— Morgunblaðið/Kristinn Benediktss
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Veiði og vinnsla á beitukóngi er stunduð við Breiðafjörðinn. Kristinn Benediktsson brá sér í róður með Ásgeiri Valdimarssyni, skipstjóra á Garp SH 95, til að kynnast þessum nýstárlegu veiðum.
Kuðungur, trúlega beitukóngur, mun hvergi hérlendis hafa verið veiddur eða hirtur til matar, svo orð sé á gerandi, nema í Breiðafirði, og sennilega einna mest í Reykhólasveit og Gufudalshreppi," segir í Íslenskum sjávarháttum og vitnað í Ferðabók Eggerts og Bjarna frá átjándu öld þar sem Eggert Ólafsson ræðir um sæsniglana og greinir frá því að algengasti snigillinn sé ætikóngur eða bobbi, sem eyjaskeggjar á Breiðafirði telja góða átu. Hann getur þess að bobbarnir séu einkum tíndir á vetrum í nýrri tunglfyllingu eins og kræklingurinn.

"Eru þeir ýmist steiktir eða soðnir niður í vökva þeim, sem þeir gefa frá sér, þegar þeir hitna. Hver aðferðin sem notuð er, þá eru þeir bragðgóðir, og verður mönnum gott af þeim. Sniglarnir eru öðrum skelfiski sætari og þykja holl og góð fæða. Þó þora menn hvergi að éta þá nema hér (þ.e. í Breiðafirði)," segir Eggert Ólafsson um aldagamla neysluhætti sem nú hafa tekið á sig aðra mynd eftir að farið var að veiða kuðungana eða beitukónginn í gildrur á Breiðafirði.

Tíðindamanni Morgunblaðsins var það auðsótt mál að fara í róður með Ásgeiri Valdimarssyni, skipstjóra á Garp SH 95 frá Grundarfirði og áhöfn hans og kynnast þessum nýstárlegu veiðum af eigin raun.

Báturinn var í Stykkishólmshöfn eftir brælur undanfarna daga og því var ég staddur þar í éljahraglanda fyrir skömmu eftir barning í snjóþæfingi á Vatnaleiðinni um miðja nótt til að ná tímanlega vestur, því það er siður til sjós að bíða ekki eftir mönnum sem eru of seinir, heldur farið á réttum tíma.

2018 út frá Stykkishólmi

Norðan strekkinginn hafði lagt sig, sem legið hafði yfir Breiðafirði dag eftir dag og gert sjómönnum á litlu bátunum lífið leitt og því voru þeir óþreyjufullir að komast af stað, búnir að taka beituna og spottinn laus þegar ég hoppaði um borð.

Súgandisey, þar sem höfnin í Stykkishólmi er í góðu vari, hvarf í náttmyrkrið og í radarnum mátti sjá Bæjarsker og framundan á bak grillti í Elliðaey. "Reykjavík, 2018 út frá Stykkishólmi," sagði Ásgeir í talstöðina og setti gleraugun upp á ennið um leið og hann setti á fulla ferð og tók stefnuna á Stagley.

"Já, 2018, móttekið," sagði Reykjavík með braki og brestum. "Reykjavík, Halldór Kári út frá Ólafsvík, heyrðist úr talstöðinni.

Tilkynningarskyldan hafði ekki undan að móttaka meldingar frá bátunum vítt og breitt sem fjölmenntu á sjó þennan morgun. Fyrir aftan okkur mátti sjá siglingaljósin á Jakob Einari SH og Sprota SH, sem einnig stunduðu veiðar á beitukóngi í gildrur.

"Við skiptum svæðunum á milli okkar," sagði Ásgeir og bætti við að við færum á svæðið suður og vestur af Stagley þar sem hann væri með hátt í 3.000 gildrur. Svæði sem aldrei hefur verið lagt á fyrr. Hinir bátarnir, einnig hver með um 3000 gildrur, eru norðan við, allt norður fyrir Flatey. Suðursvæðið út af Stykkishólmi og vestur með landinu er í hvíld en það hefur verið mikið nýtt auk þess sem gott er að eiga það til góða þegar veðrið versnar í vetur.

