10. nóvember 2005 | Innlendar fréttir | 496 orð

Sextán ár fyrir manndráp

Eftir Rúnar Pálmason runarp@mbl.is HÉRAÐSDÓMUR Reykjaness dæmdi í gær Phu Tién Nguyén í sextán ára fangelsi fyrir að verða Phong Van Vu að bana með hníf í íbúð við Hlíðarhjalla í Kópavogi þann 15.
Eftir Rúnar Pálmason runarp@mbl.is
HÉRAÐSDÓMUR Reykjaness dæmdi í gær Phu Tién Nguyén í sextán ára fangelsi fyrir að verða Phong Van Vu að bana með hníf í íbúð við Hlíðarhjalla í Kópavogi þann 15. maí í vor og fyrir að stinga mann sem reyndi að stöðva atlöguna. Einn dómari af þremur skilaði sératkvæði og vildi dæma hann í 13 ára fangelsi.

Phu var einnig dæmdur til að greiða ekkju Phong 7,2 milljónir í skaðabætur, dóttur hins látna tæplega 5 milljónir og manninum sem reyndi að stöðva árásina 500.000 krónur. Í dómnum kemur fram að vitni voru samdóma um að komið hafði til deilna milli ákærða og hins látna og að þeir hafi rifist um hvort hinum yngri, Phong, bæri að sýna hinum eldri virðingu þegar hann ávarpaði þá. Virðist sem deilt hafi verið um hvort siðareglur sem um þetta gilda í fyrrum heimalandi þeirra ættu einnig að gilda hér á landi.

Phu Tién Nguyén hélt því fram að Phong Van Vu hefði ráðist á sig inni á baðherbergi og veitt honum höfuðhögg. Hann hafi verið gripinn mikilli hræðslu sem hafi leitt til þess að hann missti stjórn á skapi sínu og því gripið til hnífsins sem hann var með í jakkavasa sínum. Hnífinn hafi hann borið á sér til að verja son sinn. Dómnum þótti þessi lýsing ósannfærandi og mótsagnakennd. Framburður mannsins sem gekk á milli þeirra beri það með sér að Phu hafi haft "harðan og einbeittan" ásetning til þess að bana Phong en vitnið greindi m.a. frá því að hann hefði séð Phu nota aðra höndina til að lyfta eða styðja Phong, sem var orðinn máttfarinn og farinn að hallast fram, og stinga hann með hnífi með hinni. Eftir talsverð átök tókst að afvopna Phu en eftir það reyndi hann aftur að ráðast að Phong og ná í önnur vopn til að halda atlögunni áfram, að sögn vitna.

Dómurinn taldi engar forsendur til að líta á verknað Phu sem neyðarvörn enda sé það skilyrði neyðarvarnar að hún sé ekki augljóslega hættulegri en árásin. Jafnvel þó Phong hefði hugsanlega ráðist að Phu með berum höndum hefði það aldrei réttlætt hina banvænu árás. Geðlæknir taldi Phu sakhæfan þó hann treysti sér ekki til að útiloka að hann hefði haft skert sakhæfi við sjálfa árásina þar sem hann kynni að hafa vankast við högg frá Phong og fengið heilahristing. Phu kannaðist þó ekki við að hafa vankast né varð hann var við einkenni heilahristings. Dómurinn taldi hann því sakhæfan.

Sveinn Sigurkarlsson og Gunnar Aðalsteinsson mynduðu meirihluta dómsins og dæmdu hann í 16 ára fangelsi.

Í sératkvæði Guðmundar L. Jóhannessonar er m.a. bent á álit geðlæknis sem segir að eftir heilahristing sem Phu hlaut í bílslysi sé hann eftir áfengisneyslu viðkvæmari fyrir hömluleysi og hvatvísi við mikið álag. Taldi dómarinn ekki rétt að útiloka að hin óeðlilegu viðbrögð Phu við aðstæðum verði að einhverju leyti rakin til þess að hann hafi áður hlotið alvarlegan heilahristing. Sigríður Friðjónsdóttir sótti málið f.h. ríkissaksóknara en Sigmundur Hannesson hrl. var til varnar.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.