25. október 2005 | Daglegt líf | 602 orð | 3 myndir

* HEILSA | Að minnsta kosti 150 sjúklingar fá netjubólgu eða heimakomu hérlendis ár hvert

Roði, hiti, bólga og verkur

— Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Jóhönnu Ingvarsdóttur join@mbl.is Netjubólga eða heimakoma á ganglimum er algengur sjúkdómur og má áætla að minnst 150 sjúklingar komi á ári hverju á Landspítala - háskólasjúkrahús vegna sýkingarinnar.
Eftir Jóhönnu Ingvarsdóttur join@mbl.is
Netjubólga eða heimakoma á ganglimum er algengur sjúkdómur og má áætla að minnst 150 sjúklingar komi á ári hverju á Landspítala - háskólasjúkrahús vegna sýkingarinnar. Árlegur kostnaður vegna þessa nemur að lágmarki sextíu milljónum króna. Umtalsverður fjöldi sjúklinga fær vægari sýkingu, sem meðhöndla má í heimahúsum.

Ýmsir áhættuþættir

Sigríður Björnsdóttir gerði rannsókn á áhættuþáttum heimakomu ásamt Ingibjörgu Hilmarsdóttur sýklafræðingi og smitsjúkdómalæknunum Magnúsi Gottfreðssyni, Önnu Þórisdóttur, Gunnari Gunnarssyni, Má Kristjánssyni og Hugrúnu Ríkarðsdóttur. Rannsóknin stóð yfir í þrjú ár og birtust niðurstöðurnar nýlega í bandaríska læknatímaritinu Clinical Infectious Diseases.

Sigríður, sem nú er að hefja sérnám í innkirtla- og efnaskiptasjúkdómum í Stokkhólmi, segir að flestar niðurstöður íslensku rannsóknarinnar hafi komið heim og saman við fyrri rannsóknir, sem sýni að helstu áhættuþættir fyrir heimakomu liggi m.a. í offitu, fyrri sögu um netjubólgu, sárum í húð, langvarandi bjúg, bláæðaaðgerðum og sveppasýkingum á fótum.

Íslensk rannsókn

Í íslensku rannsókninni voru áhættuþættir fyrir heimakomu á ganglimum sérstaklega kannaðir.

Rannsóknin tók til eitt hundrað sjúklinga, sem lögðust inn á Landspítala - háskólasjúkrahús vegna heimakomu á ganglimum, og 200 einstaklinga til samanburðar, sem lögðust inn á sjúkrahúsið vegna annarra sjúkdóma. Það sem kom mest á óvart var að sjúklingar með heimakomu höfðu mun oftar bakteríur, sem geta valdið heimakomu, í táfitjum sínum en samanburðareinstaklingar. Þetta vekur spurningar um tengslin á milli táfitjasýkinga og heimakomu, að sögn Sigríðar.

"Í heilbrigðum táfitjum finnst eðlileg húðflóra. Meinvaldandi húðsveppir úr umhverfinu, sem smitast á milli manna, og bakteríur úr eigin líkamsflóru geta tekið sér bólfestu í táfitjum og valdið þar sýkingum með staðbundnum húðeinkennum, s.s. hreistrun, kláða og jafnvel bólgu. Húðbreytingar á táfitjum eru algengt vandamál og sýndi rannsóknin að um 75% sjúklinganna og 50% samanburðareinstaklinganna voru með einhverjar húðbreytingar í táfitjum. Um helmingur þeirra reyndist hafa sveppasýkingu. Einföld sveppasýking í táfit veldur einkum hreistrun og sprungum í húð. Við aukinn hita og raka, eins og gerist þegar fólk er í lokuðum skóm í langan tíma, geta meinvaldandi bakteríur bæst í hópinn og verður þá til blönduð sýking. Sveppirnir hafa þannig veikt húðina og myndað gott umhverfi fyrir meinvaldandi bakteríur, sem fjölga sér og eiga greiðari aðgang að dýpri lögum húðar í gegnum laskaða sveppasýkta húð. Þekktur fylgikvilli er raunveruleg bakteríusýking í táfitinni með roða, hita, bólgu og verk.

Rannsóknin sýndi sterka fylgni heimakomu við meinvaldandi bakteríur í táfitjum sem bendir til að þær geti verið uppspretta sýkingarinnar. Um 50% sjúklinga höfðu bakteríurnar í táfitjum sínum en einungis 10% samanburðareinstaklinga.

Góð fóthirða

Heimakoma getur verið alvarlegur sjúkdómur, að sögn Sigríðar, og rannsóknir sýna að fólk, sem hefur einu sinni fengið sýkinguna á ganglim, er í aukinni hættu á að fá hana aftur. Mikilsvert er því að greina viðráðanlega áhættuþætti í forvarnarskyni. Lítið sem ekkert er hægt að ráða við áhættuþætti á borð við fyrri sögu um heimakomu og bláæðaaðgerðir.

Hinsvegar er hægt að upplýsa fólk um mikilvægi þess að hugsa vel um laskaða húð, sér í lagi á fótleggjum og táfitjum, til að koma í veg fyrir sýkingar. Fólk þarf að sama skapi að tileinka sér góða fóthirðu til að ekki skapist kjöraðstæður fyrir sveppi og bakteríur til að þrífast í, líkt og við hita og raka sem myndast í þröngum eða lokuðum skóm.

Hvað er heimakoma?

HEIMAKOMA er bakteríusýking í húð.

Einkenni sýkingarinnar eru hiti, eymsli, roði og bólga á sýkta svæðinu. Heimakoma getur komið fram hvar sem er á líkamanum, en sést þó oftast á ganglimum. Venjulega er hún staðbundin í húðinni en getur í sumum tilvikum breiðst út og leitt til blóðsýkingar. Vægari sýkingar má meðhöndla með sýklalyfjum um munn, en í alvarlegri tilvikum er yfirleitt þörf á innlögn á sjúkrahús með sýklalyfjagjöf í æð.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.