Hjá pabba.
Hjá pabba.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]

Við straumhvörf

Hann hverfur af hinu pólitíska sviði, þar sem hann lungann úr röskum þremur áratugum hefur verið borgarstjóri og forsætisráðherra. En Davíð Oddsson er ekkert að fara út af, hann er bara að skipta um stöðu á vellinum og ætlar áfram að láta að sér kveða, þótt með hægari og hljóðari hætti verði.

Það skarast aðeins það sem ég man og hvað mér var sagt," segir hann þegar ég spyr hvað hann muni fyrst eftir sér. "Ég var ekki það undrabarn að ég muni atvik úr minni frumbernsku.

En ég fylgdist með umhverfi mínu frá fjögurra, fimm ára aldri.

Ég man töluvert frá verunni á Selfossi, hjá ömmu og afa; [Ástu Jónsdóttur og Lúðvík Norðdal Davíðssyni]. Reyndar fæddist ég í Reykjavík, í rúmi Einars ríka í Drápuhlíðinni. Hann var giftur ömmusystur minni, þau voru reyndar að skilja um þetta leyti, og ég er fæddur hans megin í rúminu.

Svo fórum við móðir mín á Selfoss, þar sem afi var læknir og þar ólst ég upp með hálfbróður mínum, Birni Snorrasyni, þangað til við mæðginin fluttum í bæinn; í Barmahlíð 47. Árið eftir komu amma og afi og bróðir minn til okkar, en þá var afi orðinn veikur. Hann dó 59 ára, útslitinn læknir í stóru héraði á Selfossi og áður Eyrarbakka. Ég man að amma hafði oft á orði, að það væri alltaf gott veður á Eyrarbakka.

Föðuramma mín [Valgerður Haraldsdóttir Briem] og föðursystir [Ingibjörg Ólafsdóttir] bjuggu á Njálsgötunni, leigðu þar af Ólafi í Fálkanum. Mér líkaði vel hjá þeim enda var ég þar í miklu eftirlæti. Þær lifðu báðar af ellilaunum ömmu hvernig sem þær fóru að því. Föðuramma mín var í peysufötum upp á hvern dag og hin amman alltaf með skotthúfu."

Í smásagnasafninu Nokkrir góðir dagar án Guðnýjar eftir Davíð Oddsson, sem kom út 1997 (annað smásagnasafn; Stolið frá höfundi stafrófsins kom út 2002), er sagan Snúist til varnar Íslandi, þar sem söguhetjan hleypur heim til mömmu að segja henni frá hernámi Breta. Og viðbrögðin eru fumlaus. ""Hvað segirðu barn. Hafa Bretarnir hernumið Ísland? Þá verð ég strax að fara í peysuföt." Hún fór fram úr í rólegheitum og hóf að klæða sig hægt og virðulega en spurði einskis frekar.

Þá vissi ég að Ísland hafði gripið til viðeigandi varnaraðgerða gegn innrásarhernum og var í hjarta mínu sannfærð um að þær myndu duga."

"Móðir mín, Ingibjörg Kristín Lúðvíksdóttir, starfaði sem ritari á lögfræðistofu Einars Baldvins Guðmundssonar og félaga í Morgunblaðshúsinu við Aðalstræti og í áraraðir síðar í Landsbankanum," heldur Davíð áfram. "Hún giftist aftur Gunnari Ólafs bankafulltrúa, sem varð stjúpi minn."

- Þú hefur deilt með okkur bernskuminningum frá Selfossi í smásögum þínum.

"Já, ég hef skrifað svolítið um árin mín á Selfossi. Mér fannst til um staðinn, afa minn og húsið, sem við bjuggum í að Austurvegi 28. Það hafði reyndar smækkað talsvert frá því sem það var í mínum huga, þegar ég kom þar inn síðar!

Afi var ágætlega hagmæltur og vel pólitískur. Hann velti fyrir sér þátttöku í stjórnmálum, en var sagt að hann hefði fullmikla tendensa til að segja sitt álit umbúðalaust! En hann var farsæll læknir. Það hef ég fundið á ferðum mínum síðar. Honum var oft hrósað fyrir læknisverk, en ein hrósyrði veit ég ekki hvernig á að skilja. Þau lét útfararstjóri nokkur falla: Það mátti Norðdal læknir eiga að hann reyndi ekki að lífga manninn við!

Ég var kallaður Beysi. Ekki veit ég hvaðan það kom. Ég var lítið hrifinn af því og þótt það fylgdi mér lengi frameftir á Selfossi leyfði ég það ekki í bænum.

Einu sinni var ég að leika í útvarpsleikriti undir stjórn Ævars Kvaran og þar var líka frændi hans, Gísli Alfreðsson. Allt í einu heyri ég Ævar segja; "Beysi, komdu hér að finna mig." Mér brá því ég skildi ekki hvernig Ævar vissi þessi deili á mér. Ég fór inn í leikstjóraherbergið og þar var þá Gísli kominn. "Hvað vilt þú," spurði Ævar mig og þá kom í ljós að Gísli var líka kallaður Beysi. Ég fór orðalaust út aftur og mér létti mikið að vita að Beysanafn mitt var áfram bundið við Selfoss.

Ævar var afskaplega góður maður. Ég var í skóla hjá honum í tvö ár, þar var líka meðal annarra Stefán Baldursson, sem síðar var þjóðleikhússtjóri.

Áður en ég fór í stúdentspróf var ég að velta fyrir mér leiklistarnámi í Japan. Ekki man ég nú af hverju hugurinn stefndi þangað. En svo varð ég sem betur fer ástfanginn og þá hvarf Japan úr huga mér.

Á Herranótt lék ég Bubba kóng og út á það réð Sveinn Einarsson mig sem leikhúsritara hjá Leikfélagi Reykjavíkur. Þar starfaði ég í um það bil tvö ár, 1970-72, með laganáminu, mest með sómamanninum Guðmundi Pálssyni leikara.

Á þessum árum lék ég jólasvein með Katli Larsen og hafði gott upp úr því. Ég vona bara að það sé nú fyrnt, því mér er til efs að jólasveinalaunin hafi öll ratað inn á skattskýrsluna. Vonandi fæ ég ekki Indriða [H. Þorláksson ríkisskattstjóra] á mig út af þessu!

Ég var auðvitað í algjöru aukahlutverki á móti Katli, því sá ágæti maður er eilífðarjólasveinninn holdi klæddur. Hins vegar var ég einu sinni fenginn í aðalhlutverk jólasveins í jólastund sjónvarpsins en fékk alveg hræðilega dóma. Þetta var þannig, að það þurfti að taka atriðið upp aftur og ég þá að spyrja börnin sömu spurninganna. En þau létu ekkert plata sig og sögðust vera búin að svara þessum spurningum. Þeim þótti greinilega ekki mikið til jólasveinsins koma. Þá ætlaði ég að bjarga málunum með því að taka einn krakkann á hné mér og söngla Þyrnirós var bezta barn. En það vildi þá ekki betur til en svo að krakkinn var tvíburi og hinn fór að gráta út af því að vera skilinn útundan og þá fóru öll börnin að gráta. Ég held að sjónvarpið hafi fengið Róbert Arnfinnsson árið eftir til þess að bjarga heiðri sínum og jólasveinsins, en þessum leikferli mínum lauk þarna með ósköpum. Ég ætla ba ra rétt að vona að þeir séu búnir að henda upptökunni!"

