Valgerður Gunnarsdóttir skólameistari, Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra og Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra. Í baksýn eru Hjalti Jón Sveinsson, skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri, og Guðmundur Birkir Þorkelsson, skólameistari Framhaldsskólans á Húsavík.
Valgerður Gunnarsdóttir skólameistari, Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra og Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra. Í baksýn eru Hjalti Jón Sveinsson, skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri, og Guðmundur Birkir Þorkelsson, skólameistari Framhaldsskólans á Húsavík. — Morgunblaðið/Atli Vigfússon
Laxamýri | Margt var um manninn á Laugum í Reykjadal í gær þegar þess var minnst að áttatíu ár eru liðin frá því að skólahald hófst þar á staðnum.

Laxamýri | Margt var um manninn á Laugum í Reykjadal í gær þegar þess var minnst að áttatíu ár eru liðin frá því að skólahald hófst þar á staðnum.

Margir velunnarar skólans voru mættir til þess að hlýða á og taka þátt í veglegri dagskrá í tilefni dagsins. Mörg ávörp voru flutt og í ræðustól stigu forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra, Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra, Guðmundur Árnason ráðuneytisstjóri menntamála og Ingólfur Sigfússon forseti nemendafélagsins og margir fleiri.

Bygging skólahúss á Laugum hófst vorið 1924, en fyrsta vetrardag haustið 1925 var alþýðuskólinn settur í fyrsta sinn og varð hann strax vinsæll og vel sóttur skóli. Skólinn stóð af sér miklar breytingar í þjóðfélaginu í gegnum árin og lifði margan héraðsskólann þegar þeir voru lagðir niður hver af öðrum.

Nú hefur framhaldsskóli starfað á Laugum frá árinu 1988 og hefur hann styrkt stöðu sína á undanförnum árum sem framhaldsskóli í sveit og hefur námsframboð og umhverfi sem aðrir hafa ekki. Uppbygging mannvirkja hefur verið mikil og má þar nefna hið glæsilega íþróttahús sem hefur verið ungu fólki til mikils framdráttar. Þá má nefna ný sundlaugarmannvirki sem voru tekin í notkun sl. sumar en á Laugum er fyrsta yfirbyggða sundlaug landsins sem byggð var 1925 og búin að þjóna vel í 80 ár. Þá er í gamla skólahúsinu nýuppgert og glæsilegt bókasafn ásamt tölvuveri, auk þess sem heimavistir hafa verið endurnýjaðar og byggðar nýjar sem nýtast mjög vel til hótelhalds á sumrin.

Í tengslum við hátíðahöldin á Laugum var efnt til sýningar á munum skólans og ljósmyndum úr skólalífinu. Þá má geta þess að búið er að gefa út bók um skólahald á staðnum frá árinu 1925-1988 og voru fyrstu eintökin afhent skólameistaranum Valgerði Gunnarsdóttur og forseta Íslands.

Miklar veitingar voru í boði og gátu eldri nemendur rifjað upp góða tíma á Laugum og var ekki að sjá annað en að allir hefðu gert sér glaðan dag.