12. maí 1993 | Þingfréttir | 773 orð

Salome Þorkelsdóttir forseti Alþingis við þinglok Þörf betra og fastara

Salome Þorkelsdóttir forseti Alþingis við þinglok Þörf betra og fastara skipulags á Alþingi SALOME Þorkelsdóttir, forseti Alþingis, segir að Alþingi verði að koma á betra skipulagi á störf Alþingis.

Salome Þorkelsdóttir forseti Alþingis við þinglok Þörf betra og fastara skipulags á Alþingi

SALOME Þorkelsdóttir, forseti Alþingis, segir að Alþingi verði að koma á betra skipulagi á störf Alþingis. Það þyrfti alls ekki að þrengja rétt alþingismanna til umræðna um mál, né heldur rétt minnihlutans til að veita ríkisstjórn eðlilegt aðhald. Þingforseti telur að markvissari umræður ættu að verða til þess að stjórnmálabaráttan á Alþingi yrði snarpari og áhugaverðari fyrir landsmenn.

Alþingi, 116. löggjafarþingi, lauk störfum og var frestað aðfaranótt síðasta sunnudags. Sökum þess að forsætisráðherra las upp forsetabréf um þingfrestunina fyrr en ætlað hafði verið var ekki mögulegt að fylgja þeirri hefð og venju að forseti Alþingis gerði þingi og þjóð grein fyrir störfum þingsins. Morgunblaðið leitaði því eftir viðtali við Salome Þorkelsdóttur forseta Alþingis.

Deilumál og sáttamál

Þingforseti var inntur eftir því hvaða mál hann teldi vera mikilsverðust af þeim sem hefðu komið til kasta þingsins. Salome Þorkelsdóttir sagði tengsl Íslendinga við Evrópu og staða landsins í breyttum heimi hefðu verið eitt meginmála þessa langa þings. EES-samningurinn og frumvörp honum tengd hafa verið eitt helsta deilumál þessa þings. Hún sagði það því fagnaðarefni að Alþingi náði því að samþykkja samhljóða ályktun um samskipti Íslands og Evrópubandalagsins. "Við höfum færst nær öðrum þjóðum. Við eigum greiðari leið til þeirra og þær eiga greiðari leið að okkur," sagði Salome Þorkelsdóttir.

Þingforseti vildi benda á að auk þeirra stórmála sem miklar deilur hefðu staðið um þá hefði þingið samþykkt lagabálka á mörgum sviðum sem sumir hverjir yrðu að teljast vera ný grundvallarlagasetning, mætti þar t.a.m. nefna ný hjúskaparlög, skaðabótalög og stjórnsýslulög og samþykkt samkeppnislög.

Erfiðleikar í atvinnulífi og ríkisbúskapnum hafa sett nokkurn svip á þingstörfin. Salome Þorkelsdóttir sagði erfiðleikana vissulega vera mikla en það væri í sjálfu sér ekkert nýtt að þessi vandamál væru viðfangsefni þings og væri margt í þeim efnum kunnuglegt.

Alþingismenn tala meira

116. löggjafarþingið er annað þingið frá því að deildarskipting var lögð niður og starfsháttum þess breytt. Fyrir ári hvatti þingforseti til þess í sinni lokaræðu að að þingsköpin yrðu skoðuð í ljósi reynslunnar. Þingforseti var inntur eftir áliti á því hvaða breytingar hún teldi að helst þyrfti að gera á starfsháttum og þá sérstaklega varðandi tilhögun og lengd umræðna?

Salome Þorkelsdóttir sagði að fyrir ári hefðu ýmsir viljað hafa lengri reynslutíma á framkvæmd nýrra þingskapa. Þingforseti sagðist sjá þess ýmis merki að þingmenn hefðu aðlagast nýjum starfsháttum. Hins vegar hefði það sýnt sig í vetur að hin mikla lenging sem varð á þingfundum, virtist fylgja nýjum starfsháttum en ekki eingöngu bundin miklum sviptingum í kjölfar kosninga.

Þingfundatíminn, síðan deildirnar voru aflagðar, væri hálfu meiri en áður var. "Raunar sá lengsti sem þekkist á Norðurlöndum," sagði forseti Alþingis. Þingforseti sagði einnig: "Mér finnst að Alþingi verði að koma betra skipulagi á störf sín." Salome Þorkelsdóttir sagði það umhugsunarefni að Alþingi væri fámennasta þing Norðurlanda, 63 þingmenn, á danska þinginu væru þingmenn 179, og 349 á því sænska. Á þessum þjóðþingum væri fundartími á bilinu 450-650 klukkustundir að hámarki. Á síðasta Alþingi hefði ræðutími verið 738 klukkustundir og 748 klukkustundir á þinginu 1991-92.

Þingskaparumræðan

Forseti Alþingis sagðist leggja mikla áherslu á það að reynt yrði að breyta ýmsu í skipulagi þingsins. "Það má segja að margt sé að verða nokkurs konar tímaskekkja, nú á þeim tímum sem við lifum. Og brýnt að ýmsir siðir sem hér hafa tíðkast verði aflagðir." Í þessu sambandi sagðist þingforseti ekki hvað síst hafa í huga hinar miklu umræður um "gæslu þingskapa" sem oftast væru um eitthvert annað málefni heldur en þingsköp. Þessum umræðum yrði að finna annan farveg. Forseti Alþingis vildi koma því sérstaklega á framfæri að betra og fastara skipulag þyrfti alls ekki að þrengja rétt alþingismanna til umræðna um mál, né heldur rétt minnihlutans til að veita ríkistjórn eðlilegt aðhald. Hún benti á að markvissari umræður ættu að verða til þess að stjórnmálabaráttan á Alþingi yrðu snarpari og áhugaverðari fyrir landsmenn.

Þingforseti benti einnig á að þingmenn hefðu oftlega undir dagskrárliðnum gæsla þingskapa kvartað eða vakið athygli á því að þeim væri erfitt að sinna nefndarstörfum og margháttuðum þingskyldum vegna lengri fundartíma heldur en gert hefði verið ráð fyrir.

Alkunna er að mikið ósamkomulag hefur verið milli þingflokka stjórnar og stjórnarandstöðu um starfið á Alþingi. Salome Þorkelsdóttir forseti sagði: "Um þetta þarf að takast samkomulag milli þingmanna, þingflokka ríkisstjórnar og stjórnarandstöðu, og slíkt samkomulag er auðvitað grundvöllur góðra starfshátta á Alþingi. Ég hvet til þess að leitað verði leiða til að ná betri sáttum. Þingstörf fara ekki skaplega fram nema sæmileg sátt ríki milli þingflokkanna um leikreglur og sanngirni ríki við afgreiðslu mála.

Morgunblaðið/Kristinn

Við þingfrestun

Salome Þorkelsdóttir í forsetastól.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.