Það er ljóst að Davíð er skemmt yfir þessari upprifjun og gamlir leikarataktar taka sig upp í frásögninni.

"Svo lék ég í tveimur lagakynningum lögfræðinema í sjónvarpinu; Réttur er settur. Síðustu tilþrif mín á leiksviðinu voru í leikriti, sem ég skrifaði með þeim Hrafni [Gunnlaugssyni] og Þórarni [Eldjárn]; Ég vil auðga mitt land. Þorvarður Helgason lék í því, en leikritið gekk svo vel, að hann varð að hætta vegna prófa. Þá hljóp ég í skarðið og lék í nokkrum síðustu sýningunum í Þjóðleikhúsinu."

- En af hverju sigraðist lögfræðin á leiklistinni?

"Ég var farinn að vinna hjá leikfélaginu í hálfu starfi og varð að skrá mig í eitthvert nám. Ég skráði mig í lögfræði. Svo giftum við Ástríður [Þorsteinsdóttir Thorarensen] okkur. Og þá var maður kominn út í alvöru lífsins.

En ætli ég hafi ekki séð það, að væntingar mínar um að í mér leyndist stórleikari myndu ekki endilega rætast.

Ég vann alltaf með náminu og var satt að segja ekki duglegur að sækja tíma. Arnljótur Björnsson lagaprófessor sagði eitt sinn, þegar mig bar á góma: Það er mjög djúpt á þeim manni í þessari deild.

Ég var líka á fullu í Matthildarþáttunum og 1973-74 var ég þingfréttaritari Morgunblaðsins. Þá var vinstri stjórn að fara frá og blaðið pólitískt virkara en það síðar hefur orðið.

Síðasta árið í lögfræðinni vann ég hjá Almenna bókafélaginu og lauk laganáminu svo ég vitni í Tómas með einkunn sem var nógu stór en þó í mesta hófi."

- Bubbi kóngur hefur löngum fylgt þér á bak við tjöldin.

"Hann hefur alltaf verið notaður af mínum andstæðingum, sem segja ýmist að ég hafi ekkert þurft að leika hlutverkið, því í mér búi bæði einræðisherra og fól, og svo líka að ég hafi ekki vaxið út úr hlutverkinu."

- Eitthvert sannleikskorn í því?

"Ég held nú að ég sé bærilega vel innréttaður. En ég hef stöku sinnum þurft að vera harður í horn að taka eins og þeir þurfa sem bjóða fram krafta sína til starfa, þar sem þeir hafa síðasta orðið og geta ekki skotið sér á bak við nokkurn annan. Þá þurfa menn að hafa andlegan styrk til þess að skera úr um mál og höggva á hnútinn. Ég tel mig hafa burði til þess.

Menn geta svo deilt um ákvarðanirnar, en það eru auðvitað pólitísk álitamál."

- Gaztu tekið eitthvað með þér úr leikhúsinu?

"Sú reynsla hefur komið mér til góða, á því er enginn vafi. Ég lærði að nota hátalara og skynja salinn og ekki sízt að gleyma mér. Óvanir menn eru alltaf að velta því fyrir sér, hvernig þeir taki sig út. Þeir eru ekki frjálsir af sjálfum sér.

Þegar maður lifir að stórum hluta í beinni útsendingu og þá á ég ekki bara við sjónvarpið, heldur líka borgarstjórn og Alþingi, þar sem menn verða að hafa svör á reiðum höndum, þá er gott að geta haldið sínu striki og vera ekki of upptekinn af persónu sinni. Ég hef aldrei séð eftir þeim tíma sem fór í leiklistarfræðin. En ef ekkert annað er til staðar, þá duga þau ekki ein og sér. Mér til dæmis hættir til að tala hratt og óskýrt og ef mér er bent á það, þá kann ég að laga mig. Menn sem eru málsnjallir og hafa góða framkomu þurfa ekki á slíku að halda, en ég græddi þetta á leiklistinni. Hún græddi hins vegar ekkert á mér!"

Hélt að allir væru sjálfstæðismenn

- Hvernig kom pólitíkin til þín?

"Afi og amma, móðurforeldrar mínir, voru bæði frekar pólitísk og tóku oftast afstöðu með sjálfstæðisflokknum. Ég hélt satt að segja að allir menn væru sjálfstæðismenn. Það var ekki fyrr en ég fór í sveit að Barkarstöðum í Svartárdal að ég uppgötvaði að enginn sjálfstæðismaður var í dalnum og þeir höfðu ekki séð Moggann. Þetta voru óvænt sannindi fyrir mig, en þau gerðu mér gott!

Í menntaskóla var ég fráhverfur pólitík. Þegar ég var kosinn inspector scholae sögðu menn að ég hefði blekkt þá til fylgis við mig; ég hefði klæðzt eins og vinstri maður, hárgreiðslan var eins og á vinstri manni og svo talaði ég eins og vinstri maður.

Það er nú svo að í menntaskóla finnst fólki ekki stjórnmál vera ær og kýr lífsins, það er margt annað sem gefur lífinu gildi. En þegar kom svo að því að ég gaf mig að stjórnmálum, þá var ekki vafi hvar ég myndi bera niður.

Í stúdentapólitíkinni í háskólanum hallaði ég mér að Vöku. Og á SUS-þinginu 1973 studdi ég Björn Bjarnason gegn Friðriki Sophussyni, sem vann þá kosningu. Þessir menn urðu báðir ráðherrar í ríkisstjórn hjá mér og tókst með þeim góð vinátta, þótt eitthvað hafi verið stirt með þeim fyrst eftir SUS-þingið.

1974 fór ég í prófkjör hjá Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík. Þarna voru milli 80 og 90 frambjóðendur, því á þessum tíma lögðu menn mikið upp úr fjöldanum til þess að sýna breidd flokksins. Margir lánuðu flokknum nafnið sitt, en lyftu svo ekki litlafingri og enduðu með fáein atkvæði svo þetta leit út eins og þeir nytu minni stuðnings og virðingar en í raun var. Ég lenti í tíunda sæti, en flokkurinn hafði átta borgarfulltrúa. Svo vildi til að í áttunda og níunda sæti höfnuðu tveir læknar; Páll Gíslason og Úlfar Þórðarson, en það þótti mönnum ekki vænleg uppstilling. Því var mér skotið inn á milli þeirra. Níunda sætið vannst og þar með var ég kominn í borgarstjórn. Svo fór boltinn að rúlla.

Sex árum síðar ákvað oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn, Birgir Ísleifur Gunnarsson, að snúa sér að þjóðmálum og þá tók ég við af honum rétt eins og ég geri nú í Seðlabankanum 25 árum síðar. Eins tók Geir Haarde við af mér sem inspector scholae fyrir 35 árum. Þetta er meira en tilviljun og menn verða að rýna í tunglstöðuna og fleira til þess að finna skýringuna!"

- Hvernig kom það til að þú varðst arftaki Birgis Ísleifs?

"Það komu ýmsir til greina. En ég held að mínir félagar hafi talið mig mesta bardagamanninn og því líklegastan til að vinna borgina aftur."

