Minning Jóhann Guðmundsson ­ Sonni Fæddur 3. nóvember 1915 Dáinn 1. apríl 1993 Þegar Sonni var fjögurra ára hvarf hann úr foreldrahúsum. Móðir hans hafði alið stúlkubarn í ágúst 1919 og kom hart niður. Hún lá mánuðum saman. Þá sendi Ingunn Einarsdóttir, móðuramma hans, eftir drengnum. Hún sat í hárri elli í skjóli dóttur sinnar og tengdasonar, Jóhönnu og Emils Rokstad á Bjarmalandi. Amman tók honum báðum höndum og ekki lögðu Rokstadshjónin stein í götu hans enda var hann ekki fyrsta barnið sem þau tóku undir verndarvæng sinn. Þegar Sonni kom að Bjarmalandi voru tvær uppeldisdætur þar fyrir, Sigríður Guðmundsdóttir, hálfsystir Sonna, og Fanney Sigurðardóttir.

Ingunn Einarsdóttir var gædd góðum gáfum í víðri merkingu, elskuleg við menn og málleysingja. Eitt af frumskilyrðum þess að ná góðum þroska er sjálfsagt að gera skarpan greinarmun á réttu og röngu, góðu og illu. Þetta kunni Ingunn og lætur því að líkum að hún hafi haft áhrif á dótturson sinn til hins betra. Víst er að ekki hlotnast öllum annað eins tækifæri til þroska.

Ingunn starfaði lengi í Dýraverndunarfélagi Íslands og skrifaði bók um það hugðarefni sitt: Menn og dýr, nokkur erindi.

Upp úr fardögum árið 1920 hittumst við Sonni. Þá kom ég sunnan af Vatnsleysuströnd og fór að heita má beint inn á Innri Kirkjusand. Þegar ég kom í fyrsta sinn að Bjarmalandi til að kaupa mjólk afgreiddi mig ung stúlka, ein af tveimur eða þremur vinnukonum. Úr eldhúsinu sá ég inn í opna stofu. Þar sat húsfreyjan og var í kjól sem minnti mig sveitastrákinn á drottningarskrúða.

Þegar vinnukonan var að hella í þriggja pela flöskuna mína kom húsfreyja fram, heilsaði mér og bað stúlkuna að gefa drengnum glas af mjólk. Það var ekki í síðasta sinn sem ég þáði mjólkursopa á Bjarmalandi.

Ég nam staðar fyrir útidyrum. Hvílíkar útidyr. Aðrar eins hafði ég aldrei séð. Gluggi var fyrir ofan þær og til beggja handa að mig minnir, alsettur marglitu rúðugleri. Sonni sat á tröppunum og ég settist hjá honum. Einhvern veginn bar það á góma að amma mín væri langt í burtu og ég myndi ekki eftir að hafa séð hana. Aðrar kringumstæður mínar milduðu heldur ekki þetta afleita ömmuleysi og samúð hans var ósvikin og innileg. Ytri einkenni sönnuðu það. Svo leystist dapurleikinn upp í gáska þegar við hlupum út á tún og fórum að stríða gæsunum sem áttu sér hús við lækinn. Það ævintýri fór þó á annan veg en til var ætlast því gæsirnar hófu gagnsókn og stökktu okkur á flótta. Þá stakk Sonni upp á því að við skyldum fara upp í grútarstöð, lifrarbræðslu sem Rokstad rak, og fá okkur lýsi til þess að verða sterkir. Ég drakk, og kannski heldur of mikið. Svo það var lúpulegur pjakkur sem náði í mjólkurflöskuna á Bjarmalandströppum og skreiddist heim, fölur og fár.

Þá var ég nýbyrjaður sjötta árið en Sonni rúmu hálfu ári yngri. Á Sandinum var auk mín Bubbi, Björn Þorgrímsson, sem nú er látinn fyrir nokkrum árum. Við þrír urðum óaðskiljanlegir leikfélagar næstu tíu árin eða svo. Eftir því sem byggð þéttist þarna innfrá urðum við fleiri. Fyrst nefni ég Jónas Halldórsson á Laugalæk, og 1928 kom þriðji strákurinn sem hafði aðsetur á Sandinum, Olgeir Þórðarson. Við vorum allir á líku reki en fimm árum yngri var Gestur í Laugarnesi, Þorgrímsson, nú einn af þekktustu myndhöggvurum Íslendinga.

