"Ég man enn eftir því hvers konar sælutilfinning hríslaðist um mig þegar ég heyrði Jón Múla kynna baráttusönginn Áfram stelpur og áttaði mig á því að draumur okkar um að ná til alls samfélagsins var að rætast," segir Steinunn Jóhannesdóttir.
"Ég man enn eftir því hvers konar sælutilfinning hríslaðist um mig þegar ég heyrði Jón Múla kynna baráttusönginn Áfram stelpur og áttaði mig á því að draumur okkar um að ná til alls samfélagsins var að rætast," segir Steinunn Jóhannesdóttir. — Morgunblaðið/Ásdís
Ég var þarna hin syngjandi, róttæka, unga leikkona," segir Steinunn Jóhannesdóttir rithöfundur og getur ekki varist brosi þegar hún rifjar upp sinn þátt í kvennafrídeginum hinn 24. október árið 1975.

Ég var þarna hin syngjandi, róttæka, unga leikkona," segir Steinunn Jóhannesdóttir rithöfundur og getur ekki varist brosi þegar hún rifjar upp sinn þátt í kvennafrídeginum hinn 24. október árið 1975. Steinunn átti í félagi við Kjartan Eggertsson frumkvæðið að því að gefa út hljómplötuna Áfram stelpur! með baráttusöngvum kvenna í tilefni dagsins. Hljómplatan hefur verið endurútgefin á geisladiski í tilefni af 30 ára afmælinu.

Steinunn segir að Sameinuðu þjóðirnar hafi beint þeim tilmælum til allra aðildarþjóða sinna að efna til átaks í því skyni að bæta stöðu kvenna meðal þjóðanna í tilefni af kvennaárinu árið 1975. "Ríkisstjórn Íslands brást við þeim tilmælum með stofnun framkvæmdanefndar kvennaársins hinn 28. maí sama ár. Kvennanefndin var þverpólitísk og í henni áttu sæti fulltrúar fjöldahreyfinga á borð við kvennahreyfingarnar og verkalýðshreyfingarnar í landinu. Með nefndinni myndaðist því frá upphafi ákaflega breið samstaða um átakið hér á landi. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að þessi breiða samstaða hafi í bland við kraftinn frá rauðsokkunum átt hvað stærstan þátt í því hvað vel tókst til við átakið á Íslandi. Hér sameinuðust ytri og innri kraftur samfélagsins í öflugri bylgju sem reið yfir allt samfélagið þennan dag."

"Ertu nú ánægð, kerling?"

Eitt af verkefnum kvennanefndarinnar var að efna til svokallaðrar kvennaársviku um miðjan júní árið 1975. "Vikan hófst með miklum baráttufundi í Háskólabíói undir stjórn Vigdísar Finnbogadóttur, þáverandi leikhússtjóra Leikfélags Reykjavíkur. Á þeim fundi stigum við nokkrar ungar leikkonur úr Þjóðleikhúsinu á stokk og sungum baráttusöngva.

Leikárið á undan, 1974, höfðum við ásamt fleiri leikkonum hússins tekið þátt í vinsælli kabarettsýningu sem hét "Ertu nú ánægð, kerling!"," heldur Steinunn áfram. "Leikstjóri var Bríet Héðinsdóttir, önnur tveggja leikkvenna sem Sveinn Einarsson leikhússtjóri fastréði sem leikstjóra. Hin var Brynja Benediktsdóttir. Það var hans svar við kalli tímans. Sýningin var sett saman úr nokkrum þýddum, stolnum og staðfærðum sænskum leikþáttum ásamt einum frumsömdum eftir Svövu Jakobsdóttur. Stór hópur leikkvenna á öllum aldri tók þátt í sýningunni þó flest einsöngslögin væru sungin af okkur yngri leikkonunum."

Steinunn segir að þessi sýning hafi orðið til þess að ungu leikkonurnar hafi verið beðnar um að syngja nokkur lög á upphafsfundi kvennaársvikunnar í Háskólabíói. "Vikan var ákaflega vel heppnuð og henni lauk með ráðstefnu á Hótel Loftleiðum. Þar var lögð fram þverpólitísk tillaga um kvennafrí á degi Sameinuðu þjóðanna hinn 24. október sama ár. Ég verð að viðurkenna að ég veit ekki alveg hvaðan hugmyndin er komin. Hugsanlega hefur verið mælt með einhverjum slíkum fjöldaaðgerðum í undirbúningsferlinu að alþjóðlegum baráttufundi kvenna í Mexíkó árið 1975. Ef svo hefur verið hefur a.m.k. hvergi í heiminum tekist að ná jafn almennri þátttöku í átakinu og á Íslandi. Íslenskar konur vöktu heimsathygli með þessari aðgerð."