- Áttirðu í erfiðleikum í byrjun með að fá menn til þess að taka þig alvarlega, krullhærðan Matthildinginn?

"Það var eitthvað gert úr því að ég væri eiginlega á skjön við þá virðulegu og háttvísu menn, sem voru merkisberar Sjálfstæðisflokksins. Ég man að Birgir Ísleifur var spurður út í þennan mann sem kæmi svona úr allt annarri átt. Hann tók bara vel í það og taldi mig vera góða búbót fyrir flokkinn!

Andstæðingar mínir sögðu að ég væri eilífur bubbi og bærilegur brandarakarl og gæti sjálfsagt verið til skemmtunar í hófum í Höfða, en ég hefði hins vegar ekkert í það að stýra flokki. Þeir sögðu líka, að ég kynni að hafa verið fyndinn einu sinni, en væri það ekki lengur! Það tók því ekki að tala um mig sem stjórnmálamann!"

- Gramdist þér þetta?

"Nei. Ég man ekki eftir því að ég hafi tekið þessi skrif eða tal nærri mér.

Mín gremja beindist inn á við, að sjálfum mér, ef ég gerði eitthvað skakkt. Mönnum á að vera verst við sín eigin afglöp. En hitt lét ég mér í léttu rúmi liggja.

Það var þó svolítið skondið, að menn yrðu fyrst að sanna að þeir væru leiðinlegir til þess að geta öðlazt traust!"

- Flögraði einhvern tímann að þér að breyta til?

"Það hvarflaði aldrei að mér að búa til einhverja aðra persónu en ég var sjálfur.

Ég verð að hryggja andstæðinga mína, sem sumir hverjir hafa skrifað um mig í áraraðir, að þeir hvorki stressa mig né rugla mig í ríminu, en þeir sýna lofsverða tryggð!

Ég tek hins vegar eftir því ef einhver er sérstaklega lúalegur og þá fær sá skríbent ákveðna mynd í mínum huga og gerir mér ekkert eftir það."

- Fannst þér erfitt að fara frá Matthildi?

"Já, já, þótt ég hafi nú reyndar aldrei skilið alveg við hana!

Ég hef skrifað fyrir sjálfan mig og flutt ræður, þar sem ég hef getað látið þessa hluti njóta sín. Ég er að mestu hættur öllum ræðuflutningi, en í góðra vina hópi get ég enn ræktað þessa gáfu, ef það er þá einhver gáfa."

Framtak á kostnað formsins

- Hafa þau störf sem þú hefur gegnt breytt þér eitthvað?

"Ég vona að mér hafi tekizt að vaxa af þeim að visku og skilningi, svo ég setji mig í tilgerðarlega stöðu.

Mér finnst það skipta sköpum að menn haldi sjálfum sér til haga, þótt þeir gegni einhverjum embættum. Ég hef séð menn taka við embættum og fara svo að taka sjálfa sig hátíðlega af því tilefni. En það eru embættin sem menn eiga að taka hátíðlega, ekki sjálfa sig.

Þetta á við um embætti borgarstjóra og embætti forsætisráðherra. Þegar upp úr þessum stólum er staðið, þá eru þetta sömu rúmlega 90 kílóin sem hlunkuðust niður á sínum tíma."

- Hvað fannst þér skemmtilegast í borgarstjórninni?

"Ég verð að viðurkenna að þessi tvö ár í stjórnarandstöðunni; 1980-82 voru anzi skemmtileg.

Ég naut þess virkilega að fást við meirihlutann, elta hann uppi í máli eftir máli, ekki eins og stjórnarandstæðingar höguðu sér nú í garð Halldórs Ásgrímssonar með því að tönnlast á hæfi og vanhæfi í sambandi við hann og einkavæðingarnefndina og eta það út í sporð, heldur tók ég hvert málið á fætur öðru. Sendiherrann núverandi Svavar Gestsson hefur sagt, að hann hafi aldrei séð eins ósvífna kosningabaráttu og ég tek það sem hrós. Hann ætti að vita hvað hann syngur í þessum efnum!

Ég get svo sem fallizt á það, að það hafi ekki allt verið með fyllstu ábyrgð hjá mér. En ég var kappsamur maður, 32ja ára og mér leið afskaplega vel í þessari rullu."

Davíð á mörg tilsvör í pólitíkinni sem hafa lifað lengur en daginn. Eitt þeirra féll í tilefni af ummælum Alberts Guðmundssonar um stuttbuxnadeildina í sjálfstæðisflokknum. Albert og Davíð háðu harkalega prófkjörsbaráttu 1982 og var Albert ekki á þeim buxunum að láta stuttbuxnadeildina ná tökum á sér. Þá sagði Davíð á þá leið, að hann skildi ekki hvers vegna þessi maður væri að agnúast út í stuttbuxur; hann sem hefði haft atvinnu af því árum saman að hlaupa um á stuttbuxum!

Það varð svo Davíð, sem leiddi lista Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórnarkosningunum 1982 til sigurs og endurheimti meirihlutann.

"Það lifði sú sögn í Sjálfstæðisflokknum að flokkurinn myndi ekki endurheimta meirihlutann í borginni, þegar hann væri einu sinni búinn að missa hann. Við afsönnuðum hana."

Ég spyr Davíð hvernig hann sjái aðkomu sína að borginni.

"Það varð allt fjörmeira en áður hafði verið. Við vorum sögð sýna framtak á kostnað formsins. Jónas Kristjánsson hrósaði mér í leiðurum, en það stóð ekki mjög lengi!

Við fórum hratt fram og gömlum sjónarmiðum var fleygt fyrir borð. Ég ætla bara að nefna tvö dæmi: Það hafði tíðkast að borgin í krafti stærðar sinnar greiddi sína reikninga, þegar henni hentaði, en nú varð sú breyting á að reikningar voru greiddir á réttum tíma. Endalausar deilur voru um fyrirkomulag lóðaúthlutana og sú regla var við lýði, að ef menn skiluðu lóð þá fengju þeir ekki úthlutað aftur. Við komum málum í það horf að allir sem vildu gátu fengið lóð. Í stað íbúastöðnunar fjölgaði Reykvíkingum ört. Það lifnaði yfir borginni, sem græddi á öllu saman og við gátum framkvæmt af töluverðum krafti án þess að hækka skatta eða hleypa borginni í skuldir."

- Sem sé: Allt gott og blessað!

"Það má vera að aðrir kunni að tína eitthvað annað til. Þú getur ekki ætlazt til að ég sjái um þá hlið! Aðrir verða að hafa svigrúm til þess.

En þegar ég fór síðast í borgarstjórnarkosningar 1990 fékk Sjálfstæðisflokkurinn rúm 60% atkvæða og ég hygg að menn hafi ekki séð önnur eins kosningaúrslit og þau. Og þetta hafðist þrátt fyrir það að ráðhúsið stóð hálfkarað út í Tjörnina, en margir höfðu horn í síðu þess og ekki gátu vinir mínir, Styrmir og Matthías, hugsað sér að styðja mig í því.

En þótt ég kveddi borgina með trega, þá fór ég glaður yfir á næsta vettvang."

