15. nóvember 2005 | Viðskiptafréttir | 244 orð

OMX kaupir Libra

TM Software hefur selt rekstur dótturfélags síns, Libra ehf., til OMX Technology í Svíþjóð en móðurfélag þess, OMX, rekur kauphallirnar í Stokkhólmi, Kaupmannahöfn, Helsinki, Tallinn, Riga og Vilnius. Samningur um söluna tekur gildi hinn 1.
TM Software hefur selt rekstur dótturfélags síns, Libra ehf., til OMX Technology í Svíþjóð en móðurfélag þess, OMX, rekur kauphallirnar í Stokkhólmi, Kaupmannahöfn, Helsinki, Tallinn, Riga og Vilnius. Samningur um söluna tekur gildi hinn 1. janúar næstkomandi, að því tilskildu að ákveðin skilyrði verði uppfyllt fyrir árslok. Frá þessu segir í fréttatilkynningu frá TM Software.

Í tilkynningunni kemur fram að í samkomulagi félaganna felist að öll starfsemi Libra muni framvegis heyra undir OMX Technology, sem muni bjóða samnorrænar lausnir fyrir bakvinnslu fjármálafyrirtækja. Þá segir að Libra sé í viðskiptum við yfir 20 fjármálafyrirtæki og stofnanir á Íslandi. Fyrirtækið býður hugbúnaðarlausnir fyrir verðbréfaviðskipti, lífeyrissjóði og lánaumsýslu en þessar lausnir hafa allar verið þróaðar hér á landi. Viðskiptavinir Libra munu áfram njóta þeirrar þjónustu sem Libra hefur veitt og hafa hag af aukinni þjónustu, þróunar- og sérfræðiaðstoð og auknu vöruúrvali, að því er segir í tilkynningunni.

Formlega mun Libra ganga inn í Banks & Brokers, félag sem er að öllu leyti í eigu OMX Technology.

Haft er eftir Friðriki Sigurðssyni, forstjóra TM Software, í fréttatilkynningunni að félagið sé stolt af því að hafa þróað Libra-hugbúnaðarkerfin með þeim hætti að þau séu samkeppnisfær á alþjóðlegum markaði. "Það var erfið ákvörðun að selja rekstur og eignir Libra og segja skilið við frábært starfsfólk en ákvörðunin var tekin vegna þess einstaka tækifæris sem Libra fær til vaxtar á alþjóðlegum markaði undir stjórn virts fyrirtækis sem er þegar með afar sterka stöðu á fjármálamörkuðum á Norðurlöndum og víðar," segir hann.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.