Sigurður Þórólfsson, skólastjóri, og eiginkona hans frú Ásdís Þorgrímsdóttir.
Sigurður Þórólfsson, skólastjóri, og eiginkona hans frú Ásdís Þorgrímsdóttir.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eitt hundrað ár voru í gær liðin frá því að Sigurður Þórólfsson (1869-1929) frá Holti á Barðaströnd stofnaði Hvítárbakkaskóla í Bæjarsveit (Andakílshreppi) í Borgarfirði og var þess minnst með athöfn í Reykholti.

Eitt hundrað ár voru í gær liðin frá því að Sigurður Þórólfsson (1869-1929) frá Holti á Barðaströnd stofnaði Hvítárbakkaskóla í Bæjarsveit (Andakílshreppi) í Borgarfirði og var þess minnst með athöfn í Reykholti. Í tilefni dagsins flutti Jón Torfi Jónasson, prófessor í uppeldis- og menntunarfræði við Háskóla Íslands, fyrirlestur sem hann kallaði Hvítárbakkaskólinn og lýðháskólahreyfingin á Íslandi .

"Lífseigasta og best heppnaða tilraun til þess að stofna lýðháskóla hér á landi er sennilega, enn sem komið er, skóli Sigurðar Þórólfssonar sem lengst af var starfræktur að Hvítárbakka í Borgarfirði," segir Jón Torfi í ritinu Steinar í vörðu, til heiðurs Þuríði J. Kristjánsdóttur sjötugri sem var gefið út af Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands 1999. Greinina nefnir hann Lýðháskólar á Íslandi í byrjun 20. aldar . Til útskýringar orðalaginu segir hann: "Efinn sem speglast í þessari setningu tengist einkum því hvort telja skuli alþýðuskólana (síðar héraðsskólana) að Núpi, Eiðum og Laugum til lýðháskóla. En það er efni í aðra hugleiðingu," segir þar.

Í bók Magnúsar Sveinssonar, fyrrverandi nemanda í skólanum, sem út kom 1974, Hvítárbakkaskólinn 1905-1931 , greinir frá því að á fyrstu árum aldarinnar hafi verið starfandi áhugamannafélag í miðsveitum Borgarfjarðarhéraðs, sem hafði ýmis mál, er til framfara horfðu, á stefnuskrá sinni. Á þeim tíma var Sigurður Þórólfsson skólastjóri í Búðardal og var Borgfirðingum vel kunnugt um áhuga hans á lýðskólamálum "enda höfðu þeir fljótlega samband sín í milli varðandi þessi mál".

Magnús segir síðan: "Bakkakot var að mörgu leyti vel í sveit sett, miðsvæðis í héraðinu, og hafði auk þess upp á ýmsa kosti að bjóða sem bújörð og skólasetur. Þessi mál þróuðust fljótlega á þann veg, að 1905 kaupir Sigurður Þórólfsson Bakkakot af Jóhanni Björnssyni með það fyrir augum að stofna þar alþýðuskóla með lýðháskólasniði að danskri fyrirmynd. Sama ár, seint um haustið 1905, tók skóli Sigurðar til starfa með 14 nemendum."

Bakki eða Hvítárbakki var hið forna heiti jarðarinnar. Sigurður Þórólfsson vildi strax í upphafi fá nafni jarðarinnar breytt aftur í Hvítárbakka og var það lögfest 1906. "Var skólinn aðeins eitt ár kenndur við Bakkakot, en hét eftir það Lýðháskólinn á Hvítárbakka eða Hvítárbakkaskólinn," segir í bók Magnúsar.

Sigurður stýrði skólanum sjálfur frá 1905 til 1920 er hann seldi Borgfirðingum skólann. Þeir ráku hann áfram á sama stað þar til 1931 er hann var fluttur að Reykholti, að því er fram kemur í bók Magnúsar.

Sigurður veiktist alvarlega af spænsku veikinni haustið 1918. Í bókinni kemur fram að hann hafi farið of snemma á fætur og aldrei náð fullri heilsu eftir það. "Vorið 1920 var heilsa Sigurðar enn með lakara móti, enda hafði hann þá haustið áður ákveðið að hætta skólastjórn og búrekstri á Hvítárbakka. Hann flutti þá um sumarið með fjölskyldu sína að Ráðagerði á Seltjarnarnesi. Hann stundaði þar búskap, en vann annars að ritstörfum. Sigurður andaðist að heimili sínu í Reykjavík þ. 1. mars 1929," segir Magnús.