En starf borgarstjórans var ekki alltaf dans á rósum. Davíð hefur vikið að því að eitt sitt viðkvæmasta og erfiðasta starf hafi verið viðtalstímar borgarstjóra.

"Hún Ástríður var einmitt að rifja það upp, þegar ég lét þessi ummæli falla um daginn, að ég hefði alltaf verið alveg úrvinda þegar ég kom heim eftir þessi viðtöl.

Ég var með viðtalstíma tvisvar í viku og reyndi að koma 25 manns að í hverjum tíma. Fólk var búið að undirbúa sig vel og kom miklu að á skömmum tíma. Oft voru mál þannig vaxin að það var nístandi að hlusta á málavexti. Ég sagði fólki alltaf eins og var. Oft gerðu menn sér væntingar um að ég gæti bjargað öllu og þegar það gekk ekki, þá hugsuðu sumir: hann getur þetta en vill það ekki. En það var ekki þannig. Mér var ekki sama. En mér voru takmörk sett.

Það var hægara en að segja það að lenda í þessu tvisvar í viku. Ég skrifaði alltaf hjá mér minnispunkta um mál hvers og eins og svo hringdi ég til að fylgjast með málum og fylgja þeim eftir. Sem betur fer gengu hlutirnir oft upp, en stundum ekki og þá tók það á.

Ég hefði ekki þrek til þess að gera þetta í dag og ég hef séð að borgarstjórar sem komu á eftir mér fækkuðu við sig viðtölum við almenning."

- Hvernig vinnur þú þig frá álagi í pólitíkinni?

"Ég sezt niður og skrifa. Það kemur mér andlega í annan heim. Skriftirnar eru mér það sem jóga eða golf er öðrum og þá geri ég ekki lítið úr jóga eða golfi, en hvorugt er fyrir mig.

Ég skrifa margt sem öðrum kemur ekki við, en er nægilega gott til endurlausnar fyrir mig."

- Hvaða munur er á því að vera borgarstjóri og forsætisráðherra?

"Einfaldast væri að segja, að borgarstjórinn er valdamaður, en forsætisráðherrann áhrifamaður.

Borgarstjórinn tekur sínar endanlegu ákvarðanir, sem lúta að framkvæmdum og skipulagi, svo dæmi séu nefnd.

Forsætisráðherra getur einnig verið nokkur valdamaður, en ekki aðeins áhrifamaður, ef hann stendur sterkt í sínum flokki, þingflokki og ríkisstjórn og nýtur eftirtektar og álits fólksins í landinu. Forsætisráðherrann situr ofarlega við tindinn, eða á tindinum sjálfum, þaðan sem hann hefur yfirsýn og hann getur haft áhrif á gang mála, en ákvarðanirnar sjálfar taka fagráðherrarnir hver í sínum málaflokki. Mér hafa verið eignaðar annarra manna ákvarðanir í stórum stíl og hef látið það gott heita.

Eftir á að hyggja get ég sagt að borgarmálastarfið og borgarstjórastarfið gáfu rík tækifæri til þess að kynnast fólki og nálgast það meðan verkefnin í forsætisráðuneytinu eru meira afstrakt.

Bæði Gunnar Thoroddsen og Geir Hallgrímsson sögðu við mig að ég skyldi vera borgarstjóri sem allra lengst, því eftir á myndi ég telja þann tíma minn bezta í pólitíkinni."

- Hefur það gengið eftir?

"Mér leið vel í borgarstjórn. En mér leið ekki síður vel í ríkisstjórn."

- Afskipti þín af því hver yrði eftirmaður þinn á borgarstjórastóli mæltust misjafnlega fyrir.

"Já. Enda ekki nema von! Ég hafði sagt við mína félaga, að ég vildi ekki hafa afskipti af vali þeirra á mínum eftirmanni. En þeim tókst ekki að leiða það til lyktar. Mál stóðu járn í járn. Atkvæðagreiðslu eftir atkvæðagreiðslu stóðu Árni Sigfússon og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson uppi með jafnmörg atkvæði. Og það sem helzt hann varast vann varð þá að koma yfir hann, því félagar mínir báðu mig um að höggva á hnútinn. Ég taldi ekki ráðlegt að velja annan hvorn; Árna eða Vilhjálm, og gerði því tillögu um Markús Örn Antonsson, en ég hafði trú á því að hans reynsla myndi duga vel.

Eftir á að hyggja var ekki rétt að ég tæki þessa ákvörðun. Borgarfulltrúarnir töldu sig þrátt fyrir allt ekki bera ábyrgð á valinu á Markúsi og það veikti hans stöðu."

- Hafðir þú afskipti af því að Árni Sigfússon tók við borgarstjóraembættinu af Markúsi Erni?

"Markús Örn kom til mín þegar tiltölulega skammt var eftir af kjörtímabilinu og sagðist telja það flokknum til heilla að hann drægi sig í hlé. Ég tók því ekki vel fyrst í stað, en þegar ég skynjaði að þessi ákvörðun var mjög þroskuð í huga Markúsar, þegar hann kom til mín, vildi ég ekki leggjast gegn henni. Mig minnir að ég hafi sagt eitthvað á þá leið, að þú skiptir ekki um hross í miðri á, en þegar hrossið vill alls ekki yfir ána verða menn að skipta um reiðskjóta.

Það var hugmynd Markúsar að fá Árna Sigfússon í borgarstjórastólinn. Hann taldi hann eiga mestan stuðning í borgarstjórnarflokknum, sem ég var nú ennþá meðlimur í, þegar þarna var komið sögu.

En meirihlutinn tapaðist. Og það held ég að hafi ekki verið gott fyrir borgina."

- Finnst þér nú lag til þess að vinna borgina aftur?

"Ég vona að það takist.

Þetta meirihlutasamstarf, sem nú er, er komið í þrot. Menn hafa kostað öllu til að láta samstarfið líta vel út á yfirborðinu og ýtt vandanum á undan sér og safnað skuldum í það óendanlega.

Þegar ég hætti sem borgarstjóri voru skuldir borgarinnar 2 milljarðar á sama virði og þeir 70 milljarðar, sem borgin skuldar nú. Og það gerist á sama tíma og tekjur borgarinnar stóraukast. Þetta er alveg með ólíkindum!

Mér er sagt að það þýði ekkert að tala til fólks með svona talnadæmum. En ég held að fólk sé ekki eins einfalt og menn vilja vera láta. Fólk finnur líka að borgin er miklu veikari en hún var áður."

Fram gegn formanninum

Þegar dró að landsfundi Sjálfstæðisflokksins 1989 lýsti Davíð áhuga sínum á varaformannsembætti flokksins. Friðrik Sophusson, sem gegndi því, dró sig þá í hlé og var Davíð kosinn varaformaður. Tveimur árum síðar bauð Davíð sig fram gegn formanni flokksins, Þorsteini Pálssyni. Af hverju?

"Ég studdi Þorstein til formennsku í flokknum1983, en ég man hvað mér brá, þegar hann lýsti því yfir strax kvöldið eftir formannskjörið að hann myndi ekki sækjast eftir setu í ríkisstjórninni, sem Sjálfstæðisflokkurinn átti aðild að. Það kostaði að mínu mati alls konar vandræðagang og vitleysur.

