Frá Ásgeiri og Sigurði G. Thoroddsen: "TILEFNI þess að við sendum þetta bréfkorn er frásögn í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins 27. nóvember sl., þar sem fjallað er um nýútkomna bók Guðna Th."

TILEFNI þess að við sendum þetta bréfkorn er frásögn í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins 27. nóvember sl., þar sem fjallað er um nýútkomna bók Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings byggða á dagbókum Kristjáns Eldjárns, en í Reykjavíkurbréfinu segir: "Vafalaust finnst afkomendum Gunnars Thoroddsens óþægilegt að umræður skjóti upp kollinum aftur og aftur um stjórnarmyndun hans 1980."

Hér er um mikinn misskilning að ræða hjá höfundi Reykjavíkurbréfs. Stjórnmálaferill föður okkar er veigamikill hluti af stjórnmálasögu þjóðarinnar. Allt sem skýrir og upplýsir þá sögu er okkur fagnaðarefni.

Það er hins vegar mikilvægt að fjallað sé á vitrænan hátt um upplýsingar sem fram koma, og ekki hlaupið yfir veruleika og staðreyndir til þess að komast að þeirri niðurstöðu sem fyrirfram er vænst. Í Reykjavíkurbréfinu er sagt frá samtali Gunnars Thoroddsens við Jóhannes Elíasson, sem mun hafa átt sér stað í júlí 1974 í aðdraganda stjórnarmyndunar þá. Gunnar mun hafa sagt við Jóhannes að ekki væru nema tveir möguleikar til að mynda stjórn með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki og það væri að hún yrði annaðhvort undir forsæti Ólafs Jóhannessonar eða sín ( þ.e. Gunnars). Tilraun Geirs til stjórnarmyndunar hefði ekki verið vel rekin, að því að mönnum fyndist. Síðan fjallar Reykjavíkurbréfið um ástandið í Framsóknarflokknum sem hafi verið í sárum á þessum tíma, illa hafi legið á Ólafi Jóhannessyni, og hann hafi reynt að gera Geir eins erfitt fyrir um stjórnarmyndun eins og hann mögulega gat.

Það virðist af þessu, að Gunnar hafi í einkasamtali við Jóhannes Elíasson, sem hann þekkti vel, verið að lýsa stöðunni eins og hann taldi hana vera. Og ekki virðist það hafa verið svo fjarri sanni miðað við hvernig stjórnarmyndunin þróaðist og samstarf flokkanna í stjórninni. Höfundur Reykjavíkurbréfs telur hins vegar að þarna sé kominn týndi hlekkurinn sem hann vantaði til þess að skýra allar hremmingar Sjálfstæðisflokksins næsta áratuginn.

Sagnfræðingar skoða og túlka stjórnmálasögu þessa tíma. En einhvern veginn finnst okkur þetta framlag höfundar Reykjavíkurbréfs til sagnfræðinnar heldur léttvægt.

ÁSGEIR og SIGURÐUR

G. THORODDSEN.

Frá Ásgeiri og Sigurði G. Thoroddsen