Sigurður Þórólfsson var fæddur 11. júlí 1869 að Holti á Barðaströnd. Foreldrar hans voru hjónin Þórólfur Einarsson bóndi þar og á Skriðnafelli á Barðaströnd, og kona hans, Margrét Guðmundsdóttir.

Í bók Magnúsar kemur fram að móðir Sigurðar kenndi honum að lesa. "Kverið lærði hann á 10. ári, en rifjaði upp fyrir fermingu. Forskrift fékk hann hjá einum frænda sínum og æfði sig fyrst með broddstaf á svelli, en síðan á pappír með penna. Fyrir fermingu fékk hann nokkra tilsögn í reikningi hjá Kristófer bónda Sturlusyni. Móðir Sigurðar átti fulla kistu af bókum, en í þeim las hann hverja stund, sem hann gat, og fannst sumum það auðnuleysis- og ógæfumerki. Á 16. ári fór hann til frænda síns, Björns Péturssonar á Hlaðseyri við Patreksfjörð, og var þar í tvö ár. Hjá Birni hafði hann mikinn frítíma til náms, dálitla tilsögn í ýmsu og aðgang að miklu og góðu bókasafni.

Veturinn 1888 lærði Sigurður um 10 vikna skeið, ásamt tveim öðrum nemendum, dönsku, reikning og réttritun hjá Einari Magnússyni, veitingamanni á Vatneyri við Patreksfjörð. Vorið 1890 fór hann til náms í búfræði til Torfa í Ólafsdal og útskrifaðist þaðan búfræðingur 1892. Haustið 1892 fór hann í Flensborgarskólann og tók þar gagnfræða- og kennarapróf vorið 1893. Næstu ár var Sigurður við kennslu á ýmsum stöðum til ársins 1901.

Um þetta leyti urðu þáttaskil í lífi Sigurðar Þórólfssonar. Ýmsir málsmetandi menn, en sérstaklega Páll Briem amtmaður, hvetja hann til Danmerkurfarar. Mun Páll strax hafa ráðlagt honum að vera við nám í Askovlýðháskóla, en hann reyndi síðan að koma á fót á Íslandi alþýðuskóla með lýðháskólasniði, og að sá skóli yrði í sveit. Þetta sýnir bezt álit manna á hæfileikum og dugnaði Sigurðar Þórólfssonar.

Vorið 1901 fór Sigurður utan og ferðaðist um Danmörku til að kynna sér alþýðufræðslu Dana og búskap. Styrki fékk hann frá Búnaðarfélagi Íslands, kennslumálaráðuneyti Danmerkur og jafnvel fleiri aðilum. Á Ladelundsbúnaðarskóla dvaldi hann um skeið til að læra Hegelunds-mjaltaaðferð. Veturinn 1901-02 var hann nemandi í Askovlýðháskóla og stundaði þar nám í báðum deildum eftir því sem tök voru á, og fór þaðan með loflegum vitnisburði aftur heim til Íslands. Veturinn 1902-03 hélt hann kvöldskóla í Reykjavík með lýðháskólasniði (22 nem.). - Skólastjóri unglingaskóla í Búðardal, sem einnig var með lýðháskólasniði, var hann árin 1903-05, er hugmynd hans um alþýðuskóla í sveit að danskri fyrirmynd varð að veruleika."

Í bók segir frá reglugerð um Hvítárbakkaskólann sem samþykkt var af Stjórnarráði Íslands 1913. Þar segir m.a.: "Tilgangur skólans er að veita piltum og stúlkum almenna alþýðumenntun með sama kennslulagi og tízkast við lýðháskóla á Norðurlöndunum. Námstíminn eru tveir vetur og skólanum skipt í tvær ársdeildir. Skólaárið telst frá veturnóttum til sumarmála."

