[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
N.W.A., eða Niggaz with Attitude, er ein fyrsta hljómsveitin sem gerði "gangsta" rapp vinsælt í Bandaríkjunum.
N.W.A., eða Niggaz with Attitude, er ein fyrsta hljómsveitin sem gerði "gangsta" rapp vinsælt í Bandaríkjunum. "Gangsta" rapp var tegund rapps sem hafði ekki verið mjög sýnilegt og átti rætur sínar að rekja til vesturstrandar Bandaríkjanna, nánar tiltekið til borgarinnar Compton sem er innan Los Angeles stórborgarsvæðisins. Fremstir meðal jafningja í þessari sveit voru án efa Dr. Dre, sem sá um laga- og textasmíð ásamt því að rappa sjálfur og Ice Cube sem sá um textasmíð og rapp. En það er ekki á margra vitorði að grundvöllurinn fyrir stofnun sveitarinnar var fíkniefnasala eins meðlimsins. Eazy-E hafði verið stórtækur fíkniefnasali í Compton og notaði hann tekjur sínar af sölunni til að fjármagna plötuútgáfu N.W.A.

Skólinn eða dópið?

Eric Wright, eða Eazy-E, fæddist hinn 7. september árið 1963 í Compton, Kaliforníu. Hann var sonur hjónanna Kathie og Richard Wright en þau börðust við fátækt eins og flestir aðrir í þessu hverfi. Eazy-E hóf skólagöngu en hætti henni í 10. bekk til að snúa sér alfarið að fíkniefnasölu sem hafði verið honum mjög ábatasöm enda krakk nýkomið á markaðinn og gríðarlega góðar tekjur mynduðust af sölu þess. Ágóðann af sölu dópsins nýtti hann sér til að stofna útgáfufyrirtækið Ruthless records sem hann stofnaði ásamt Jerry Heller, gamalreyndum ref úr tónlistarbransanum.

Fyrstu tónlistarmennirnir sem fengu samning við hið nýja fyrirtæki voru Ice Cube, Dr. Dre, MC Ren og DJ Yella . Ásamt Eazy-E mynduðu þeir hljómsveitina N.W.A. en hún gaf út sína fyrstu plötu, N.W.A. and the posse, árið 1987. Sú plata gekk ekki svo vel í sölu en næsta plata Straight outta Compton sem kom út árið 1989 varð stórsmellur og seldist í bílförmum um öll Bandaríkin. Platan vakti mikla athygli fyrir mjög hreinskilna útlistun á lífinu í fátækrahverfum Los Angeles og gagnrýndi yfirvöld og lögreglu harkalega. Lagið Fuck tha Police var bannað á nokkrum stöðum vegna harkalegrar gagnrýni á lögregluyfirvöld og ofbeldisfullra lýsinga á æskilegum viðbrögðum gegn lögreglunni.

Brestir í samstarfinu

Eazy-E, gaf fljótlega út sólóplötu, Eazy-Duz-It, sem seldist gríðarlega vel en á sama tíma komu brestir í samstarfi N.W.A. Ice Cube hætti í hljómsveitinni vegna ágreinings við Eazy-E og Jerry Heller og sakaði þá um að ræna sig og aðra meðlimi N.W.A. tekjur sveitarinnar. Eazy-E tók að sér að rappa í stað Ice Cube á næstu plötu N.W.A., Efil4Zaggin (Niggaz4Life aftur á bak) sem kom út árið 1991. Sú plata þótti frekar döpur og seldist illa og í kjölfarið leystist sveitin upp. Í framhaldi af því blossuðu upp miklar deilur á milli fyrrum meðlima N.W.A. og á fyrstu sólóplötu, The Chronic gerði Dr. Dre mikið grín af fyrrum félaga sínum, Eazy-E. Sá kom með mótsvar á næstu sólóplötu sinni It's On (Dr. Dre) 187um Killa sem seldist í 1,5 milljónum eintaka. Platan innihélt níð um Dr. Dre og nýjasta lærisvein hans, Snoop Doggy Dogg. Á plötuumslaginu er til dæmis mynd af Dr. Dre þegar hann var ungur meðlimur elektrósveitarinnar World Class Wreckin' Cru. Á myndinni er hann klæddur í drag og er málaður og ber varalit.

Á meðan gekk Ruthless Records vel og gaf út plötur nokkurra þekktra hip-hop listamanna svo sem Above the Law, MC Ren en sennilegast náðu þeir mestum árangri með sveitinni Bone Thugs-N-Harmony. En virðing Eazy-E í rappheiminum fór minnkandi eftir að hann tók málstað lögregluþjónsins Theodore Briseno, sem flæktur var í barsmíðar lögregluþjóna á blökkumanninum Rodney King. Hann studdi einnig repúblikana en það fór fyrir brjóstið á mörgum stuðningsmönnum hans og N.W.A.

Vinsældir göturappsins juku aftur á móti andúð hvíts millistéttarfólks á svörtu fólki og það gerði lítið úr vandamálum fátækra. F.B.I. hafði fylgst vel með Eazy-E og félögum eftir útgáfu Straight Outta Compton en þetta eftirlit kom Eazy-E betur en hann hafði grunað, því að þrátt fyrir andúð Alríkislögreglunnar á honum var það hún sem kom í veg fyrir að hvítir þjóðernissinnar myndu ná fram áætlunum sínum um að myrða Eazy-E.

Skjótur dauði

Árið 1995 lagðist Eazy-E inn á spítala vegna ætlaðra astmavandamála. Við rannsókn kom hins vegar í ljós að hann var smitaður af HIV veirunni. Hann hafði verið stórtækur í kvennamálum, átti 7 börn með 6 konum og greinilega lítt hrifinn af notkun smokksins.

Hann lýsti frá veikindum sínum fljótt opinberlega og lagðist nánast strax inn á spítala. Veikindin urðu þó til þess að hann sættist við Dr. Dre og Ice Cube rétt fyrir dauða sinn en hann lést 26. mars 1995. Síðasta plata Eazy-E, Str8 Off tha Streetz of Muthaphukkin Compton kom út skömmu eftir dauða hans. Sonur hans, Eazy-E jr., gaf síðan út heimildarmyndina "The Life and times of Eric Wright" árið 2002 og á sama ári var einnig gefin út myndin "Eazy-E: The Impact of a Legend".

Þessar myndir ásamt tónlistinni hafa haldið uppi minningu hans sem einn stofnenda "Gangsta Rapp" tónlistarbylgjunnar sem lifir enn þann daginn í dag góðu lífi.

1. Eazy-E.

2. og 3. Eazy-E með félögum sínum í N.W.A.
Texti: Sigurður Pálmi.