Michel Houellebecq Í nýjustu bók sinni heldur Houellebecq því fram að þótt í sjónmáli sé að vísindin geti gert okkur eilíf með erfðatækni og erfðabreytingum, þá verður það á kostnað mennskunnar í okkur.
Michel Houellebecq Í nýjustu bók sinni heldur Houellebecq því fram að þótt í sjónmáli sé að vísindin geti gert okkur eilíf með erfðatækni og erfðabreytingum, þá verður það á kostnað mennskunnar í okkur. — AP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nýjasta bók franska rithöfundarins Michels Houellebecq var gefin út fyrr í haust. Hún heitir La Possibilité d'une île og er þegar komin á markað í enskri þýðingu ( The Possibility of an Island ).

Nýjasta bók franska rithöfundarins Michels Houellebecq var gefin út fyrr í haust. Hún heitir La Possibilité d'une île og er þegar komin á markað í enskri þýðingu ( The Possibility of an Island ). Hér er bókin skoðuð í samhengi við eldri verk þessa umdeilda höfundar sem einkennast af andófi en rætur þess má finna djúpt í bókmenntahefð Frakka.

Áður en Michel Houellebecq hóf að skrifa skáldsögur, var hann lítt þekkt ljóðskáld í París, sem sá um tölvurnar í franska þinghúsinu til að eiga fyrir kvöldmatnum. Eitt sinn tók hann að sér að rita bók um Bandaríkjamanninn H.P. Lovecraft. Houellebecq hafði kynnst vísindaskáldsögum hans sem unglingur og þær höfðu haft djúpstæð áhrif á hann. Titillinn á bókinni var H.P.Lovecraft. Contre le monde, contre la vie sem þýðir "gegn heiminum, gegn lífinu". Þegar fjallað er um Houellebecq og sögur hans er freistandi að byrja á því sem hann sá hjá Lovecraft forðum og gæti verið lykillinn að þeim hugarheimi sem birtist í bókum hans.

Það er varla hægt að hugsa sér meira andóf en það að vera á móti bæði heiminum og lífinu. Ekkert annað er til en heimurinn og ekki er líklegt að annað líf taki við eftir dauðann. Heimurinn og lífið eru umgjörðin um tilveru okkar. Án þeirra værum við ekki til og því má segja að með því að beina skrifum sínum gegn heiminum og lífinu sé á vissan hátt verið að ráðast gegn sjálfum sér. Sú spurning vaknar hvort sjálfshatur mannkyns sé ekki eitt meginviðfangsefnið í skáldsögum Houellebecq. Áður en kafað verður ofan í þær er fróðlegt að draga upp mynd af tengslum bókmennta og andófs í franskri menningu síðustu alda.

Andóf og upplýsing

Staða rithöfunda hefur tekið á sig ýmsar myndir í Frakklandi frá því að prentöld hófst. Þó einkennist hún ef til vill öðru fremur af því að þeir hafa verið lagnir við að komast upp á kant við yfirvöldin. Fjöldaframleiðsla á bókum var ekki búin að vera lengi við lýði þegar skemmtilegar tröllasögur François Rabelais (1483-1553) um þá feðga Gargantúa og Pantagrúl fóru að seljast eins og heitar lummur. Úr því höfundurinn var vel inni í samræðu samtíma síns um ýmis átakamál ekki síst á sviði trúarinnar þá laumaði hann mörgu inn í sögur sínar sem geistlegum valdhöfum í Svartaskóla var miður þóknanlegt. Þurfti hann því á stundum að óttast um frelsi sitt og jafnvel líf.

Á 17. öld birtist andófið ekki síst í leikritun og eru verk Molières ágætt dæmi um það. Molière (1622-1673) varaði sig einatt á að styggja sjálfan sólkonunginn, Loðvík 14., en beindi samt sem áður spjótum sínum að hinu og þessu í samfélaginu, einkum spaugilegum löstum samborgaranna, eins og heiti leikrita hans bendir til: Aurapúkinn (L'Avare), Ímyndunarveikin (Le Malade imaginaire), o.s.frv.