Heimur okkar þarna fyrir innan Laugalæk var einstakur, byggðin strjál og bar um margt keim af sveit þó hún tilheyrði Reykjavík. Nyrst var Laugarnes og niðri á Laugarnestöngum Holdsveikraspítalinn, þá Innri Kirkjusandur og syðst Bjarmaland. Laugalækurinn rann um Bjarmalandstúnið og handan hans var Sólbakki. Þar bjuggu foreldrar Sonna, Þóra Jóhannsdóttir og Guðmundur Sigurðsson, með yngri systur hans, Kristínu.

Bjarmaland stóð á horninu þar sem Laugarnesvegur og Laugalækur mætast, sennilega þar sem er húsið númer 74a við Laugarnesveg. Sólbakki var nokkru austar. Íbúðarhúsið á Innri Sandi stendur enn í krikanum þar sem Sæbrautin sveigir frá sjónum og tekur stefnu í norðaustur.

Umhverfið var fallegt eins og þeir geta séð sem ganga út á Laugarnestanga: Jökullinn handan flóans og Reykjavík upplýst á dimmum kvöldum. En í kyrru veðri og kulda hékk mökkur yfir borginni eins og hattur. Það var kolareykur úr hundruðum strompa.

Holdsveikraspítalinn stóð spölkorn fyrir norðan íbúðarhúsið á Innri Sandi í iðjagrænu túni. Vegurinn þaðan lá um hlaðið á Sandinum og margir sjúklingar urðu málkunnugir okkur strákunum. Og sumir meira en það. Aðrir utangarðsmenn fóru líka um hlað. Það voru vistmenn á Kleppi, karlar sem véku sér að okkur og töluðu í glettnistóni, brosmildir þar til þeir sáu feimni okkar og jafnvel ugg. Þá drógu þeir sig inn í skel og héldu leiðar sinnar.

En það voru að sjálfsögðu ekki aðeins sjúklingar sem áttu leið um hlað á Sandinum. Einkum er mér minnisstætt fólk í glæsilegum, lokuðum hestvagni sem tveir fallegir hestar drógu. Það var Þórður yfirlæknir á Kleppi og fjölskylda hans. Í gegnum gluggana á vagninum sáum við prúðbúin börn og fullorðna. Ég held það hafi verið einu skiptin sem mér fannst mórauða peysan mín upplituð og slitin og hjólbarðaskórnir nokkuð rosabullulegir.

Sonni var fæddur í Grimsby í Skotlandi. Þar voru foreldrar hans búsettir í nokkur ár en Guðmundur faðir hans var skipstjóri á ýmsum togurum í Englandi, Ameríku og á Íslandi. Hann var hið mesta karlmenni en missti heyrn og varð að láta af skipstjórn 1928 og setti þá upp hænsnabú. Svo ég setji hann í sögulegt samhengi má geta þess að í bók Vilhjálms S. Vilhjálmssonar, Í straumkastinu, er þáttur af Guðmundi. Þá tel ég að alifuglaræktandinn í bók Sig. A. Magnússonar, Undir kalstjörnu, sá sem strákunum finnst í barnaskap og hugsunarleysi kjörinn skotspónn hrekkjabragða sinna, sé enginn annar en sægarpurinn Guðmundur Sigurðsson, faðir Sonna.

Sonni var skírður Jóhann Guðmundur Ingi. En gæluávarp á enskum smádrengjum, sonny, festist við hann þarna úti í Grimsby. Um þetta leyti fluttist fjölskyldan heim og Guðmundur og Þóra keyptu hús í landi Bjarmalands. Það var við Laugalækinn og kallaðist Sólbakki. Þar var Þóra svo að segja í hlaðvarpanum hjá móður sinni og systur, Ingunni Einarsdóttur og Jóhönnu, konu Emils Rokstads.

Þegar heim til Íslands kom var gælunafnið á drengnum ekki lengi að taka á sig íslenska endingu og breytast í Sonna. Annað nafn notuðu vinir hans og kunningjar sjaldan.

Tíminn leið hratt á þessum árum. Á hverjum degi að heita má var farið í sundlaugar og oft svamlað þar til við vorum reknir upp úr. Þegar Jónas Halldórsson kom til sögunnar voru sundkennararnir, Jón og Ólafur Pálssynir, bróðursynir Þorsteins Erlingssonar skálds, ekki lengi að koma auga á hæfileika hans. Báðir urðu þeir Sonni fræknir sundkappar, Jónas árum saman sundkóngur Íslands og fremsti sundmaður landsins en Sonni fyrsti stakkasundsmeistari Íslands. Það afrek vann hann á fyrsta sjómannadegi sem haldinn var og varð síðan aftur stakkasunds- og björgunarsundsmeistari á þriðja sjómannadeginum.

