"Sýningin er ákaflega metnaðarfull og vel sett upp og að mínu mati tímamótasýning hvað varðar fagurfræði samskipta og félagsmótunar," segir Þóra Þórisdóttir m.a. um sýningu Guðrúnar Veru Hjartardóttur í Hafnarhúsinu.
"Sýningin er ákaflega metnaðarfull og vel sett upp og að mínu mati tímamótasýning hvað varðar fagurfræði samskipta og félagsmótunar," segir Þóra Þórisdóttir m.a. um sýningu Guðrúnar Veru Hjartardóttur í Hafnarhúsinu. — Morgunblaðið/Ásdís
Sýningin stendur til 30. des. Opið alla daga frá kl. 11-17.

SÝNINGIN er þrískipt. Í einu rýminu sitja sex litlar verur úr plastleir á stórum lágum stöpli og ein uppi á rauðmáluðum vegg. Verurnar eru gerðar úr plastleir, naktar og hárlausar með blá augu eins og þær sem við höfum séð áður en þær eru ekki lengur kynlausar þar sem karlverurnar hafa viðeigandi kynfæri og kvenverurnar brjóst.

Í öðru rými má sjá á stórum og hærri stalli litla og umkomulausa veru í fósturstellingum. Ekki er hægt að sjá kyn verunnar en hún liggur í skjannabjörtu flúorljósi í skjannahvítu rými. Ekki einungis eru veggirnir hvítir heldur er gólfið lakkað hvítt og úr loftinu hanga hvítmáluð tré sem gefa tilfinningu fyrir einhverjum lífrænum en sótthreinsuðum ferlum. Einkennileg köld fegurð er í verkinu, heilög upphafning og hreinleiki sem minnir á nútímavæðingu, tæknilíf eða tæknidauða.

Allt aðra tilfinningu má síðan finna í þriðja rýminu þar sem rauð ljósapera varpar daufu ljósi á rauðmálaða trjágrein sem hangir úr loftinu. Nú er tengingin við æðar og blóðrás áberandi sem er undirstrikað með óræðu hljóðverki í rökkvuðu þröngu rými. Áhorfandinn er kominn aftur í móðurkvið og upplifir hina mállausu kóru og er þannig innlimaður inn í verkið sem ein af verum þessarar innsetningar. Fyrir utan þessar tvær áhugaverðu andstæður lífsumhverfis og þær hugrenningar sem skapast við skoðun þeirra þá leitar hugurinn aftur í "margmennið", í salnum sem var fyrst nefndur, að samfélaginu milli þessara vera eða manna sem hefur myndast. Hvað hefur breyst við að verurnar eru ekki lengur kynlausar, skiptir kynið máli og hver horfir á hvern?

Guðrún Vera hefur tekið skrefið frá hinu frumspekilega til frumstigs félagslegrar mótunar, samskipta sem byrja á áhuga veranna á hvert öðru og kristallast í því hver horfir á hvern. Með þessu gefur listakonan áhorfandanum miklu meira svigrúm til allavega túlkunar og hugleiðinga þar sem hið félagslega stendur reynsluheimi samtímans nær en hið háleita óræða og goðsögulega. Það má segja að hún gefi færi á sér, tilefni til að skoða þetta litla samfélag sem speglun við okkar eigið hvort heldur sem við staðsetjum það í forsögulegum tíma, okkar tíma framtíð eða ímynduðum tíma. Áhorfandinn setur sig í mannfræði eða félagfræðistellingar og reynir að átta sig á hvaða sögu megi lesa út úr þessum byrjunarsamskiptum hópsins, draga ályktanir af augnaráðinu einu um hverjir komi auga á "sannleikann", hvar áhuginn liggur og mögulega þróun valdatengsla tengda þekkingu. Sannleikurinn virðist í þessu tilfelli vera veran sem hefur yfirsýnina sem situr hátt uppi og horfir hugsandi á hópinn. Það gæti verið guð, skapari, leiðtogi eða líffræðilegur forveri hópsins. Í þessu ljósi er áhugavert að af þremur karlkynsverum horfa tvær upp til verunnar, hafa tekið eftir henni og annar sýnir undrun í svipnum. Þriðji karlinn horfir dáleiddur á eina kvenveru sem er sú í hópnum sem mest svipar til kvenímyndar samtímans. Hún fínleg, situr í kvenlegri stöðu og er bein í baki. Hún afturámóti sér bara þann karlinn sem mænir á hina háleitu veru. Þarna er kominn einhver þrí- eða ferhyrningur sem teiknar ákveðna línu í rýmið ekki ósvipað og endurreisnarmálverkin virka sum. Tvær konur eru eftir í myndinni, önnur er þunglyndisleg, krýpur og klemmir saman fætur, virðist ekki ná neinum tengslum við hópinn og horfir inn í sig. Hin sem er staðsett í miðju rýminu virðist hafa tekið eftir henni og er eina veran sem virðist ætla að standa upp og gera eitthvað. Hún er líka eina kvenveran í hópnum sem er í líkamsstöðu þar sem sköp hennar gætu sést. Hins vegar hefur listakonan ákveðið að hafa engin sköp á þessari veru, hún er slétt að neðan eins og barbídúkka. Þetta er svolítið áhugavert í ljósi þess að karlverurnar hafa raunsæislega sköpuð kynfæri og eru í stellingum sem gefa til kynna algera afslöppun gagnvart þeim. Því má segja að líkamstjáningin sem listakonan gefur verunum sé merkingarbær hvað varðar þennan hóp og einnig okkar eigið samfélag. Ef veran háleita væri karlkyns þá gæti maður freistast til að lesa út úr þessari mynd endurspeglun vestrænnar samfélagsgerðar en við athugun kemur í ljós að upphafna veran er kvenkyns. Hún gæti verið gyðja, formóðir, leiðtogi eða spásýn. Það furðulega er að það breytir allri myndinni sem segir okkur að goðsögulegur bakgrunnur skiptir miklu máli í veruleikasýn okkar og tekur þátt í hinni flóknu mynd samskipta okkar þar sem kyngervi og kyn spila stóra rullu í hugmyndafræði okkar og þekkingu. Ég gæti trúað að það mætti raða þessari senu upp á marga ólíka vegu og sjá samt alltaf nýja sýn á samhengið eða möguleika þess.

Það áhugaverða er að Guðrún Vera fjallar um málefni sem hljóta að vekja áhuga, um hina ósýnilegu þræði sem liggja til grundvallar samfélagsmótun. Sýningin er ákaflega metnaðarfull og vel sett upp og að mínu mati tímamótasýning hvað varðar fagurfræði samskipta og félagsmótunar.

Þóra Þórisdóttir