Á upplýsingaöld skýrðist andófshlutverk rithöfundarins. Voltaire (1694-1778) er holdgervingur frönsku upplýsingarinnar og varð oft að flýja París og stundum Frakkland vegna þess að hann hafði skrifað eitthvað sem féll ekki í kramið hjá stjórnvöldum. Segja má að hann hafi búið til nýtt hlutverk rithöfundarins þegar hann tók að sér að verja í ræðu og riti minningu kaupmanns frá Toulouse í sunnanverðu Frakklandi. Sá hét Jean Calas og hafði verið dæmdur til dauða fyrir morð á syni sínum. Fljótlega eftir aftökuna kom í ljós að hann var saklaus og Voltaire tók að sér að knýja það fram að nafn hans yrði hreinsað. Með sigri í Calas-málinu bjó hann til hefð og hafa margir franskir rithöfundar fetað í fótspor hans og verið í forsvari fyrir andófi gegn óréttlæti af svipuðum toga. Er eitt þekktasta dæmið hin fræga blaðagrein J'accuse (Ég ákæri) þar sem Émile Zola sakaði franska herinn um að hafa vísvitandi dæmt saklausan mann af gyðingaættum, Alfred Dreyfus höfuðsmann, í ævilangt fangelsi fyrir njósnir.

Stjórnarbyltingin 1789 og eftirköst hennar átti rætur í hugmyndum upplýsingarinnar, ekki bara stjórnskipunarhugmyndum manna á borð við Montesquieu, heldur einnig þeirri miklu gagnrýni á trú og kirkjuvaldi sem svo mjög setti mark sitt á 18. öldina og óx samfara síaukinni þekkingu á náttúrunni og lögmálum hennar. Hlýðni við konung og kirkju sem þáðu vald sitt frá Guði vék fyrir sjálfstrausti hins almenna borgara sem ekki var lengur hægt að hræða með hótunum um refsingu í heiminum handan þessa heims. Eins og allir vita, tókst ekki að skapa samfélag frelsis, jafnréttis og bræðralags í byltingunni. Í nafni hennar voru framdir alls kyns glæpir, einkum undir ógnarstjórn Robespierre. Svo tók Napóleon við og lagði Evrópu undir sig með byltingarhernum. Það var ekki að furða að á menn rynnu tvær grímur og að upplýsingin lægi undir gagnrýni fyrir að hafa kallað þessi ósköp yfir Frakkland og Evrópu.

Það er á rústum keisaraveldisins, þegar sameinaðir herir Englands, Austurríkismanna, Prússa og Rússa hafa komið gömlu Bourbon-ættinni aftur til valda í Frakklandi, sem bera fer á nýju tilbrigði við andófshlutverki rithöfundarins. Það birtist hjá hinni svokölluðu rómantísku kynslóð, rithöfundum og skáldum á borð við Victor Hugo (1802-1885) eða Alfred de Vigny (1797-1863). Þeir taka sér fyrir hendur að smíða nýjar hugmyndir, nýja sýn, nýja von fyrir landa sína, um leið og þeir bylta bókmenntahefðinni. Raunar hangir þetta saman því þeir eru að búa til nýtt tungumál fyrir nýjan heim. Með verkum sínum leitast þeir við að fylla upp í tómið sem trúarbrögðin skildu eftir og sem illa gekk að troða aftur upp á Frakka þegar konungsvaldið var endurreist. Draumur þessara rithöfunda í Frakklandi var að leiða þjóð sína inn í betri heim og var stjórnmálaþátttaka skálda eins og Hugo, Vigny og Lamartine einungis ein hlið á þessari starfsemi allri. Sú þátttaka birtist til dæmis í því að Hugo fór í sjálfskipaða útlegð 1851, þegar Lúðvík Napóleon Bonaparte afnam lýðveldið sem hafði verið stofnað eftir byltinguna 1848 og endurreisti keisaradæmið sem Napóleon þriðji.

