Jóhannes S. Kjarval teiknar í bíl. Mynd líklega tekin einhvern tímann um 1960.
Jóhannes S. Kjarval teiknar í bíl. Mynd líklega tekin einhvern tímann um 1960. — Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon
Bókarkafli Kjartan Sveinsson var skjalavörður við Þjóðskjalasafn Íslands í fimm áratugi.
Bókarkafli Kjartan Sveinsson var skjalavörður við Þjóðskjalasafn Íslands í fimm áratugi. Á efri árum samdi hann sagnaþætti um þá fjölmörgu sem hann þekkti: menntamenn, skáld, listamenn og skrautlega fýra sem settu svip á bæjarlífið í Reykjavík á fyrstu áratugum síðustu aldar. Kjartan lét svo um mælt þegar hann lést árið 1977 að ekki mætti birta þessar frásagnir á prenti fyrr en eftir aldamótaárið 2000. Guðmundur Andri Thorsson hefur nú búið þættina til prentunar og koma þeir út á næstu dögum undir heitinu Afbrigði og útúrdúrar.

Sumarið 1925 dvaldi Kjartan heilan mánuð á Hótel Valhöll á Þingvöllum á meðan unnið var að endurbótum á Safnahúsinu. Þar var þá mikið mannval og mátti ekki milli sjá hver var skrautlegastur í hópnum. Fremstur meðal jafningja var Jóhannes Sveinsson Kjarval, en staðarhaldarinn, Jón á Þingvöllum, var ekki síður magnaður persónuleiki.

Almannagjá seld

Þegar litið er á þau málverk sem Kjarval framleiddi á sinni starfsævi ber Þingvelli hæst af öllum stöðum þar sem hann málaði. Tvennt bar til, dásemdir Þingvallasveitar og fjallageimurinn þar í kring og annað, að Kjarval átti þar vini að mæta sem flestum fremur verður að teljast velgerðarmaður listamannsins, Jóni Guðmundssyni bónda á Brúsastöðum í Þingvallasveit, sem jafnframt var eigandi gistihússins Valhallar á Þingvöllum. Þarna átti Kjarval athvarf í allri sinni fátækt. Þarna gat hann lifað áhyggjulausu lífi, haft aðhlynningu, gott fæði og húsnæði. Eitt og aðeins eitt amaði að á Þingvöllum, ásókn ókurteisra manna. Þetta hef ég beint frá Kjarval, milliliðalaust. Hann sagðist oft vera að mála, í prýðilegu vinnuskapi, þegar drifi að hvers kyns skríl, rápandi, glápandi og masandi: "Mikið hef ég oft óskað mér þess að ég hefði skammbyssu að knalla þennan lýð niður. Á eftir tek ég saman dótið mitt og hætti, dagurinn er eyðilagður." Um skeið bjó Kjarval um sig úti í lítilli eyju út af Öxará og hafði þar tjald og átti sér klofstígvél til þess að vaða milli lands og eyjar, þangað gat lýðurinn ekki komist.

Jón veitingamaður á Þingvöllum var bóndi í húð og hár, kominn af blönduðu kyni, út af einni af átta dætrum Jóns bónda á Kópsvatni. Hún var gefin (til fjár) 17 ára, sauðríkum en lífsmæddum bónda, Bjarna í Tungufelli.

Jón á Þingvöllum, eins og hann var oftast nefndur, var afar lágur vexti, en að sama skapi þrekvaxinn og breiðleitur, en svipurinn sérstaklega góðlegur og glaðlegur. Engrar menntunar hafði Jón notið, en hann var vel greindur og ákaflega gestrisinn. Hann nærri dansaði af ánægju með vindlakassa um allan sal þegar margir gestir komu. Hann var hagsýnn en laus við auðhyggju. Hann hafði lengi danskan þjón í Valhöll sem hét Bruun. Þetta var ágætur þjónn en sá ljóður var á að hann var drykkfelldur. Jón kvartaði um það við mig hvað það væri "andans ári óþægilegt" hvað honum Bruun hætti við að deyja um helgar. "Ég vildi miklu heldur að hann dæi um miðja viku þegar minna er að gera." Þegar útlendir gestir spurðu þjónana hver þessi maður væri, og áttu við Jón, var svarið jafnan það að þetta væri hestamaðurinn.