Gítarkennarinn varð útgefandi

Steinunn segist hafa verið undir áhrifum frá sænskri þjóðlaga- og baráttutónlist á þessum tíma. "Mig langaði óskaplega mikið til að læra á gítar og skráði mig því á gítarnámskeið hjá Tónskóla Sigursveins um sumarið," rifjar hún upp. "Fljótlega eftir að ég byrjaði í náminu kom í ljós að kennarinn minn Kjartan Eggertsson hafði í raun miklu meiri áhuga á því að gefa út plötu með mér heldur en að kenna mér á gítar. Hann spurði mig hvort ég ætti efni til að gefa út og auðvitað gat ég ekki neitað því að ég vissi um fullt af efni úr sýningunni í Þjóðleikhúsinu, svipaðri sýningu á Akureyri og af baráttufundinum í Háskólabíói. Á endanum ákvað ég að slá til - hafði samband við vinkonur mínar úr Þjóðleikhúsinu og Kristínu Ólafsdóttur úr sýningunni á Akureyri og saman sungum við inn á hljómplötu í tilefni af kvennafríinu 24. október. Efnið hafði allt verið flutt áður ef frá er talið titillagið "Áfram stelpur!". Ég hafði heyrt lagið undir titlinum "Jösses flickor befrielsen är nära" á leiksýningu í Svíþjóð og fékk Dagnýju Kristjánsdóttur og Kristján Jóhann Jónsson, manninn hennar, til að snara textanum yfir á íslensku."

Hvernig gekk að koma plötunni út fyrir kvennafrídaginn?

"Útgáfan gekk ekki þrautalaust fyrir sig eins og Kjartan og vinur hans Hjörtur Blöndal geta vottað um. Illa gekk að útvega nauðsynlegt fjármagn og tafir urðu vegna eftirvinnslu í útlöndum. Satt að segja lituðust dagarnir fyrir kvennafrídaginn talsvert af spenningi yfir því hvort platan myndi koma til landsins í tæka tíð eða ekki. Því miður varð endirinn sá að upplagið kom ekki til landsins nógu snemma. Sem betur fer vorum við þó búin að fá frumupptökuna í hendurnar og fórum auðvitað með hana beinustu leið upp í útvarp. Jón Múli var á vaktinni þennan dag. Við báðum hann um að spila lögin eins og hann gerði samviskusamlega í tilefni dagsins.

Ég vaknaði snemma og kveikti á útvarpinu um morguninn. Ég man enn eftir því hvers konar sælutilfinning hríslaðist um mig þegar ég heyrði Jón Múla kynna baráttusönginn Áfram stelpur og áttaði mig á því að draumur okkar um að ná til alls samfélagsins var að rætast. Rútur með konur alls staðar að af landinu streymdu til Reykjavíkur. Konur út um alla borg lögðu niður störf sín til að sækja útifundinn á Lækjartorgi. Ég man hvað straumurinn virtist óendanlegur þegar ég stóð á sviðinu á Lækjartorginu og sá konurnar streyma að úr öllum áttum. Við leikkonurnar sungum þar með dyggum stuðningi Guðrúnar Á. Símonardóttur og fleiri kvenna á sviðinu baráttusöngva af plötunni. Á meðal annarra dagskráratriða á fundinum var ávarp nær óþekktrar verkakonu - Aðalheiðar Bjarnfreðsdóttur. Hún náði beint til fundarkvennanna með stuttum meitluðum setningum. Stemningin í ræðunum, söngnum og slagorðunum var satt að segja ólýsanleg. Styrkurinn í þessum um 25.000 konum var ótrúlegur. Þó haldnar hafi verið fjölmennari hátíðir í miðbænum efast ég um að haldinn hafi verið fjölmennari baráttufundur."

- Hvaða árangri telur þú að fundurinn hafi skilað?

"Ég er þeirrar skoðunar að með fundinum hafi verið brotið blað í íslenskri jafnréttisbaráttu - að í raun sé hægt að tala um fyrir og eftir fundinn. Ég get nefnt sem dæmi að í kjölfar fundarins var Kvennalistinn stofnaður, Vigdís Finnbogadóttir var kjörin forseti og konum fjölgaði umtalsvert á þingi. Ef mig misminnir ekki voru aðeins þrjár konur á þingi árið 1975. Baráttunni er þó langt frá því að vera lokið. Konur stigu yfir þröskuldinn og fjölgaði á þingi þar til þær ráku sig í glerþakið sem stendur í vegi fyrir þeim núna. Þó konur njóti á ýmsan hátt meiri lífsgæða en áður bera þær enn meiri ábyrgð á heimilishaldinu en karlar, fá lægri laun og færri tækifæri úti í atvinnulífinu. Ég held að lykilþáttur í því skyni að leiðrétta þennan mun sé að stytta vinnudaginn til að gera foreldrum auðveldara að axla jafna ábyrgð á börnum og heimilishaldi. Við megum svo heldur ekki gleyma því að víða úti í heimi búa konur enn við ömurleg skilyrði.

Ég vil líka taka fram að þó konur njóti sín sem einstaklingar er mjög mikilvægt að þær átti sig á því að jafnréttisbaráttan er kynbundin barátta og þar skiptir samstaðan mestu máli eins og sést best á því hverju samtakamátturinn fékk áorkað 24. október 1975."