Þar segir ennfremur: "Til inngöngu í skólann útheimtist, að umsækjandi sé siðsamur og hafi óflekkað mannorð, sé ekki haldinn neinum sjúkdómi, er skaðað geti hina nemendurna. Skal því inntökubeiðni fylgja læknisvottorð um heilbrigði umsækjanda, og frá sóknarpresti eða öðrum valinkunnum manni um hegðun og undirbúningsfræðslu.

Umsækjandi skal vera fermdur, vel læs og skrifandi og kunna minnst 4 höfuðgreinar í heilum tölum og brotum og rita móðurmál sitt stórlýtalaust."

Í bókinni segir Magnús jafnframt: "Sigurður Þórólfsson var góður kennari og stjórnsamur skólastjóri og velvirtur af nemendum og samstarfsmönnum. Ýmsir, sem lítið þekktu til, munu þó hafa haft ýmislegt út á hann að setja. Þótt[i] hann nýjungagjarn og ekki fara troðnar slóðir í skólamálum, og er það eðlilegt, því að skóli með þessu sniði hér á landi var óþekkt fyrirbrigði við upphaf Hvítárbakkaskólans. Þá mun nokkrum langskólagengnum mönnum hafa þótt skólaganga hans í stytzta lagi. Borgfirðingar kunnu þó vel að meta Sigurð og starf hans, að minnsta kosti heyrði ég aldrei annað á mínum uppvaxtarárum. Það þótti alltaf menningarauki að hafa verið á Hvítárbakka."

Skv. bók Magnúsar voru aðal kennslugreinar skólastjórans Íslandssaga og þjóðfélagsfræði, en auk þess heilsufræði og náttúrufræði.

Í bókinni segir: "Samkvæmt skýrslu Sigurðar Þórólfssonar og frásögn sonar hans séra Þorgríms Sigurðssonar, prófasts á Staðarstað, voru dagleg störf í Hvítárbakkaskóla í tíð Sigurðar eins og hér segir: Hver kennsludagur hófst með því að sunginn var sálmur. Fyrir og eftir hvern fyrirlestur voru sungin ættjarðarlög eða hvatningarljóð. Söngur var yfirleitt mikið iðkaður, annars vegar undir stjórn söngkennara, Hermanns Þórðarsonar, svo og fyrir tilstilli nemenda sjálfra, t.d. sungið eftir "graut", en svo var kvöldverður kallaður. Þá æfðu nemendur stundum kvartett eða dúett. Leikstarfsemi var nokkur. Samdi skólastjóri sumt, en annað var aðfengið."

Í bók Magnúsar segir að foreldrar sumra þeirra ungmenna, sem skólann sóttu, hafi í upphafi verið óánægðir með að ekki voru vorpróf við skólann, sem sýndu kunnáttu nemandans við lok skólaárs. Er auðséð, að fólk hafði ekki áttað sig á því, að hér var um nýtt skólaform að ræða, er ekkert eða lítið átti skylt við latínuskólann gamla og þá tvo gagnfræðaskóla, sem þá voru starfandi í landinu. Hvítárbakkaskólinn var þó aldrei að öllu leyti próflaus, því að strax í upphafi eða mjög fljótlega voru smápróf í sumum námsgreinum í lok kennslutímans, sérstaklega í eldri deild skólans. Þegar nemandi hafði verið tvo vetur í skólanum, eða lokið námi í eldri deild skólans (sumir eftir einn vetur), var honum gefinn kostur á námsvottorði. Þessi vottorð voru í sjálfu sér engin prófvottorð, heldur umsögn um nemandann, sniðin eftir erlendri fyrirmynd, sérstaklega danskri. Í þessum námsvottorðum var tilgreint það helzta um nemandann, það er námshæfileika, námsframfarir, iðni og hegðun."

Sigurbjörg Björnsdóttir frá Brekku í Seyluhreppi í Skagafirði var ein þeirra stúlkna sem stundaði nám á Hvítárbakka. Hún var lengi húsfreyja í Deildartungu í Borgarfirði. Grein eftir hana birtist í bókinni Konur skrifa, til heiðurs Önnu Sigurðardóttur (sem var dóttir Sigurðar skólastjóra) og kom út 1980. Sigurbjörg var þá á tíræðisaldri, fædd 1884, en greinina skrifaði hún, þegar hún var um áttrætt.