Plastfötur og majónesdósir

Gildrurnar eru 15 til 20 lítra plastfötur í ýmsum litum, án þess að það hafi með áhuga kuðungana að gera. Þær eru boraðar með litlum götum á hliðunum og í botninum er þung stálplata sem heldur gildrunni réttri þegar hún sest á botninn með opið upp. Fyrir opinu er net sem súrrað er saman með hespubandi þannig að lítið gat er opið í miðju sem bobbarnir detta niður um þegar þeir renna á lyktina af beitunni. Beitan er karfaúrgangur sem er hakkaður og settur í litlar gataðar majónesdósir sem eru lokaðar og til að auka áhuga snigilsins er einnig hent með tindabikkju, steinbítshaus með beingarði eða öðrum fiskúrgangi sem til fellur frá fiskvinnslunum á Snæfellsnesi. "Áður settum við þorskhausa með dósinni, en nú eru þeir orðnir svo dýrir að það er of mikill lúxus fyrir kvikindið. Beitukóngurinn er snigill, ótrúlega fljótur að pota sér áfram og sogar sig fastan einkum við ætið. Ég hef enn ekki getað áttað mig á honum og því eru þessar veiðar ennþá dálítið fálmkenndar," sagði Ásgeir kíminn og ræsti strákana því senn styttist í fyrstu trossu.

"Já, ég get nú ekki að því gert að kalla þetta trossur," sagði Ásgeir og útskýrði þetta þannig að 100 gildrur eru festar á streng með 7-8 föðmum á milli gildranna sem hanga í spotta sem er rúmlega faðmur að lengd. Þessu fylgja baujur og belgir, færi og drekar og svo er þetta dregið inn á netarúlluna.

"Við róum yfir vertíðina á þorskanet og veiðum þessi áttatíu tonn sem ég á í kvóta og þegar því er lokið þá byrjar gildrubardaginn aftur restina af árinu. Við náum að skapa okkur vinnu við þetta allt árið með þessum hætti," sagði Ásgeir og snaraðist í gallann því strákarnir, Palle og Jói voru að kippa drekanum af fyrstu trossunni inn fyrir.

Palle eða Páll, fullu nafni Poul Jepssen, er danskur frá Jótlandi en löngu orðinn Íslendingur. Búinn að vera á Íslandi síðan 1985 er hann flutti í Svarfaðardal til að sinna landbúnaðarstörfum. Jói, Jóhann Valdimar Kjartansson, hefur verið á sjó frá því hann lauk grunnskóla og hyggst fara í sjómannaskólann, eða hvað hann nú heitir, þegar færi gefst.

Nú kom fyrsta fatan með miklum skelli og gusugangi inn fyrir rúlluna og hafði Jói hendur á henni, afdragarinn, netakarlinn, sá um draga hana aftur til Ásgeirs sem tæmdi næstum fulla fötuna niður um op á borðinu þar sem fengurinn fór í flokkara. Smái kuðungurinn fer aftur í sjóinn og heldur áfram að stækka en sá stóri fer ofan í lest. Gildrunni var síðan skutlað aftur fyrir þar sem Palli setti beitu í hverja þeirra aftur, lokaði og staflaði þeim upp þannig að allt var tilbúið fyrir lögnina. Í dagsbirtunni sem nú var óðum að taka völdin mátti sjá Gassaskerin sunnan við okkur og Stagleyna alhvíta vestan við.

Gildrurnar liggja á drullubotni þannig að festur sem fylgja öðrum veiðiskap eru ekki að baga menn hér og drátturinn gekk því lipurt. Hver trossan af fætur annarri kláraðist. Þær elstu voru orðnar átta daga gamlar en það kemur ekki að sök. Snigillinn lifir í gildrunni meðan hann hefur æti og stundum hefur komið fyrir að kuðungarnir eru tómir sem bendir til að þeir éti hver annan þegar harðnar á dalnum. Þá slöppustu fyrst.

Ásgeir snaraðist inn í brú til að leggja og hnussaði þegar hann heyrði Ástu Möller vera að biðla til Samfylkingarinnar í morgunþætti útvarpsins, en það var ekki til umræðu nú því mér lék forvitni á að heyra um þennan veiðiskap og sjómennsku Ásgeirs.