Værum við strákarnir ekki að dindlast í fiskbreiðslu biðum við eftir aðfallinu. Á flóðinu var staðið á bólverkinu á Sandinum og veiddur ufsi eða koli. Einkum var mikið um fisk ef svo hittist á að hátt væri í sjó þegar hleypt var úr vaskakörunum. Þá var um að gera að krækja fljótt í marhnút og nota lifrina úr honum til beitu. Veiðin var alltaf höfð til kvöldverðar og var á Sandinum kærkomin uppbót á allan saltfiskinn sem annars var daglegur matur um hádegið. Ekki drógum við allir jafnan hlut úr sjó og þá kom það fyrir að Sonni slengdi sinni veiði í hlut þess sem minnst hafði aflað.

Emil Rokstad sjálfur, sem talaði allgóða íslensku þrátt fyrir norskan uppruna, gekkst fyrir mesta ævintýrinu á þessum árum. Hann bauð okkur með sér að Elliðavatni þar sem hann stundaði búskap og veiddi lax í net en geymdi síðan lifandi í rimlastokkum úti í vatni. Ekið var í farartæki sem við kölluðum lystikerru, opnum vagni með tveimur sætisbekkjum, sem hestur dró. Við strákarnir fengum að fara með Rokstad út að stokkunum. Enn í dag man ég áhrifin sem ég varð fyrir: Silfurhvítt vatnið í talsverðum straumi inn í rimlakassann og kvikandi laxinn í búrinu. Þá var ég veiðimaður af lífi og sál eins og hinir strákarnir og enn ekki kominn á það stig að forðast alla veiðimennsku, sjálfsagt með blóð akuryrkjumannsins í æðum.

Ég held að við höfum ekki haft nesti með okkur en eigi að síður voru það saddir og sælir strákar sem komu heim að kvöldi. Í þessari ferð, sem endranær, var Sonni lífið og sálin og Rokstad, lágvaxinn maður með yfirvararskegg, virtist búa yfir stórum skammti af þolinmæði.

Innri Kirkjusandur var fiskverkunarstöð. Þar vorum við tveir strákar innan um fjörutíu stúlkur. Þær sváfu þar og höfðu morgunverð (hafragraut) og hádegisverð (saltfisk) frían. Þær voru kjarninn í vinnuaflinu en auk þeirra unnu tugir kvenna og unglinga á fiskreitunum þegat breitt var. Að sumu leyti var líkt á komið með okkur Bubba á Sandinum og Sonna á Bjarmalandi. Hann var þar í skjóli ömmu sinnar en í raun og veru fyrir góðvild þeirra Rokstadshjóna. Þannig var líka háttað um okkur Bubba. Við fengum að vera á Sandinum fyrir góðvild verkstjórans, Bjarna Magnússonar. Undir hrjúfu yfirborði og stundum dálítið hranalegu ­ þegar önnur augabrúnin þaut upp í hársrætur en hin niður á kinn eins og á Agli Skallagrímssyni ­ bjuggu miklir mannkostir. Hann er móðurafi Ragnhildar Helgadóttur, fyrrum alþingismanns og ráðherra.

Bjarni Magnússon hætti verkstjórn einhvern tíma seint á þessu tíu ára ferli, sem ég er að kafa ofan í, og við tók Stefán Sveinsson. Hann var ljúfmenni og bætti við starfslið sitt einni móður með strák á okkar reki, Olgeir Þórðarson, sem seinna vann áratugum saman hjá Olíuverslun Íslands. Upp frá því vorum við strákarnir á Sandinum þrír.

Þegar ég lít aftur til þessara tíma fyrir sjötíu árum sýnist mér sem þeir hafi verið um margt líkir, Bjarni Magnússon og Emil Rokstad. Að sumu leyti voru þeir gæslumennn og verndarar okkar strákanna þó við gerðum okkur síður en svo grein fyrir því.

Dag einn urðum við þess varir að sjúklingum á Holdsveikraspítalanum hafði fjölgað um einn strák. Sigurður Kristófer Pétursson, sá sem skrifaði Hrynjandi íslenskrar tungu, kom dag einn og leiddi dreng sér við hönd. Sigurður var sjúklingur á spítalanum. Þetta hlýtur að hafa verið 1923 eða 1924.