Andóf gegn meðalmennsku

Segja má um Hugo og hans jafnaldra að þeir hafi verið arftakar - en þó gagnrýnir arftakar - upplýsingarinnar og stjórnarbyltingarinnar. Það kemur annað hljóð í strokkinn með næstu kynslóð, rithöfundum og skáldum á borð vð Charles Baudelaire (1821-1867) eða Gustave Flaubert (1821-1880). Þeir ólust upp í skugga endurreists konungsvalds og íhaldssamrar borgarastéttar sem fór raunverulega með völdin í samfélaginu. Um leið urðu þeir fyrir miklum áhrifum frá rómantísku skáldunum. Byltingin 1848 kveikti vonir í brjóstum þeirra sem ungra manna en lyktir hennar ullu þeim miklum vonbrigðum. Bjartsýni rómantísku kynslóðarinnar vék fyrir svartsýni. Baudelaire yrkir um fegurð hins illa og segir hlutverk skáldskaparins að skapa veruleika handan veruleikans, sem aðeins er ætlaður örfáum innvígðum. Um leið semur hann prósaljóð sem fletta miskunnarlaust ofan af heimsku, umkomuleysi og ömurleika borgarlífsins í París.

Svipaða sögu má segja um Flaubert. Í sífelldri togstreitu milli stórbrotins rómantísks fegurðarsmekks og einkar órómantísks skilnings á smásálarskap samborgara sinna, leggur hann allt sitt traust á listina. Tilgangur skáldsins er að skapa listaverk, ekki að leiða þjóðina. Hún er á valdi meðalmennsku og viðtekinna hugmynda. Hún telur sig gáfaða og upplýsta en veit ekki hvað hún er heimsk. Gott dæmi um það er persóna Homais, apótekarans í meistaraverki Flaubert, Frú Bóvarý , sem kom út 1857. Homais er bæði meinfýsinn og heimskur, en felur það fyrir sjálfum sér og öðrum með uppgerðargóðmennsku og með ódýrri og yfirborðskenndri skynsemishyggju. Hann er fulltrúi upplýsingarinnar og lýðveldislegra sjónarmiða, og Flaubert hæðist sífellt að honum.

Það er gráglettni örlaganna að Baudelaire og Flaubert, þeir sömu og segja skilið við hugmyndina um rithöfundinn sem andlegan leiðtoga, verða hvað mest fyrir barðinu á vanþóknun yfirvalda. Frú Bóvarý þykir hneykslanleg og Flaubert er ákærður fyrir klám. Hann vinnur málið en það sama á ekki við um Baudelaire sem þarf að greiða sekt og sæta því að Blóm hins illa séu gefin út án "fordæmdu" ljóðanna sem þóttu annað hvort ósæmileg eða sýna trúnni vanvirðu. Þótt Baudelaire og Flaubert taki ekki þátt í pólitískri baráttu, er andófið sem felst í verkum þeirra margfalt áhrifaríkara því það beinist gegn því sem flestir eiga sameiginlegt: hugmyndum sem meirihlutinn telur sannar, fagurfræði sem þorri fólks aðhyllist. Því koma verk þeirra eins og sprengjur inn í menninguna og ógna viðtekinni hugsun.

Andóf sem sölubrella

Rekja má muninn á þessu tvenns konar andófi í gegnum sögu síðustu tveggja alda í Frakklandi. Annars vegar eru það höfundar sem andæfa í nafni hugsjónar. Þeir eru þá fyrst og fremst að deila á valdhafa og hafa markmið. Dæmi um slíka menn eru Émile Zola (1840-1902) og Jean-Paul Sartre (1905-1980). Hins vegar eru það þeir sem skapa verk sem eru í sjálfu sér andóf. Sumir súrrealistar fylla þennan flokk, sömuleiðis skáldsöguhöfundurinn Céline (1894-1961) og ýmsir aðrir. Það eru yfirleitt hinir síðarnefndu sem skapa mestu deilurnar.

Michel Houellebecq tilheyrir síðari hópnum. Hann hefur aldrei látið til sín taka í pólitísku andófi. Ég veit ekki til þess að hann hafi nokkurn tímann tekið þátt í undirskriftasöfnun, mótmælastöðu eða öðru slíku. Enginn veit hvort eða hvað hann kýs. Aftur á móti hafa verk hans, einkum tvær skáldsögur, vakið meiri flokkadrætti og æsing en dæmi eru um í sögu Frakklands á síðari árum.