Svo urðu Albertsmálin flokknum erfið og þegar Þorsteinn hafði tekið að sér forsætið í þriggja flokka ríkisstjórn, þá sprengdu samstarfsmennirnir hana í beinni sjónvarpsútsendingu og Sjálfstæðisflokknum var fleygt á dyr. Ég var sannfærður um að allur þessi aðdragandi yrði til þess, að hvernig sem næstu kosningar færu, þá myndu menn ekki treysta sér, með réttu eða röngu, til þess að sitja í stjórn undir forsæti Þorsteins. Sjálfstæðisflokkurinn var í miklum hremmingum sem mér fundust algjörlega óþolandi fyrir stærsta flokk landsins. Á endanum ákvað ég að bjóða mig fram gegn Þorsteini. Ég sagði honum frá þessu tveimur mánuðum fyrir landsfund, en ég veit ekki hvort hann tók það alvarlega. Síðan sögðu sameiginlegir vinir okkar honum frá mínum hug í þessum efnum. Þegar svo til kom bar það allt mjög hratt að. Ég tilkynnti um framboð mitt 25. febrúar. Allir landsfundarfulltrúar höfðu þá verið valdir þannig að ekkert stríð varð í flokksfélögunum. Svo var kosið 10. marz. Þetta var ekki eins og hjá Samfylkingunni þar sem menn berjast um formennskuna mánuðum saman.

Auk þessa sem ég hef sagt er á það að líta að það hafði verið langur og góður vinskapur með okkur Þorsteini, við þekkzt frá blautu barnsbeini og átt bernskudaga saman á Selfossi. En mér fannst ég ekki geta horft upp á þá stöðu sem Sjálfstæðisflokkurinn var kominn í. Þetta var ekki létt fyrir mig, ekki fyrir neinn og ekki flokksmenn heldur, en mörgum þótti miður að standa frammi fyrir því að gera upp á milli formanns síns og varaformanns með þessum hætti. Og það var ljóst, að ef ég tapaði, þá var minn pólitíski ferill á enda. Ég lagði því allt mitt undir."

Styrmir Gunnarsson, ritstjóri Morgunblaðsins, segir í kafla um Davíð Oddsson í bókinni um forsætisráðherra Íslands, að kvöld eitt veturinn 1991 hafi ritstjórar Morgunblaðsins átt langan fund með Davíð um framboð hans gegn Þorsteini. Segir Styrmir að annar ritstjóranna hafi gengið hart að Davíð, sem sagði: Þú mátt ekki ganga svona hart að mér. Ég er miklu viðkvæmari fyrir þessu sjálfur en þið kannski haldið.

-Hefur jafnazt á með ykkur Þorsteini?

"Við höfum ekki átt erfitt með að vinna saman. Hann sat í ríkisstjórn hjá mér í átta ár og allt vinsamlegt þar.

En hlutirnir eru ekki eins og þeir voru. Það sem brast þarna hefur aldrei gróið."

-Ertu enn jafnsannfærður um ágæti þessa framboðs þíns?

"Mér finnst sagan hafa sýnt að það var nauðsynleg aðgerð. Og ekki hafa flokkssystkin mín látið mig gjalda þess hvernig ég nálgaðist embættið, því ég hef jafnan hlotið góða kosningu á landsfundum síðan."

-Hvað tók svo við hjá nýjum formanni?

"Fljótlega eftir að ég tók við formennsku Sjálfstæðisflokksins fórum við hjónin á kyrrðardaga í Skálholti. Þar bjuggum við við frið og hátíðleika á föstunni undir stjórn Sigurbjörns Einarssonar biskups. Þetta var mjög eftirminnilegur tími og góð hugmynd hjá konu minni að koma okkur þangað. Ég öðlaðist hugarró eftir átökin í flokknum og formannskosningarnar og gat snúið mér að alþingiskosningunum sem framundan voru. Við máttum ekki mæla á þessum kyrrðardögum, ekki einu sinni tala hvort við annað! Maður brosti bara til hinna og sagði ekki orð. Við stóðum þetta af okkur og reynslan af kyrrðardögunum var bæði ríkuleg og dýrmæt."

Snör handtök og stuttir sáttmálar

-Hvernig var nýjum formanni Sjálfstæðisflokksins tekið í kosningabaráttunni?

"Þetta var harður kosningaslagur. Andstæðingar mínir gerðu talsvert út á það að aðkoma mín að formennskunni sýndi að ég væri bæði yfirgangssamur og óbilgjarn."

-Ertu það?

"Ég tel mig hvorugt. Á hinn bóginn veigra ég mér ekki við því að taka þær ákvarðanir sem nauðsynlegar eru og tek þá áhættu, sem því fylgir.

Og sjálfur tel ég mig vera sæmilegan mann til málamiðlana. En þú getur ekki verið góður málamiðlari nema menn viti að þú sért tilbúinn til þess að taka slaginn, ef með þarf. Sumir menn eru búnir að semja við sjálfan sig þegar þeir koma að samningaborðinu og eiga enga stöðu. Ég hef aldrei nálgast hlutina þannig.

Ég væri ekki búinn að vinna með 29 ráðherrum og eiga vináttu þeirra allra, ef ég væri yfirgangssamur og óbilgjarn."

-Svo fórstu beint í forsætisráðherrann!

"Já. Flokkurinn fékk allgóða kosningu 1991 og svo hófust stjórnarmyndunarþreifingar. Stjórnarmyndunarfyrirkomulag hafði fram að þessu verið með svokallaðri "rakarastofuaðferð"; næsti gjörið svo vel! Þegar ég fékk umboðið hafði ég gert það upp við mig, að stjórnarmyndunarviðræður upp á gamla mátann hefðu gengið sér til húðar. Ég vildi hafa snör handtök og stuttan stjórnarsáttmála. Langir stjórnarsáttmálar finnst mér vísbending um að menn treysti ekki hver öðrum. Það er eins og í Hollywood, þegar leikararnir gifta sig og setja í samning ákvæði eftir ákvæði um viðurlög við hinu og þessu; framhjáhaldi og peningaeyðslu og allt hvað er. Menn eru að reyna að kortleggja framtíðina. Það er bara ekki hægt.

Það dugar að meginatriðin séu sæmilega ljós. Stuttir stjórnarsáttmálar eru lykillinn að góðu stjórnarsamstarfi.

Það er nefnilega svo, að fyrir almenning skiptir það ekki mestu máli, hvernig stjórnarsáttmálinn lítur út, heldur hitt að þegar eitthvað það gerist, sem hefur áhrif á líf þjóðarinnar, þá séu samstarfsfúsir og sæmilega öruggir menn við stjórnvölinn."

Davíð braut í blað í stjórnarmyndunum á Íslandi með því hversu stjórnarmyndun hans gekk hratt fyrir sig. Ríkisstjórn Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks var ýmist kölluð ný viðreisn, með skírskotun til fyrra ríkisstjórnarsamstarfs flokkanna, eða Viðeyjarstjórnin, en flokksformennirnir; Davíð og Jón Baldvin Hannibalsson, höfðu hitzt til viðræðna í Viðey. Davíð hélt uppteknum hætti við myndun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks 1995 og seinni stjórnarmyndanir flokkanna hafa líka gengið rösklega fyrir sig.