Við vorum að leika okkur á spítalatúninu. Þeir námu staðar og Sigurður tók okkur tali. Hann sagði eitthvað á þá leið að þessi strákur héti Gunnar, hvort hann mætti ekki leika sér við okkur. Engin hætta væri á að við yrðum veikir af honum.

Sonni sagði hátt og skýrt já. Honum datt ekki í hug að ráðfæra sig við okkur, hvorki með orðum né augnaráði. Enda var það óþarfi. Hvorugur okkar hefði hreyft mótbárum við ákvörðun Sonna. Gunnar var tekinn í gengið og mætti til leiks í eitt eða tvö sumur. Hann glímdi við okkur og veiddi með okkur en fór ekki í laugar eða lengri leiðangra. Ég held okkur hafi aldrei tekist að umgangast hann sem jafningja. En því olli ekki sjúkleiki hans, öllu heldur málfarið. Hann var að norðan og talaði harða norðlensku sem lét okkur linmæltum Sunnlendingum spánskt í eyrum.

Svo hætti hann að koma. Ég man ekki hvort spurt var um ástæðuna en mér þykir ekki ólíklegt að veikin hafi tekið nýja stefnu. Um sama leyti dó Sigurður Kristófer Pétursson (í ágúst 1925) og hefur drengurinn þar misst mikils. Gestur Þorgrímsson segir mér að Gunnar hafi dáið ungur maður.

Ég sagði í upphafi að Sonni hafi horfið að heiman. Það kom þó ekki í veg fyrir að bæði hann og við kunningjar hans legðum oft og tíðum leið okkar þangað. Kristín systir Sonna, fjórum árum yngri en hann, galt alltaf þessa aldursmunar og þótti ekki gjaldgeng í strákaleikjum. Þóra móðir þeirra vék aldrei öðru en góðu að okkur félögunum og Guðmundur faðir hans var mildur og barngóður öðlingsmaður sem hreppti ill örlög. Mikið vildi ég nú gefa til að ég hefði haft aldur og þroska til að kynnast honum betur.

Heimur okkar Sonna og félaga er veröld sem var. Böndin sem bundu okkur saman fyrir rúmum sjötíu árum slitnuðu tíu árum síðar án þess við gerðum nokkuð til að hnýta þau á ný. Og hefði sjálfsagt ekki verið hægt. En tíu ár af ævi manns er ekki stuttur tími. Þó er hann í minningunni eins og ein andartaksstund, hlýleg og falleg.

Sjómannsblóðið úr föðurættinni sagði fljótt til sín. Nokkrum dögum eftir að Sonni fermdist fór hann til sjós, fyrst á Fossana en síðar á fiskiskip þar sem hann vann sig upp í stýrimannsstöðu. Hann tók Hið meira fiskimannapróf frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík árið 1948. Árið 1963 fluttist hann til Bandaríkjanna og dvaldist þar til æviloka. Hann öðlaðist skipstjóraréttindi og var áratugum saman ýmist stýrimaður eða skipstjóri, fyrst á fljótaskipi en síðar á olíuflutningaskipi sem sigldi á hafnir á austurströndinni.

Sonni var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Sesselja Guðmundsdóttir. Þau áttu fimm börn: Sesselju Erlu, f. 2. febr. 1938, Þóru Söndru, f. 16. des. 1941, Guðmund Sigurð, f. 31. júlí 1943, Ingva Örn, f. 1. febr. 1947, og Helgu Báru, f. 4. jan. 1953. Síðari kona hans og eftirlifandi ekkja er Guðbjörg Ágústsdóttir. Þau áttu einn son, Ágúst Kristin, f. 19. jan. 1961.

Ásamt yngsta syninum, Ágústi Kristni, eru þrjú af fyrri konu börnum Sonna búsett vestra, þau Sesselja Erla, Guðmundur Sigurður og Helga Bára. Hér heima búa þau Þóra Sandra og Ingvi Örn.

Um mánaðamótin febrúar mars sl. var Sonni lagður inn í sjúkrahús til uppskurðar. Æxli voru fjarlægð úr líkama hans en þá hafði sykursýki gengið svo nærri honum að ekkert var til bjargar. Mánuði síðar, eða 1. apríl, sofnaði hann út af.

Ösku hans hefur nú verið dreift í Atlantshafið út af austurströnd Bandaríkjanna þar sem hann sigldi skipi sínu árum saman.

Jón Dan.