Skáldsögurnar tvær, Öreindirnar ( Les Particules élémentaires ) sem kom út 1998, og Áform ( Plateforme ) sem kom út 2001 hafa báðar birst í íslenskri þýðingu Friðriks Rafnssonar, sú fyrri árið 2000 og sú síðari 2002. Þegar Öreindirnar kom út var Houellebecq þegar nokkuð vel þekktur í þröngum hópi bókmenntaáhugafólks en alls ekki af hinum almenna lesanda. Þetta átti eftir að breytast. Ástæðan fyrir því er fyrst og fremst hinar miklu deilur sem bækurnar ollu, en einnig klók notkun á þessum deilum af hálfu útgefanda hans til að markaðssetja höfundinn. Nú er hann án efa orðinn einn þekktasti rithöfundur Frakklands, kannski sá frægasti, en jafnframt sá umdeildasti. Segja má að hann sé holdgervingur þversagna síðnútímans þar sem hann er í senn mikill gagnrýnandi þeirrar fjöldamenningar sem einkennir hann en er um leið afsprengi hennar. Hann gengur lengra en flestir í að sýna hvernig markaðssamfélagið leysir upp flest mannleg samfélög og skilur einstaklinginn eftir einan andspænis eigin botnlausri þrá, sem markaðurinn virkjar síðan í eigin þágu.

En skilvirkni markaðssamfélagsins er svo mikil að það markaðssetur meira að segja andófið gegn sjálfu sér. Í þessu tilfelli notfærir útgefandinn sér þá löngu frönsku hefð fyrir hneyksli í kringum andófsmenn á borð við Houellebecq til að draga athygli lesenda að honum. Sú réttmæta spurning vaknar hvort mikið sé eftir af andófinu ef það er orðið að sölubrellu. Svar mitt er játandi því andófið í bókum Houellebecq ristir mjög djúpt. Að einhverju leyti gerist það af þeirri einföldu ástæðu að hann er svo snjall rithöfundur. Honum tekst afar vel að fanga hug lesenda sinna með lipurri setningagerð, óvæntu sjónarhorni og kaldrifjuðum húmor. Einnig er hann laginn við að tengja saman hið almenna, einkum upplýsingar úr heimi vísindanna, bæði raunvísinda og félagsvísinda, og hið einstaka, þ.e. athafnir og örlög persónanna í bókum hans. Loks leikur hann sér að því að spá fyrir um þróun mannkyns í nálægri og fjarlægri framtíð og hittir stundum býsna vel í mark, t.d. í Áformum þegar árás íslamskra öfgamanna bindur endi á kynlífsferðamannaparadís í Taílandi, en bókin kom út rétt fyrir árásirnar á tvíburaturnana í New York í september 2001.

Andóf og mótsagnakenndar þrár

Nýjasta bók Houellebecq var gefin út fyrr í haust. Hún heitir La Possibilité d'une île og er þegar komin á markað í enskri þýðingu ( The Possibility of an Island ). Samfélagsmyndin er nokkuð svipuð og í hinum bókunum. Hér er aðalpersónan uppistandari á fimmtugsaldri. Honum hefur tekist að slá í gegn með því að vera einkar ögrandi og fær því það orð á sig að vera beittur þjóðfélagsgagnrýnandi. Hann uppsker frægð og ríkidæmi en samfélagið breytist ekki, a.m.k. ekki til batnaðar. Hann kynnist ástinni tvisvar, fyrst með konu á svipuðum aldri og hann, en ástin slokknar um leið og æskuljóminn dvín hjá henni. Miðaldra fellur hann fyrir spænskri þokkadís sem veitir honum mikinn kynferðisunað um skeið en yfirgefur hann þegar henni býðst að leika í amerískri kvikmynd, enda er hann of gamall fyrir hana. Upp frá því kynnist hann sértrúarhópi sem boðar eilíft líf með klónun og afritun persónuleikans í nýjan líkama og fylgist með því hvernig trú þeirra leggur heiminn undir sig.