Viðeyjarviðreisnin

Davíð segir, að stjórn Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks hafi haft frísklegt yfirbragð. Flokkarnir höfðu jafnmarga ráðherra, þrátt fyrir stærðarmun.

"Ég var sannfærður um að flokki liði betur í ríkisstjórn, ef jafnræði væri með flokkunum hvað ráðherrafjölda snerti, þótt stærðarmunur væri á flokkunum. Ég taldi að það myndi skapa miklu meiri ró í ríkisstjórninni. Það má svo sem segja, að þetta gefi ekki rétta mynd af hlutunum og ég hef tekið eftir því að svona er ekki gert erlendis, þar sem ráðherrafjöldi flokka endurspeglar stærð þeirra. En mér fannst þetta skynsamleg leið fyrir okkur og ég tel að hún hafi verið rétt. Davíð hélt þessu fyrirkomulagi áfram í ríkisstjórnarsamvinnu við Framsóknarflokkinn og gilti þá einu, þótt Framsóknarflokkurinn kæmi t.d. veikur út úr kosningunum 1999.

Davíð segir ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn hafi haft sérstaka afstöðu til Evrópumálanna og verið einn um þá stefnu að tryggja aðgang að sameiginlegum Evrópumarkaði með sérstökum tvíhliða samningi við Evrópusambandið. Samningur um myndun Evrópska efnahagssvæðisins; EES-samningurinn, náðist og segir Davíð hann hafa tryggt Íslendinga gegn því að þurfa að ganga í Evrópusambandið.

Styrmir Gunnarsson segir í kaflanum um Davíð Oddsson í forsætisráðherrabókinni, að EES-samningurinn sé annað tveggja sem hafi átt mestan þátt í að umbreyta íslenzku samfélagi í forsætisráðherratíð Davíðs Oddssonar. Hitt atriðið sé einkavæðingin.

Davíð segir að í viðræðunum um EES-samninginn hafi Norðmenn sýnt mikinn ósveigjanleika í sjávarútvegsmálum, sem séu hrein aukageta hjá þeim miðað við þunga sjávarútvegsins hjá okkur.

"Ég náði góðu sambandi við Gro Harlem Bruntlant forsætisráðherra Norðmanna en það hafði verið eitthvað stirt á milli kratanna, Jóns Baldvins og hennar. En þegar hreyfing komst á vann Jón mjög vel að málinu. Við vorum fyrsta þjóðin sem viðurkenndi sjálfstæði Eystrasaltslandanna. Við Jón unnum vel saman í því máli, en sem utanríkisráðherra hafði hann um það forystu og hefur með réttu haft góðan sóma af."

Davíð segir þessa fyrstu ríkisstjórn sína ekki hafa átt marga hveitibrauðsdaga.

"Það þurfti að taka á erfiðum málum og menn ákváðu að axla erfiðleikana strax í upphafi kjörtímabilsins. Við höfðum gengið illa um fiskimiðin og nú var komið að skuldadögum. Við þurftum að skera þorskaflann niður um allt að helming. Og í efnahagslífinu varð að taka fyrir sjóðasukk og fara í allsherjaruppstokkun á efnahagskerfinu.

Allt voru þetta erfiðar aðgerðir og oft var þungt fyrir fæti. En smám saman áttuðu menn sig á því að það var komin ný hugsun. Hún var ekki alltaf vinsæl í mínum flokki. "Kemur mér ekki við"- afstaða var hún kölluð og það var sagt að hún myndi setja fyrirtæki á hausinn og leggja byggðarlög í rúst.

En reyndin varð auðvitað önnur og það frelsi og framfarir, sem þessi ríkisstjórn lagði grunninn að og seinni ríkisstjórnir mínar unnu áfram hefur gjörbreytt íslenzku þjóðfélagi til hins betra. Menn eru ef til vill búnir að gleyma því nú, hvað upphaf þessara breytinga var í raun og veru erfitt. Það hrikti víða í. En ég má ekki gleyma því, að það hafði sitt að segja til þess að auðvelda málin, að það varð mikil endurnýjun í þingflokknum 1991, 13 nýir þingmenn í 26 manna þingflokki. Með þeim urðu allar breytingar þar auðveldari."

Davíð segir góða samvinna hafa verið í ríkisstjórninni, einkum framan af, en það hafi auðvitað verið blóðtaka þegar Jón Sigurðsson og Eiður Guðnason fóru og svo bættist við að Jóhanna Sigurðardóttir hvarf óánægð úr ríkisstjórn. Þetta veikti samstarfsflokkinn og ríkisstjórnina.

Handsal á Þingvöllum

"Það var töluverður vilji í báðum flokkum til að halda samstarfinu áfram eftir kosningarnar 1995, en ég mat stöðuna svo að eins atkvæðis meirihluti á þingi væri alltof tæpur til þess að byggja á. Ég man að ég sagði eitthvað á þá leið að ég hefði lagt upp í Fjallabaksferð með fjögur varahjól, en mig fýsti ekki að fara aðra Fjallabaksferð með bara eitt varahjól! Þessi úrslit urðu til þess að við töluðum saman, Halldór Ásgrímsson og ég, um páskana á Þingvöllum, þar sem við dvöldum og konur okkar, og við Halldór handsöluðum stjórnarsamstarf, ef allt gengi eftir í okkar flokkum. Þetta handsal hélt, þrátt fyrir harða hríð vinstri flokkanna að Halldóri."

Þar með hófst ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, sem nú er á sínu þriðja kjörtímabili.

Davíð segir, að yfirlýsingar sem voru gefnar fyrir kosningarnar 1999 og 2003 um að flokkarnir gengju óbundnir til kosninga hafi verið sannleikanum samkvæmar. Engir baksamningar eða handsöl hafi legið fyrir. "En það lá í loftinu, að ef ekkert gerðist í kosningabaráttunni, væri ríkur vilji til áframhaldandi samstarfs.

2003 hittumst við Halldór daginn eftir kjördag og þá kom í ljós að Samfylkingin hafði haft samband og boðið Halldóri forsætisráðherrastólinn. Menn voru varla vaknaðir! Mér þótti þetta með ólíkindum! Samfylkingin sem var eini flokkurinn sem hafði útnefnt sérstakt forsætisráðherraefni sitt fyrir kosningarnar!"

-En Sjálfstæðisflokkurinn bauð Halldóri forsætisráðherraembættið á kjörtímabilinu.

"Mér fannst ekkert óeðlilegt að Halldór fengi að spreyta sig sem forsætisráðherra. Hann hafði mikla pólitíska reynslu og var heill í samstarfinu við mig og minn flokk. Svo bættist við þessi sérstaka staða sem Samfylkingin setti hann í með tilboði sínu. Mér fannst skipta meira máli að samstarf okkar héldi áfram og menn kláruðu hlutina heldur en hver sæti við borðsendann."

-Hvaða hluti þurfti að klára?

"Þeir hafa svo gengið eftir og tekizt vel; við höfum styrkt stöðu okkar í varnarviðræðunum við Bandaríkjamenn, unnið áfram að skattalækkunum og gengið frá sölu símans, sem var vandasamt verkefni og verðugt smiðshögg á skipulega og víðtæka einkavæðingu ríkisstjórna minna. Og við náðum samkomulagi um það hvernig andvirðinu af símasölunni verður varið."