Eitt vinarbragð gerði Kjarval Jóni Brúsa, eins og hann var stundum nefndur. Hann málaði stórt málverk af húshjallinum Valhöll með Lögberg og Almannagjá í baksýn. Jóni þótti forkunnarvænt um myndina og dáðist mikið að henni við mig, sérstaklega hvað Valhöll var rétt máluð. "Það skeikar ekki rúðu." Jón sagði mér að sér hefðu boðist 2000 krónur í myndina. "Ég bara sel hana ekki!"

Jón heimsótti mig í Þjóðskjalasafnið og bað mig að finna fyrir sig landamerki Brúsastaða. Við athugun á þessu máli fann ég mér til skelfingar að þetta kindakot ætti meginið af helgi Þingvalla um Kárastaðastíg. Á hvaða verði hefði helgi Þingvalla verið metin til kaups og sölu, ef Hæstiréttur hefði útnefnt menn í gerðardóm? En málið leystist blessunarlega með sátt og hamingju á báða bóga. Nokkrum vikum síðar hittumst við Jón að máli. Hann var himinlifandi. Hann hafði skipt við Þingvallanefnd á öllum þessum sögulega helgidómi fyrir móamýri fyrir neðan Brúsastaði sem ríkið hafði átt. "Þetta er asskotans ári gott engjastykki," sagði Jón. Hvers virði var Almannagjá eða jafnvel þetta Lögberg, þar sem varla var sauðkropp?

Beljukjötið í Valhöll

Sumargestirnir í Valhöll voru fjölmennir því veðrið var gott. Gestirnir gæddu sér á buffi með steiktum eggjum í kvöldverð og hugðust njóta lífsins eins og best yrði á kosið. En hér sannaðist sem Hallgrímur segir: "Ein nótt er ei til enda trygg." Nautakjötið fór svo herfilega í maga að það var vökunótt í Valhöll og biðröð á hótelinu á óæðri stöðum. Um morguninn kom Jón veitingamaður frá sínum Brúsastöðum, átti sér einskis ills von en fékk heldur óblíðar viðtökur. En þar sem Jón frétti þá að enginn hefði drepist tók hann þessari frétt með sinni alkunnu sálarró. Ekki eru þó í minnum höfð orðaskipti hans við aðra en tvo gestanna. Annar var Helgi Bergs, formaður Sláturfélags Reykjavíkur. Við hann sagði Jón þetta eitt:

"Ég kaupi aldrei annað en stimplað kjöt frá Sláturfélagi Reykjavíkur."

Hinn gesturinn var vinur minn Stefán Jóhann Stefánsson sem um þetta leyti var ráðherra fyrir Alþýðuflokkinn. En Stefán afgreiddi Jón með þessum orðum:

"Já, ég veit það, ég hef einu sinni orðið fyrir þessu sjálfur. Maður má vara sig að borða yfir sig þegar maður kemst í góðan mat!"

En hvað var bak við þetta allt saman, það hef ég frá fyrstu hendi. Á Gjábakka í Þingvallasveit bjó Snæbjörn bóndi sem nú á Syðri-Brú í Grímsnesi og býr þar. En á Gjábakka drapst belja hjá honum um þetta leyti. Snæbjörn vildi fá úr því skorið úr hverju kýrin hefði drepist. Hann fláði því kúna og sendi Jóni á Þingvöllum skrokkinn, að hann kæmi honum til Reykjavíkur til rannsóknar.

Á Þingvöllum var ekkert íshús svo kjöt var geymt niðri í gjá fyrir sunnan Valhöll og þangað lét Jón flytja beljuskrokkinn til bráðabirgða. En þarna var geymdur annar nautsskrokkur og svo illa vildi til að einn kokkurinn í Valhöll tók feil þegar hann sótti kjöt í kvöldverðinn.

