27. september 2005 | Minningargreinar | 879 orð | 1 mynd

GUÐBJÖRG SIGRÍÐUR BJÖRGVINSDÓTTIR

Guðbjörg Sigríður Björgvinsdóttir fæddist í Reykjavík 20. október 1920. Hún lést á elliheimilinu Grund 18. september síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Jónína Sigríður Víglundsdóttir frá Ísafirði, f. 29. des. 1885, og Björgvin Jóhannsson, f. 29. jan. 1892 á Fáskrúðsfirði, uppalinn á Akureyri. Bræður Guðbjargar voru Friðrik Einar, f. 1923, og hálfbræður sammæðra frá fyrra hjónabandi; Víglundur, f. 1909, Páll, f. 1911, og Kristinn Jón, f. 1914. Þeir eru allir látnir.

Guðbjörg stundaði nám í Húsmæðraskólanum á Laugarvatni. Að námi loknu lá leiðin til Danmerkur þar sem hún dvaldi hjá hálfbróður sínum, Kristni Jóni, og konu hans, Anne Franzisku.

Hinn 11. júlí 1942 giftist Guðbjörg Guðjóni Benjamín Jónssyni bifreiðastjóra, f. 30. ágúst 1906 í Vola í Hraungerðishreppi. Guðbjörg og Guðjón eignuðust fjögur börn. Þau eru: 1) Erla Björg, f. 16. apríl 1943, gift Dagfinni Ólafssyni, f. 23. ágúst 1942. Þau eiga þrjár dætur og átta barnabörn. 2) Guðbjörg Svala, f. 21. ágúst 1951, gift Ólafi Haukssyni, f. 24. mars 1944. Þau eiga eina dóttur og eitt barnabarn. 3) Sigurður Viðar, f. 12. nóvember 1952, kvæntur Önnu Fugaro, f. 16. júlí 1947. 4) Jón Kristinn, f. 7. júlí 1958. Hann á eina dóttur. Guðbjörg og Guðjón skildu. Guðbjörg var síðar í sambúð með Bjarna Einari Bjarnasyni, f. 20. ágúst 1914 að Ögurnesi við Ísafjarðardjúp, d. 1991. Guðbjörg dvaldi síðustu árin á elliheimilinu Grund.

Útför Guðbjargar verður gerð frá Háteigskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.

Og nú er sól að hníga

og gullnir glampar loga,

svo glitri slær á tinda

og spegil sléttan sæ.

Í fjarska synda svanir

um sólargyllta voga og

silfurtónar óma í

kvöldsins létta blæ.

Og kvöldsins töfrafegurð

mitt hjarta með sér hrífur,

og heillar mig og leysir

öll gömul hverdagsbönd.

Og enn á ný minn hugur

með sunnanblænum svífur

á sólskinshvítum vængjum

um minninganna lönd.

Og núna þegar haustar

og hníga blóm og falla,

þá heldur þú í norður og

vegir skilja um sinn.

Og ef ég gæti handsamað

himins geisla alla,

ég hnýtti úr þeim sveiga

að skreyta veginn þinn.

Og nú er leiðir skiljast

og vetur sest að völdum,

þá verður þetta síðasta kveðjuóskin mín:

Að vorið eigi í hjarta þínu

völd á dögum köldum og vefji

sínu fegursta skarti sporin sín.

(Jón frá Ljárskógum.)

Kveðja.

Börn og tengdabörn.

Elsku amma, þá er komið að kveðjustund hjá okkur. Ég var búin að vera viðbúin því í nokkra daga og vissi að þessi tími væri senn í vændum.

Ég verð þó að viðurkenna, að aldrei er maður tilbúin. Kveðjustundir voru okkur nú aldrei auðveldar.

Ég man þær stundir þegar ég var lítil stelpa og bjó á Neskaupstað og þú í Reykjavík að það að kveðjast þegar önnur hélt heim á leið eftir stutta heimsókn reyndist oft erfitt. Báðar felldum við tár og oft reyndi ég að halda aftur af mér, en svona viðkvæmar vorum við bara.

Núna sit ég og reyni að koma orðum á blað og kveðja þig um leið og ég rifja upp hugljúfar minningar.

Mín fyrsta minning um þig, var amma sem bjó í Reykjavík og átti heima svo langt frá mér að það tók heilan dag að keyra til hennar. Þegar við hittumst var ýmislegt brallað. Við sátum í strætó heilan hring og það fannst mér spennandi. Eins var farið í margar bíóferðir. Oft vorum við líka bara heima hjá þér og nutum stundanna. Við sungum oft saman og áttum okkar uppáhaldslag sem var Söknuður með Vilhjálmi Vilhjálmssyni og þú felldir oft tár í miðju lagi. Það var svo gott og gaman að vera hjá þér. Alltaf var stutt í brosið þitt, léttleikann og kátínuna.

Svo liðu árin. Ég flutti suður og þá varð styttra á milli okkar. Heimsóknir voru fleiri og oft kíkti ég til þín eftir skóla eða vinnu.

Fyrir um tólf árum fór að bera á þeim sjúkdómi sem fylgdi þér eftir það eða Alzheimer sjúkdómnum. Ég veit ekki hvernig ég get útskýrt þær tilfinningar sem fara um mann, að fylgjast með ástvini sínum hverfa inn í þennan sjúkdóm. Auðvitað breyttist margt og þú hættir að skynja umhverfið á sama hátt og áður. Stundum þegar ég kom í heimsókn til þín upp á Grund horfði ég í augun þín og sá bara tómleika.

Ég vil minnast þín núna fyrir hver þú varst, hvað þú varst mér góð og hvað mér finnst vænt um þig. Ég ætla að muna fallega brosið þitt og allt það sem við áttum saman. Ég vil að lokum þakka fyrir þennan tíma sem við fengum saman og biðja góðan guð að taka vel á móti þér. Að lokum ætla ég að láta fylgja með fyrstu tvö erindin með laginu Söknuður. Laginu sem við sungum svo oft saman. Ég syng það kannski ein núna og reyni að klára lagið í þetta sinn.

Mér finnst ég varla heill né hálfur maður

og heldur ósjálfbjarga, því er ver.

Ef værir þú hjá mér, vildi ég glaður

verða betri en ég er.

Eitt sinn verða allir menn að deyja.

Eftir bjartan daginn kemur nótt.

Ég harma það, en samt ég verð að segja,

að sumarið það líður allt of fljótt.

(Vilhj. Vilhj.)

Með kveðju til þín, elsku amma.

Helena Ólafsdóttir.

Elsku langamma. Takk fyrir allt. Heimsóknir og gott spjall.

Láttu nú ljósið þitt

loga við rúmið mitt,

hafðu þar sess og sæti

signaði Jesú mæti.

Kær kveðja.

Ólafur Daði.

Fletta í greinum frá þessum degi

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.