Elín Ebba Ásmundsdóttir
Elín Ebba Ásmundsdóttir
Elín Ebba Ásmundsdóttir skrifar um Geðorðin 10: "Þeir ná langt sem þora að vera öðruvísi, þora að fara óhefðbundnar leiðir og skera sig úr fjöldanum."

GEÐORÐIN tíu eru eftirfarandi: 1. Hugsaðu jákvætt, það er léttara 2. Hlúðu að því sem þér þykir vænt um 3. Haltu áfram að læra svo lengi sem þú lifir 4. Lærðu af mistökum þínum 5. Hreyfðu þig daglega, það léttir lundina 6. Flæktu ekki líf þitt að óþörfu 7. Reyndu að skilja og hvetja aðra í kringum þig 8. Gefstu ekki upp, velgengni í lífinu er langhlaup 9. Finndu og ræktaðu hæfileika þína 10. Settu þér markmið og láttu drauma þína rætast

Geðheilbrigði er lykill velfarnaðar hjá einstaklingum og að hagvexti þjóða. Geðheilsa speglar það samfélag sem við búum í. Ungur frumkvöðull og eldhugi, Héðinn Unnsteinsson, sá þessa sýn skýrt í eigin geðveiki og setti sér markmið. Hann vildi ekki aðeins auka eigið geðheilbrigði heldur allra Íslendinga. Það dugði því ekkert minna en brjálsemi til að ná settu marki. Héðni tókst að ná saman einstaklingum hvaðanæva úr samfélaginu í lið með sér. Hann var heppinn með tímasetningu því mikilvægi geðheilbrigðis á hagvöxt og hagsæld þjóða var orðin þekkt staðreynd. Það sem byrjaði sem sýn varð að veruleika með forvarnaverkefninu Geðrækt sem Lýðheilsustöðin hýsir nú og er stýrt af Guðrúnu Guðmundsdóttur. Undirrituð átti samleið með þessum unga hugsjóna- og athafnamanni á meðgöngutíma verkefnisins, tók þátt í fæðingu þess og lagði grunninn að fyrstu uppvaxtarmánuðunum. Nú skyldi markaðssetja geðið sem eftirsóknarvert og jákvætt og komast upp úr hjólförum dulúðar, svartsýni og sjúkdómstengingar sem alltaf hafði loðað við. Fyrirmyndum sem hvöttu til dáða átti að tefla fram. Sjálfsvirðing, trú á eigin áhrifamátt og jákvæð hugsun átti að vera í forgrunni.

Umhverfis- og persónuþáttum sem vitað er að hafa áhrif á geðheilsu manna, og hægt er að hafa stjórn á, átti að setja í forgang. Almenningur átti að fá verkfæri í hendur til að efla bæði eigið geðheilbrigði og annarra. Gott sjálfstraust, streitustjórnun, aðlögunarhæfni, góður aðbúnaður, jafnrétti, jafnræði, uppbyggileg samskipti og fordómaleysi voru mikilvægir þættir sem átti að vinna með.

Leita varð í rannsóknir sem tengdust hamingju, vellíðan og velgengni en ekki einkennum og sjúkdómsgreiningum. Hvatning flestra nútímamanna tengist efnahag. Þess vegna varð að leita í fróðleik tengdum einstaklingum sem náð höfðu langt í viðskiptum, voru yfirburðastjórnendur eða einstaklingar sem áttu velgengni að fagna.

Geðorðin tíu byggjast því á þeim eiginleikum sem prýða slíkar manneskjur. Það sem upphaflega var sett fram af greinarhöfundi á tveimur glærum fyrir almenning til að taka með sér heim og rækta að loknum fyrirlestri um geðrækt varð í höndum Héðins að "Geðorðunum 10". Í samvinnu við Dóru Guðrúnu Guðmundsdóttur sem einnig vann við geðræktina voru m.a. útbúin kort, veggspjöld og bolir. Bolirnir voru hugsaðir til þess að fólk læsi geðboðskapinn á baki næsta manns þegar það væri að púla í ræktinni. Slagorðin voru lesin í útvarpi og eitt og eitt geðorð tekið til umræðu í útvarpsþætti í hverri viku. Námskeið í sambandi við hvert geðorð voru haldin fyrir almenning.

Nú hefur Lýðheilsustöð - Geðrækt tekið enn eitt skrefið. Að undanförnu hafa geðorðin birst á strætisvögnum í Reykjavík, eitt geðorð á hverjum vagni, auk þess sem birst hafa stuttir pistlar í Morgunblaðinu þar sem einstaklingar úr íslensku samfélagi hafa tekið fyrir eitt Geðorð og túlkað á sinn hátt. Síðasti pistillinn um Geðorð nr. 10 "Settu þér markmið og láttu drauma þína ræktast" birtist einmitt í Morgunblaðinu í dag. Til að boðskapur Geðorðanna 10 gleymist ekki hefur Lýðheilsustöð í samvinnu við sveitarfélögin í landinu dreift segulspjöldum ætluðum sem jólagjöf Lýðheilsustöðvar og sveitarfélaganna til heimilanna í landinu. Lýðheilsustöð leggur til segulspjöldin en hvert sveitarfélag sér um að dreifa þeim á heimilin. Þátttaka í þessu verkefni er mjög góð og aðeins örfá sveitarfélög sem sýndu því ekki áhuga.

Geðorðin 10 hafa staðist tímans tönn, lifa sjálfstæðu lífi og finna sér nýja farvegi.

Það gæti t.d. breytt stöðu og hlutdeild jaðarhópa í samfélaginu ef einstaklingar sem taka ákvarðanir um nýtingu opinbers fjármagns gætu tileinkað sér boðskap geðorðanna. Ef t.d. stjórnmálamenn stunduðu langhlaup í stað spretthlaups þegar þeir taka ákvarðanir myndi margt breytast. Þjónusta við einstaklinga með skerta starfshæfni gæti einnig breyst. Áhersla yrði lögð á að finna og rækta hæfileika og drauma fólks í stað þess að einblína á vankantana. Þeir ná langt sem þora að vera öðruvísi, þora að fara óhefðbundnar leiðir og skera sig úr fjöldanum. Þeir sem njóta velgengni ná að fylgja eigin sannfæringu og hefja sig yfir neikvæðar raddir samferðafólks síns. Heiðarleiki, áreiðanleiki og ábyrgð er næring lífsárangurs og geðræktar. Boðskapur Geðorðanna 10 fellur um sjálfan sig ef þessar undirstöður vantar. Ég óska landsmönnum góðrar geðheilsu.

Höfundur er forstöðuiðjuþjálfi geðsviðs LSH og lektor við Háskólann á Akureyri.