Í nýju bókinni beitir höfundur sams konar brögðum og í Öreindunum , segir söguna úr fjarlægri framtíð. En nú útfærir hann þessa framtíð með nákvæmari - og dekkri - hætti en í fyrri skáldsögunni. Eftir u.þ.b. þúsund ár hefur heimurinn gengið í gegnum gífurlegar hamfarir, sennilega vegna umhverfisslysa. Mannkynið hefur horfið aftur til steinaldar en arftaki siðmenningarinnar er hið svokallaða "ný-mannkyn" sem hefur orðið til í gegnum klónun á einstaklingum úr fortíðinni. Þetta "ný-mannkyn" hefur verið betrumbætt og þarf ekki að nærast heldur fær orku sína í gegnum ljóstillífun. Enn fremur hefur vandi dauðleikans verið leystur með því að klóna nýtt eintak af einstaklingi þegar líkami hans fer að ganga úr sér en um leið að afrita minningar hans og persónugerð í nýja líkamann. Þannig halda sumir þeirra sem voru uppi á okkar dögum áfram að vera til eftir þúsund ár, en í breyttri mynd.

Tveir sögumenn skiptast á að hafa orðið. Annars vegar er það Daníel 1, aðalpersónan, sem segir sögu tuttugustu og fyrstu aldar mannsins sem lifir í merkingarlausum heimi og lætur stýrast af botnlausri þrá. Margt í fari hans minnir hann á Houellebecq sjálfan. Hins vegar eru það tuttugasta og fjórða og tuttugasta og fimmta klón Daníels sem uppi eru eftir u.þ.b. þúsund ár. Þeir búa í lokuðu og vel stjórnuðu umhverfi, hitta aldrei nokkurn mann en eyða stundum sínum í búddískri hugleiðslu, sem m.a. felst í því að lesa sjálfsævisögu Daníels 1 og íhuga örlög hans. Þegar Daníel 24 fer að finna fyrir ellinni er honum eytt og nýtt eintak tekur við, Daníel 25.

Sagan er borin uppi af andstæðunum milli lífa Daníelanna. "Ný-maðurinn" er laus við það sem hrjáði hinn gamla, þ.e. óþrjótandi löngun eftir kynferðislegri nautn samfara nagandi kvíða vegna hrörnunar líkamans og fyrir endalokum lífsins. Daníel 1 er aftur á móti í grundvallaratriðum ósáttur við mannlegt hlutskipti, við þá sársaukafullu mótsögn sem felst í því að vera maður og þrá. Daníel 1 andmælti lífinu og heiminum, en hélt þó í vonina um að einhvers staðar væri "möguleiki á eyju" þar sem hægt yrði að upplifa eilífan unað. En hlutskipti Daníelanna 24 og 25 er heldur ekki eftirsóknarvert, þótt búið sé að yfirvinna hrörnunina og sigra dauðann. Líf þeirra er bragðlaust og tíðindalítið vegna þess einmitt að það er ekki knúið áfram af þrá. Í þeim blundar þó einhver eftirkeimur af löngun eftir hinu spennuþrungna og dramatíska lífi forvera þeirra. Einnig þeir gæla við tilhugsunina um eyju, mögulega eyju þar sem lífið er spennandi og litríkt.

Það er í þessari mótsögn sem merking nýrrar skáldsögu Houellebecq felst og hér er freistandi að líta á hann sem hliðstæðu við þá Flaubert og Baudelaire. Eins og þeir andæfir hann ýmsum hliðum á upplýsingunni, sérstaklega draumi hennar um sjálfstæði mannsins sem þarf ekki á handanheimi að halda, heldur leitast við að skapa sér jarðneska paradís í krafti þekkingar sinnar. Houellebecq bendir á mótsagnir þessa draums. Þótt í sjónmáli sé að vísindin geti gert okkur eilíf með erfðatækni og erfðabreytingum, þá verður það á kostnað mennskunnar í okkur. Við erum það sem við erum vegna þess að við fæðumst, þroskumst, eldumst og deyjum og vegna þess að við þráum að njóta þess sem þetta takmarkaða líf býður upp á. Draumurinn um "möguleika á eyju" er í raun draumur um að vera ekki manneskja. Hann er tálsýn þess sem hatar sjálfan sig og andæfir því bæði lífinu og heiminum.

Höfundur er prófessor í miðaldabókmenntum og frönsku við Háskóla Íslands.