Kjarval og fornmennirnir

Sumarið 1925 fékk ég að dvelja á Þingvöllum allan ágústmánuð í dýrlegu veðri. Ég hafði haustið áður ráðist í þjónustu Þjóðskjalasafnsins og nú átti að leggja marmara á anddyri og allan stiga Safnahússins svo söfnunum var lokað í mánuð og allar innihurðir voru teknar af hjörum. Þá varð vini mínum Árna Pálssyni að orði: "Opið hurðarlaust helvíti!"

Ég hitti vin min, Jón Jónsson listmálara og húsamálara, bróður Ásgríms, en hjá honum hafði ég unnið einn sumartíma. Jón tók til máls: "Værir þú ekki orðinn embættismaður skyldi ég taka þig með mér austur á Þingvöll til að mála Valhöll upp á fullt kaup og allt frítt."

Ég svaraði aðeins: "Ég á frí í mánuð og ég er altilbúinn."

Um nónbilið lögðum við á stað í leigubíl. Spánaröldin var runnin upp og við útbjuggum okkur með margar flöskur í nestið. Það var fagurt að líta austuryfir. "Það roðar á Þingvallafjöllin fríð." Það var logn og sólskin og vatnið var eins og skyggður spegill. Bílstjórafjandinn gat varla drattast áfram fyrr en við Jón tókum það ráð að hella svolítið í hann. Eftir það fannst honum vegurinn miklu betri.

Hótel Valhöll stóð á sínum upphaflega grunni á hraunbreiðunni handan vegar í suðaustur frá Öxarárfossi og auk þess fylgdi sérstakur svefnskáli eða kálfur. Þarna var sannarlega gott að vera og ógleymanlegur félagsskapur. Þarna var dr. Wedepohl, hinn kunni þýski mannamyndamálari, virðulegur og elskulegur gráskeggur sem ég hafði áður kynnst í Reykjavík. Þarna var Karl Küchler prófessor sem þýtt hafði Gest Pálsson á þýsku, hann var tjúguskeggur margfróður um fyrri tíma hér á landi, enda oft komið til Íslands. Síst má gleyma vini okkar Jóns, Jóni Pálssyni skáldi og tónskáldi frá Hlíð undir Eyjafjöllum. Hann var í þjónustu Jóns Brúsa, allra gagn og almenningur á hótelinu, og auk þess reri hann á skektu út um allt Þingvallavatn og lagði silungalóðir og aflaði fyrir gistihúsið. Hann sýndi mér kort af Þingvallavatni þar sem hann hafði skráð öll bestu mið í vatninu. Nú er það löngu glatað. Og þarna var sjálfur Kjarval, fertugur að aldri, fullur af lífskrafti og starfsorku og á hátindi sinnar listar.

Þegar allri vinnu var lokið og ágústhúmið lagðist yfir Þingvallasveitina var oft sannarlega glatt í híbýlum okkar Jóns málara þegar allir þessir góðu menn voru þar saman komnir og Ólafur yfirþjónn í Valhöll var jafnan greiðugur að skjóta að okkur einum og einum Spánar-hnalli.

Kjarval vann eins og berserkur og þessa daga hafði hann aðsetur í sinni eyju. Eitt kvöld kom hann til okkar eftir heiðan og fagran dag, bæði þreyttur og glaður. Hann sagði: "Ég var kominn til vinnu kl. 5 í morgun út í hraun og ég málaði stórt málverk af austurfjöllunum og ég málaði þarna í dag fimm málverk af sama mótívinu, öll stór og öll góð." Þetta var í eina skiptið sem ég heyrði Kjarval hrósa eigin verkum. Þessi fimm málverk hafa að sjálfsögðu verið ólík hvert öðru því á hverjum þrem tímum hefur birtan verið búin að taka breytingum.