Hún segir svo frá að um aldamótin 1900 voru litlar líkur til að unglingar gætu notið skólagöngu, nema þeir, sem áttu einverja að, sem gátu styrkt þá fjárhagslega. "Fjöldinn átti ekki slíkra kosta völ, og ég var ein í þeirra hópi," skrifar Sigurbjörg. "Vinstúlka mín, Rannveig Líndal, hafði verið á nýstofnuðum skóla á Hvítárbakka í Borgarfirði 1905-1906 og ætlaði suður aftur og dvelja þar næsta vetur. Hún hvatti mig mjög til þess að reyna að koma með sér suður á skólann um haustið 1906.

Nú voru góð ráð dýr. Hún skrifaði skólastjóranum og fékk það svar, að ég mætti koma, hvað sem fjárhagnum liði og tók ég því góða boði."

Sigurbjörg segir allt hafa verið nýtt og framandi, fólkið, umhverfið og málið. "Strax fyrsta kvöldið heyrði ég orð, sem ég skildi ekki. Ég held, að málfar manna sunnan og norðan heiða hafi þá verið allmiklu ólíkara en nú, enda samgöngur minni. Flest var skólafólkið frá 18 ára og sumt yfir tvítugt. Þetta var því allþroskað fólk og komið þangað af einlægri löngun til að fræðast, en flestir lítt undirbúnir. Skólalífið féll fljótt í fastar skorður og settar reglur voru yfirleitt virtar."

Hún segir jafnframt: "Skólastjórinn Sigurður Þórólfsson var áhugasamur og lifandi í skólastarfinu, óþreytandi að hvetja og vekja og fá nemendur til að leggja sig fram. Og nemendurnir voru undantekningarlítið svo þroskaðir, að þeir skildu hvers virði það var að nota tímann vel, þó ekki væri prófið keyri á þá."

Hún segir að aðbúnaður allur hafi verið með frumbýlingsbrag, "enda var skólinn frumbýlingur, aðeins á öðru ári. Mundi hann þykja fátæklegur nú á öld velsældar og allsnægta. En kröfur fólksins voru minni á þeim dögum. Ég held, að óhætt sé að fullyrða, að æskugleði og ánægja hafi verið engu minni á Hvítárbakka en nú gerist í skólum, þar sem ekkert skortir á fullkominn útbúnað," segir Sigurbjörg í greininni.

Sigurbjörg segir Sigurð Þórólfsson hafa komið miklu til leiðar. "Hann var fátækur hugsjónamaður, sem vildi umfram allt verða þjóð sinni og fósturjörð að liði. Hann sá, að fyrst og fremst var þörfin að vekja æskuna til dáða. Þar voru dönsku lýðháskólarnir fyrirmyndin, og því nefndi hann skóla sinn lýðháskóla. En brautryðjandastarfið er erfitt og þar alheimtir enginn daglaun að kvöldum. Ýmislegt höfðu sumir héraðsbúar við skólann að athuga. Nafnið fannst þeim yfirlætislegt, og sumir sáu enga þörf á slíkri stofnun. Þó hygg ég, að fleiri hafi verið skólanum hlynntir og vel sótti borgfirzkt æskufólk hann.

Ég gat þess í byrjun, að ég fór félaus í skólann. Fleiri munu hafa haft létta pyngju. Sú hjálp að lána bláfátækum ungmennum skólagjaldið að meira eða minna leyti, var ómetanleg. En það sagði Sigurður Þórólfsson mér á síðari árum, að varla hefði það komið fyrir, að ekki væri staðið í skilum svo fljótt sem unnt var, - ber það manndómi fólksins gott vitni.

Sigurður Þórólfsson afkastaði miklu dagsverki, en hann stóð ekki einn. Kona hans frú Ásdís Þorgrímsdóttir var hin styrka stoð heimilisins, prúð, hávaðalaus, en þó stjórnsöm. Húsmóðir í beztu merkingu. Eftir 59 ár minnist ég veru minnar á Hvítárbakka með óblandinni ánægju, og kennara og skólasystkina með þakklátum huga."