum landsins; en sem kunnugt er er hvergi framleitt meira heróín en einmitt í Afganistan.

Flestir þreyttir á stríði

Um tuttugu þúsund bandarískir hermenn eru í Afganistan sem hluti af svokölluðu "bandalagi", þeirra hlutverk er að elta uppi leifar al-Qaeda og talibana. En bandarískir hermenn í Afganistan starfa einnig undir merkjum ISAF, alls eru nú um ellefu þúsund hermenn á vegum ISAF í landinu. Það eru því um þrjátíu þúsund erlendir hermenn í Afganistan.

Þetta er ekki mikill fjöldi, spurning hvort hægt sé að kalla slíkt lið hernámslið, eins og sumir hafa gert. Þeir Afganar sem við ræddum við gengu ekki svo langt - en það virtist vera stutt í að til þess gæti komið; og þá væri illt í efni. "Við erum ekki álitin hernámslið hérna, renni sá dagur upp að þetta gerist þá er það hinn sami dagur og við verðum að yfirgefa þetta land," sagði fulltrúi breska utanríkisráðuneytisins, Susan Crombie, sem við hittum að máli í Mazar-e-Sharif.

Og það er án efa eins gott fyrir bæði Bandaríkjaher og ISAF að halda sig við það hlutverk sitt, að vera réttkjörnum stjórnvöldum Afganistan til aðstoðar svo lengi sem þau óska eftir því og stuðla að uppbyggingu í landinu; fari að hitna undir þeim gæti allt farið í bál og brand. Sagan sýnir að stórveldum hefur ekki reynst auðvelt að halda Afganistan hernumdu.

"Fólkið er þreytt á átökum, þess vegna styður það veru ISAF í landinu," sagði Mohammad Sadiq Mubashir, óháður frambjóðandi í kosningunum í dag sem við hittum að máli í Kabúl. "Afganar þurfa á ISAF að halda í nokkur ár til að standa vörð um friðinn. En síðan ætti að halda þjóðaratkvæði um veru þeirra hér. Og ef Afganar vilja að þeir fari þá eiga þeir að fara. Neiti þeir væru Afganar í fullum rétti að neyða þá til að fara."

Sömuleiðis gæti farið að hitna undir Hamid Karzai forseta ef hann reitir of marga héraðshöfðingja til reiði og/eða getur ekki staðið við stóru loforðin, sem hann hefur gefið þjóð sinni. Það má merkja að þegar sé tekið að fjara undan Karzai, vinsældir hans teknar að dvína.

Hitt er ljóst að velflestir eru yfir sig þreyttir á stríði. Staðan er brothætt, aðeins tíminn getur leitt í ljós hver þróunin verður. Kosningarnar í dag skipta ekki sköpum í þeim efnum, en þær marka leið í átt að stærra markmiði; samfélagi þar sem allar helstu stofnanir virka, þar sem brotunum hefur verið raðað saman.

Heimamenn sjálfir í aðalhlutverki

Um 12,4 milljónir manna eru á kjörskrá í þingkosningunum í Afganistan, um 1,5 milljónum meira en í forsetakosningunum í fyrra. Alls eru konur 41% þeirra sem eru á kjörskrá, um 10% frambjóðenda en 25% sæta á þinginu hafa verið eyrnamerkt konum.

Dreifing kjörgagna var flókið ferli, enda samgöngur erfiðar í Afganistan, ýmis svæði eru erfið yfirferðar, stundum getur tekið marga daga að fara 150 km leið. Kjörstaðir eru alls um 6.000 í þessum kosningum, notast var við flutningaflugvélar til að dreifa kjörgögnum út í einstök héruð en þyrlur til þeirra héraða sem afskekktust eru og þar sem flugvélar geta ekki lent. Síðan var notast við flutningabíla til að aka gögnunum þaðan út í einstök þorp og byggðir, asnar komu að góðum notum þegar kom að dreifingu til allra afskekktustu byggða.

Kjörseðlar verða ekki taldir á staðnum, of mikil hætta þykir á því að tilteknir héraðs- eða þorpshöfðingjar frétti um niðurstöðuna í sinni heimabyggð og reyni að grípa inn, sé niðurstaðan þeim ekki þóknanleg. Því þarf að flytja kjörseðlana í sérstakar talningastöðvar í hverju héraði. Afganar bera sjálfir hitann og þungann af þessu starfi, her og lögregla þeirra munu sjá um öryggi á kjörstöðum; ISAF eða Bandaríkjaher koma ekki nálægt því starfi. Sömuleiðis verða aðeins örfáir starfsmenn alþjóðastofnana í hverju héraði, það verða heimamenn sjálfir sem sjá um framkvæmd kosninganna á einstökum kjörstöðum og telja atkvæðin að kosningunum loknum. Einungis örfáir alþjóðlegir eftirlitsmenn verða á vettvangi; Öryggis- og samvinnustofnun (ÖSE) sendir lítið lið manna, sem og Evrópusambandið.

Ellefu þúsund ISAF-hermenn eru nú í Afganistan, var fjölgað um þrjú þúsund vegna kosninganna. Menn hafa nokkrar áhyggjur af því að einstakir frambjóðendur kunni að efna til vandræða þegar í ljós kemur að þeir hafa ekki náð settu marki. "Við þurfum örugglega að vera við öllu búnir eftir kosningarnar," sagði Scott Carnie, yfirmaður öryggismála hjá kjörstjórn (JMEB), á fundi sem við áttum með honum í Kabúl.

Flókinn þjóðerniskokkteill

Afganistan er um 650 þúsund ferkílómetrar að flatarmáli, þ.e. ríflega sex sinnum stærra en Ísland. Áætlað er að um 28,5 milljónir manna búi í landinu. Þetta er ung þjóð, meðalaldur landsmanna er 17,5 ár, 44,7% þjóðarinnar eru á aldrinum 0 til 14 ára. Aðeins 2,4% landsmanna eru eldri en 65 ára, lífslíkur manna eru í kringum 42 ár. Þessar tölur skýrast að nokkru leyti þegar haft er í huga að Afganistan er talið fimmta fátækasta ríki veraldar.

Um 42% Afgana eru af þjóð Pastúna, uppruni þeirra er óljós en sumir telja þá komna af Hebreum. 27% íbúa Afganistans eru Tadjíkar, þ.e. af persneskum uppruna, Hazarar eru síðan 9% en þeir eiga sér mongólskan uppruna. 9% Afgana teljast vera Úsbekar að ætt og uppruna, þ.e. eiga sér tyrkneskan bakgrunn.

80% Afgana eru súnní-múslímar, um 19% hins vegar sjítar. Helstu tvö tungumálin eru pastú, austur-írönsk tunga sem pastúnar tala, og darí; en darí er afgönsk útgáfa af farsi-tungumálinu (persnesku).

david@mbl.is