Úr pípulögn í útgerð

"Garpur er þriðji báturinn sem ég geri út, 15 tonna stálbátur frá Seyðisfirði. Fyrsti báturinn var Sómabátur sem ég fékk 1985, en þá ákvað ég að hætta í pípulögnum og skella mér í útgerð. Ég keyrði stjúpa minn í Grundarfjörð, fyrir ég veit ekki hvað mörgum árum, og hef ekki farið ennþá suður. Hann var pípulagningarmeistari og svo mikið að gera að ég fór að hjálpa honum.

Bátur númer tvö var svo 10 tonna dansksmíðaður bátur sem ég skipti út þegar ég fékk þennan," sagði Ásgeir og gaf Páli merki um að láta fara. Gildrurnar skutluðust aftur af í sérstakri rennu og liðkaði Páll fyrir þeim þegar þær fóru úr staflanum á þilfarinu.

Þannig hélt drátturinn áfram. Fiskiríið var blettótt. Á einum streng gat verið að sumar fötur kæmu fullar en síðan voru inn á milli hálffullar fötur og allt þar á milli. Regla númer eitt var að leggja ekki á sama heldur færa trossuna 50 til 100 metra til hliðar við fyrri lögn. Samt var lagt þétt á svæðin, þá þurfti ekki að kippa langt í þá næstu.

Ásgeir var ánægður ef veiðin jafnaðist út á 4 kg í hverri fötu. Dregnar eru 8 trossur yfir daginn eða um átta hundruð gildrur og þannig skiptist drátturinn á fjóra daga til fimm daga vikunnar en ekki er róið á föstudögum og laugardögum.

Vinna 10 tonn á dag

"Ég stjórna því, ég á vinnsluna og hún afkastar um 10 til 12 tonnum á dag sem er skammturinn, sem þessir þrír bátar afkasta þokkalega," sagði Ásgeir og bætti við að ekki væri unnið um helgar í vinnslunni og því er ekki geymdur kuðungur yfir helgina. Hráefnið skal vera ferskt.

"Tilraunveiðar hófust á þessu fyrir mörgum árum í Hólminum. Pétur Ágústsson, sá sem rekur Sæferðir og Baldur, setti upp vinnslu á bobbunum en markaðirnir voru erfiðir og þegar Asíumarkaðurinn lokaðist fyrir nokkrum árum þá fjaraði undan þessu. Ég hafði verið við veiðarnar nánast frá upphafi og leist á að prufa vinnsluna, festi kaup á tækjum úr vinnslu á Jersey í Englandi, sem var að hætta fyrir þremur árum. Tæki sem voru tiltölulega ný. Ég þurfti að bæta við frysti og síðan hefur vinnslan verið í Grundarfirði," sagði Ásgeir.

Í vinnslunni vinna 7 manns og er hráefnið alltaf unnið sem ferskast eða frá deginum áður þannig að snigillinn sé lifandi. Kuðungarnir eru soðnir í stórum suðupotti í 15 mínútur við 98,4 gráður hita. Færiband í pottinum flytur hann í brotvél sem smallar skelina utan af, þaðan í hristara þar sem skelin hreinsast frá. Í pækli flýtur bitinn en skelin sekkur og í hreinsivél fara innyflin burtu sem ekki hafa farið af í ferlinu á undan. Á eftirlitsbandinu ganga 5 - 6 starfsmenn úr skugga um að bitinn sé hreinn en þar er oftast nöglin eftir sem hann notar til að loka kuðungnum. Hún er lífseig.

Verðið í lagi, ekki gengið

Markaðurinn er í Japan en þar er beitukóngur lostæti. Vinsæll í forrétti í fínum veislum eða salöt. Annar markaður er í Kóreu, þar sem hann er soðinn niður í dósir og notaður síðan í súpur. "Verðið er í lagi en ekki gengisskráningin," segir Ásgeir og bætir við að sér lítist illa á ástand sjávar. "Vantar allt æti í fjörðinn eins og var hér áður fyrr. Ekkert fuglager til að voma yfir sílinu og þegar marflóin er hætt að sjást, þá er eitthvað mikið að," sagði Ásgeir og setti stefnuna á Grundarfjörð að loknum ásættanlegum róðri.