Ég sat um kvöld einn með Kjarval. Hann sagði mér frá viðburði sem hann kvaðst aldrei gleyma. "Ég hafði málað um daginn suður með vatni, suður undir Hestagjá. Ég tók saman dótið mitt og settist í brekkuna fyrir ofan vatnið. Ég ætlaði að hvíla mig þarna um stund áður en ég færi heim. Allt í einu sá ég hóp ríðandi manna koma sunnan með vatninu í áttina til mín. Þetta voru tíu menn, allir í litklæðum. Þeir riðu fet fyrir fet, nálguðust mig og riðu framhjá, án þess að veita mér nokkra athygli. Ég horfði forundrandi á þessa glæsilegu fylkingu, svo hvarf hún norður með vatninu inn í kvöldhúmið. Þetta voru fornmenn."

"Kjarval," spurði ég, "varst þú ekki orðinn lúinn eftir vinnu dagsins? Getur ekki verið að þér hafi liðið í brjóst og þetta hafi verið glæsilegur draumur?"

"Nei," svaraði Kjarval með áherslu, "ég var glaðvakandi."

Ég geri tæplega ráð fyrir að Kjarval hafi vitað að einmitt þarna meðfram vatnsbakkanum lá öldum saman þjóðbrautin úr suðursveitum norður til Þingvalla. En hitt veit ég, af bréfi sóknarprestsins á Þingvöllum til stiftamtmanns, að þarna og víðar í kring varð jarðvegsbylting í jarðskjálftunum miklu árið 1785, þar sem botn vatnsins ýmist lækkaði eða hækkaði um þrjú fet eða meir. Þetta bréf liggur í Þjóðskjalasafni. Auk þess varð geysimikið grjóthrun úr Almannagjá. Við áðurnefnt jarðrask hefur hinn forni reiðvegur færst í kaf.

Ingimundur fiðla

Um eina helgi í þessum mánuði bar gest að garði á Þingvöllum. Það var Ingimundur Sveinsson fiðluleikari, bróðir Kjarvals. Ingimundur var svo ég heyrði spurður þessarar spurningar: "Ertu einhleypur?" "Nei," svaraði Ingimundur, "ég er tvíhleypur." Hann var nefnilega með Sigríði fylgikonu sína og grip sem hann aldrei skildi við sig, fiðluna. Ingimundur var að mörgu leyti glæsilegur maður, jafnhár og Kjarval en fríðari. Ingimundur spilaði þarna allan sunnudaginn fyrir allan þann lýð sem þarna var saman kominn og nokkrir létu aura af hendi rakna. Þarna heyrði ég mörg lög eftir listamanninn, m.a. "Kona í barnsnauð" sem var mikið og ámátlegt tónverk, ennfremur spilaði hann symfóníuna "Ferðasaga kringum jökul" á fiðlu. Útskýrði hann efnið jafnóðum, m.a. fuglasönginn. Þannig leið dagur að kvöldi.

Er leið að nótt kulaði nokkuð á austan með svölum vindi. Ég var um það bil að sofna í herbergi mínu, klukkan langt gengin 12. Ég heyrði fiðlutóna og læddist út að glugganum; undir honum sat Ingimundur og nú spilaði hann fyrir sjálfan sig og nú spilaði hann vel. Ég sagði Kjarval síðar frá þessu atviki og hann varð hugsi. Kjarval sagði:

"Þegar ég var í Kaupmannahöfn skrifaði ég Munda bróður hvað eftir annað og ég sagði í bréfunum: Komdu og lærðu. En Mundi fór aldrei."

Ég er sannfærður um að Ingimundur hafði mikla hæfileika. Milli listar og vitleysu er oft ekki nema hársbreidd. Músík Ingimundar og málverk Kjarvals.

Guðmundur Andri Thorsson bjó Afbrigði og útúrdúra eftir Kjartan Sveinsson til prentunar. Bókin kemur út hjá Máli og menningu og er 301 bls.