Fiskveiðistefna og fjölmiðlamál

-Mikil átök um fiskveiðistefnuna enduðu með veiðigjaldi í sjávarútvegi. Það hefur verið kallað pólitískt kraftaverk að fá landsfund Sjálfstæðisflokksins til að samþykkja það.

"Það var enginn vafi að verulegur meirihluti landsfundarmanna var andsnúinn þessari niðurstöðu. Ég var það og sagði á fundinum að í hjarta mínu væri ég á móti, en hins vegar teldi ég nauðsynlegt fyrir friðinn í landinu að samþykkja veiðigjald. Ég hygg að menn hafi hugsað sem svo, að fyrst formaðurinn gæti beygt sig í þessu máli þá væri þeim ekki vandara um það til þess að skapa einhverja sátt.

Og þessi niðurstaða hefur orðið til þess að það hefur ríkt sæmileg sátt um sjávarútveginn síðan.

En ástæða þess að ég taldi rétt að breyta svona var sú, að mér fannst kominn svo mikill óhugur í þjóðina, tortryggni og undirgangur að við yrðum að finna botn í málið, sem menn gætu unað sæmilega við. Ég setti á fót nefnd, sem Jóhannes Nordal var formaður í og hún náði niðurstöðu, sem í mínum huga er forsenda þeirrar tiltölulega góðu sáttar sem ríkt hefur um málið síðan."

-Ríkisstjórnin lenti í því einsdæmi að forsetinn synjaði lögum, fjölmiðlalögunum, staðfestingar.

"Já. Í því máli áttaði ég mig ekki nægilega vel á andrúminu í þjóðfélaginu og get sjálfum mér um það kennt.

Áhrif auðhringsins voru undir ýmsum merkjum og myndum og almenningi var því ekki ljóst, hversu víða þeir menn höfðu leitað fanga. Frjálsum fjölmiðlum stafaði af þeim mikil hætta og mér fannst, að það hefði átt að hringja einhverjum bjöllum.

Ef eitthvað mistekst er rétt að leita orsakanna í eigin ranni og ef ég geri það, hef ég vísast ofmetið hversu þroskað málið var í vitund fólks, að menn töldu það ekki komið á hættustig, þótt mat ríkisstjórnarinnar væri annað. Mönnum var út af fyrir sig vorkunn, því fjölmiðlum var óspart beitt gegn lagasetningu, stjórnarandstaðan hamaðist gegn málinu og svo freistaðist Ólafur Ragnar Grímsson til þess að beita úr sér gengnu ákvæði, sem hafði ekki verið útfært á Alþingi í 60 ár í þeirri von að fjölmiðlaveldið og félagar hans dygðu með hömlulausri misnotkun fjölmiðlanna til þess að málið yrði fellt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það var því ekki um annað að ræða en taka málið aftur og leyfa því að gerjast enn um sinn í vitund þjóðarinnar."

-Hefur það breytt einhverju?

"Sú tilfinning sem ég var kominn með, þegar ríkisstjórnin lagði upp með sitt fjölmiðlafrumvarp, hefur heldur betur verið undirstrikuð síðan. Nú eru miklu fleiri sammála því að hér þurfi að gilda svipaðar reglur og annars staðar um fyrirtæki og fyrirtækjablokkir. Menn eru að átta sig á þessu hver um annan þveran, líka þeir sem voru á móti fjölmiðlalögunum á sínum tíma.

Hitt er svo aftur að ef menn ætla að taka málið upp á nýjan leik, þá er ekki hægt að gera það á grundvelli fjölflokkaskýrslunnar, sem svo var samin. Það yrði verra en ekkert. Samfylkingin einbeitti sér að hagsmunagæzlu fyrir Baug í því starfi og því varð niðurstaðan hvorki fugl né fiskur.

Menn verða að taka málið algjörlega upp á nýtt."

Breytt andrúm og umhverfi

-Hvað er þér efst í huga frá pólitíkinni, þegar þú hverfur nú frá henni?

"Ég vil ekki taka neitt eitt mál út úr.

Mér eru efst í huga þær breytingar sem hafa orðið á andrúmi og umhverfi í þjóðfélaginu.

Vald stjórnmálamanna hefur verið takmarkað mjög verulega og þeir geta nú einbeitt sér að sínum verkahring; að setja þjóðfélaginu leikreglur. Þá hefur svigrúm fólks og fyrirtækja breytzt og aukizt svo um munar, þótt á okkur dynji endalaust reglugerðarfargan frá Evrópu."

-En vantar þá ekki fleiri leikreglur en fjölmiðlalög?

"Það er rétt að þar er verk að vinna. Það er auðvitað angi af málinu að um leið og stjórnmálamennirnir hverfa af vettvangi, þá ryðjast fyrirtækin inn í tómarúmið og þegar leikreglurnar vantar, þá má reikna með því að menn olnbogi sig áfram af töluverðri hörku.

Þess vegna mega stjórnmálamenn ekki heykjast á því að setja viðskiptalífinu heilbrigðar leikreglur þannig að enginn einn, tveir eða þrír aðilar geti náð yfirburðastöðu og drepið allt annað í dróma."

-Þegar ég heyri þig telja þér til tekna að hafa dregið úr völdum stjórnmálamanna, þá skýtur það skökku við þá mynd, að þú sért hvarvetna með puttana í öllum málum og helzt ekkert gerist í landinu án þín!

"Já, er það ekki skrýtin umræða? Ég sem er alltaf að reyna að sannfæra menn um það að ég sé bæði latur og værukær! Þess vegna hef ég enga þörf fyrir að skipta mér af. En ég finn til mikillar ábyrgðar, ef leikreglurnar eru brotnar. Frelsi eins má aldrei vera fjötur annars.

Ef ég nefni Baugsmálið til dæmis, þá er mikið gert úr mínum hlut í þessu refsimáli, sem nú er rekið gegn fyrirtækinu. Gott ef ég á ekki að hafa hleypt því af stokkunum. Það er svo fjarri öllu lagi! Og þótt ég sé lögfræðingur að mennt þá hef ég ekki einu sinni lesið ákærurnar gegn fyrirtækinu og veit minna um málið en margur annar.

Ég hef hins vegar ekki horft þegjandi upp á það að Baugur gíni yfir öllu og kunni sér ekki hóf. Refsimálið er hins vegar allt annar handleggur. Í því taka dómstólar ákvörðun og það snertir mig ekki á nokkurn hátt."

Hér lítur Davíð til mín og heldur svo áfram: "Þeim fer nú að fækka tímunum sem ég get talað svona frjálslega!"

-Heldur þú að þú saknir "málfrelsisins" þegar þú ert kominn í Seðlabankann?

"Ég held það hljóti að vera skrýtið að geta ekki blandað sér í umræðu dagsins. Það hlutverk flytzt þá á annarra hendur.

Vinur minn Jón Steinar Gunnlaugsson, en vináttu okkar er oft haldið til haga, var æði virkur í þjóðmálaumræðunni áður en hann varð hæstaréttardómari. Honum hefur nú tekizt að steinhalda kjafti í ár svo ég hlýt að geta það líka!"

