Frönsk fley voru algeng á Íslandsmiðum á fyrri öldum.
Frönsk fley voru algeng á Íslandsmiðum á fyrri öldum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
FRANSÍ Biskví, bók Elínar Pálmadóttur, blaðamanns og rithöfundar, um frönsku fiskimennina sem í þrjár aldir stunduðu þorskveiðar á Íslandsmiðum, er nýkomin út hér á landi í franskri þýðingu. Á frönsku nefnist hún Les Pêcheurs Français en Islande .

FRANSÍ Biskví, bók Elínar Pálmadóttur, blaðamanns og rithöfundar, um frönsku fiskimennina sem í þrjár aldir stunduðu þorskveiðar á Íslandsmiðum, er nýkomin út hér á landi í franskri þýðingu. Á frönsku nefnist hún Les Pêcheurs Français en Islande .

Bókin um frönsku Íslandssjómennina vakti mikla athygli þegar hún kom út á sínum tíma, varð metsölubók, og tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Í dag er hún löngu uppseld og ófáanleg.

Það er Mál og menning, eða Edda sem gefur frönsku þýðinguna út hér á landi, og kveðst Elín hæstánægð með þá niðurstöðu mála. "Það hefur mikið verið spurt um bókina á franskri tungu. Það hafa komið út bækur um frönsku þorskveiðisjómennina sem sigldu á Íslandsmið, bæði þá sem komu frá Bretagne og hina sem bjuggu í Flandri. Það hafa verið sérhæfðar bækur, og aðeins rakið hluta sögunnar. Það sem er sérstakt við þessa bók er að ég segi söguna alla, líka frá íslensku sjónarhorni, fjalla um samskipti frönsku sjómannanna við Íslendinga, sjóslysin skelfilegu sem voru tíð, frönsku spítalana og frönsku grafirnar. Mér telst svo til að um 400 skip og 4.000 franskir fiskimenn hafi ekki snúið aftur til síns heima."

Elín segir að margir þeirra bæja sem sjómennirnir komu frá, haldi enn árlegar Íslandshátíðir, eins og gert var þegar sjómennirnir lögðu á hafið í þá daga. Fiskibæirnir ytra hafa líka margir stofnað til vinabæjatengsla við íslensk sjávarþorp. "Nú síðast hafa Grundarfjörður og Paimpol hafið formlegt vinabæjarsamband, og Fáskrúðsfjörður og Gravelines hafa lengi ræktað lífleg vinabæjasamskipti."

Í Bretagne og Flandri byggðust heilu borgirnar upp fyrir gróðann af þorskveiðum við Íslandsstrendur, að sögn Elínar. Íslandssiglingarnar skipuðu því afar mikilvægan sess í bæði efnahags- og menningarsögu Frakka.

Elín segir að nær ekkert íslenskt lesefni hafi verið til hér á frönsku, og því komi bókin væntanlega ekki aðeins til með að höfða til Frakka sem vilja kynna sér þessa sögu, heldur líka til franskra ferðamanna á Íslandi og þeirra Íslendinga sem vilji gleðja vini og viðskiptamenn í Frakklandi. Bókin er 365 bls. að stærð með 95 gömlum ljósmyndum, uppdráttum og línuritum. Þýðendur eru Robert Guillemette og Gérard Chinotti, en ljóðin þýddi Jón Óskar.