-Þær raddir heyrast á eftir þér í Seðlabankann, að það komi vel á vondan, að Davíð Oddsson seðlabankastjóri skuli þurfa að fást við afleiðingar af gjörðum Davíðs Oddssonar forsætisráðherra.

"Það er ekkert ósanngjarnt að tala svo.

Seðlabankanum er ætlað að halda utan um verðbólguna og honum er gjarnan órótt, þegar mikil velta er í þjóðfélaginu og spenna. Við í ríkisstjórninni vissum, þegar ákvarðanir voru teknar, að afleiðingarnar myndu reyna á þanþol efnahagslífsins. Hér áður fyrr hefði dæmið ekki gengið upp, en nú hafa sveigjanleikinn og fjölbreytnin í þjóðfélaginu aukizt svo að við getum staðið undir þeirri spennu sem hlutunum fylgir. Og orsakirnar eru jákvæðar, stóraukinn kaupmáttur og raunveruleg eignamyndun í landinu. Fylgikvillarnir eru áhætta sem menn töldu þjóðfélagið geta risið undir. Reyndar tel ég að bankarnir hafi sett strik í reikninginn með viðbrögðum sínum á íbúðalánamarkaðnum. Þeir máttu gjarnan fara hægar í sakirnar.

En það er alveg eðlilegt að Seðlabankinn sé á tánum. Og það er líka eðlilegt að menn telji það koma vel á vondan að það verði mitt hlutverk að horfa á málin út frá sjónarhóli bankans. Maður sem hefur spilað í framlínu Manchester United og verið færður í bakvarðarsveit annars liðs, hann spilar leikinn öðru vísi. En hann verður áfram að standa sig.

Í Seðlabankanum fær formaður bankastjórnarinnar engu ráðið einn. Seðlabankastjórarnir eru þrír og nánast jafnsettir. Ég verð því þarna í þriggja manna hópi og á allt mitt undir samþykki hinna."

-Allir vita um bridds og skriftir. En fæstu við eitthvað annað í tómstundum?

"Já, þjóðin veit að við Jón Steinar erum briddsfélagar. Það er annars merkilegt umburðarlyndi Jóns að vera spilafélagi minn svo mikill er styrkleikamunurinn honum í hag. Hann hefur haft á orði að mér fari lítið fram, en ég reyni. Annars er ég mjög sáttur við að vera miðlungsmaður í bridds. Það stælir mann að reyna sig gegn sér sterkari mönnum. En umburðarlyndi spilafélaga míns gagnvart öllum mínum fingurbrjótum verður seint oflofað!

Fyrir utan bridds og skrif þá uni ég mér vel við gróðursetningu í sumarlandi okkar hjóna."

Horfir frekar til flokksins en sín sjálfs

Þegar við Davíð hófum þetta samtal, hafði hann fengið góðar fréttir af sínu heilsufari, en hann átti við krabbamein að stríða og gekkst bæði undir aðgerðir og meðferðir þess vegna.

"Það má eiginlega segja, að ég hafi sjálfur komið mér mest á óvart í þessum veikindum. Ég hef alltaf verið svoddan kveif að ég mátti aldrei sjá nál á lofti í sjónvarpinu, þá fór ég bara og lagaði te. Konan horfði auðvitað á öll ósköpin, enda hjúkrunarfræðingur!

En þegar ég stóð frammi fyrir veikindunum varð mér ekki fyrst fyrir að líta undan eða leggja árar í bát. Ég fann að ég bjó yfir einhverjum innri krafti til þess að takast á við sjúkdóminn. Ég veit nú að ég er ekkert sérstakt fyrirbrigði hvað þetta varðar. Við erum öll þessarar gerðar."

Davíð lét þau orð falla, þegar hann var spurður hvort veikindin ættu einhvern þátt í brotthvarfi hans úr pólitík, að hann hefði fengið gula spjaldið og þá reyndu menn að haga sér skynsamlega til þess að fá ekki rauða spjaldið líka. Í þessu samtali hefur hann líka brugðið fyrir sig líkingum af knattspyrnuvellinum. Er fótboltinn honum áhugamál eins og skriftirnar, briddsið og gróðursetningin?

"Ég fylgist svona með en er enginn sérfræðingur til þess að vera kallaður í umræðuþætti. Ég horfi stundum á fótbolta mér til ánægju.

Ég er frá gamalli tíð hlynntur Fram. Það á rætur að rekja til þess, þegar ég bjó í Barmahlíðinni og fór á Framvöllinn hjá Sjómannaskólanum. En ég komst ekki í nokkurt lið. Síðan hefur samúð mín legið hjá Fram, þótt það hafi svo sem ekki hjálpað mikið að undanförnu!"

Davíð Oddssyni hefur tekizt að fylkja Sjálfstæðisflokknum á bak við sig og búa við betri frið en margur fyrirrennari hans á formannsstóli. Hver er gald urinn?

"Flokkurinn skiptist hér áður fyrr oft í fylkingar og það má segja að nú hafi í nokkurn tíma í fyrsta skipti ekki verið neinir flokkadrættir. Það eru engir Davíðsmenn og engir aðrir eyrnamerktir einhverjum öðrum. Þingflokkurinn hefur staðið traustur með forystunni og það hefur ríkt óvenjuleg eindrægni í þessum ágæta flokki. Fyrir þetta er ég þakklátur.

En galdramaður er ég enginn!"

-En af hverju þá að hætta nú?

"Það er út af fyrir sig ekkert sem knúði á þessa ákvörðun. Og ég hygg að það sé sjaldgæft að menn kjósi að hætta, þegar þeir njóta svo góðs stuðnings, sem ég finn mig njóta í mínum flokki.

Flokkurinn stendur sterkur í ríkisstjórn og hefur á kjörtímabilinu verið að mælast með þetta 38-44% miðað við 34% í síðustu kosningum. Ég er enn á sæmilegum aldri og bý við bærilegt heilsufar, því ég veit ekki annað en ég sé búinn að jafna mig af veikindum mínum. En ég horfi frekar til flokksins en mín sjálfs, þegar ég kýs að hverfa af pólitískum vettvangi. Ég held að breytingar séu tímabærar og persónulega finnst mér það dýrmætt að geta sjálfur valið stundina til þess að sinna einhverju öðru."

En hver er pólitísk arfleifð Davíðs Oddssonar? Hann réttir mér forsætisráðherrabókina, þar sem hann skrifaði sjálfur eftirfarandi um Hannes Hafstein:

"Það er gjarnan spurt um einstaka gengna forystumenn hver hafi verið hlutur hans og jafnvel hver sé hans pólitíska arfleifð. Slíkum spurningum er ekki auðvelt að svara þótt flest ætti að liggja fyrir um ferilinn þegar sagan hefur farið um hann höndum í áratugi. Í lýðræðisþjóðfélagi gera menn fæst einir, jafnvel þeir stjórnmálamenn sem öflugastir þykja og hafa um skeið mest völd á hendi. Fjölmargir eiga hlut að því hvernig mál þróast frá hugmynd til ákvörðunar. Eru sumir allsýnilegir en einnig hafa fjölmargir komið sögu sem hvergi glittir í. Öll eignafærsla stjórnmálalegra afreka og afglapa kallar því á varúð og fyrirvara."

Eftir Freystein Jóhannsson