B yggingaverktakar Austurlands ætla að byggja þrjú sjö hæða fjölbýlishús við Kaupvang á Egilsstöðum. Reiknað er með að fyrsta fjölbýlishúsið verði tilbúið í vor.
B yggingaverktakar Austurlands ætla að byggja þrjú sjö hæða fjölbýlishús við Kaupvang á Egilsstöðum. Reiknað er með að fyrsta fjölbýlishúsið verði tilbúið í vor. — Mynd/BVA
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinunn Ásmundsdóttir steinunn@mbl.is B yggingaverktakar Austurlands (BVA) byggja nú sjöhæða fjölbýlishús á Egilsstöðum og er það hið fyrsta af þremur slíkum sem byggð verða innst í bænum, við Kaupvang.
Steinunn Ásmundsdóttir steinunn@mbl.is

B yggingaverktakar Austurlands (BVA) byggja nú sjöhæða fjölbýlishús á Egilsstöðum og er það hið fyrsta af þremur slíkum sem byggð verða innst í bænum, við Kaupvang. Reiknað er með að fyrsta fjölbýlishúsið verði tilbúið í mars eða apríl á næsta ári. Skv. aðalskipulagi er gert ráð fyrir að íbúðarbyggð rísi sunnan og suðvestan af svæðinu þar sem blokkirnar munu standa á næstu árum.

"Húsið er á málningarstigi og við erum að byrja að innrétta," segir Haraldur Gunnarsson hjá BVA. "Þetta eru sjö hæðir og kjallari og íbúðirnar 27 talsins. Það eru 14 tveggja herbergja íbúðir, hver um 70 fermetrar og 13 þriggja herbergja íbúðir, hver um 90 fermetrar að stærð. Í kjallara verða geymslur og hjóla- og vagnageymslur á jarðhæð. Íbúðir verða bæði til leigu og sölu."

Haraldur segist hafa fundið fyrir eftirspurn og að íbúðirnar verði settar á markað strax í janúar nk.

BVA eru í heildina með 182 íbúðir í smíðum á Austurlandi, 101 á Reyðarfirði og 81 á Egilsstöðum. Íbúðirnar á Reyðarfirði verða í fjórum fjölbýlishúsum við Melgerði og er eitt þeirra ætlað eldri borgurum og verður með þjónusturými á vegum sveitarfélagsins.

Fjögur fjölbýli á Reyðarfirði

"Við erum einnig að byggja á Reyðarfirði og þar fylltist blokkin hjá okkur strax, bæði í sölu og leigu," segir Haraldur. "Sú blokk er með 26 íbúðum, tveggja, þriggja og fjögurra herbergja og hún er frágengin og nú erum við að ljúka uppsteypu svokallaðrar Heldrimannablokkar þar við hliðina. Við byrjuðum að stilla undir þakplötuna þar á föstudaginn var. Ef tíðin verður áfram svona góð ljúkum við við að glerja það fyrir jól. Húsið er til afhendingar upp úr miðju næsta ári. Þar er þjónusturými sem bæjarfélagið kemur að og í húsinu er búið að selja nú þegar tíu eða ellefu íbúðir af tuttugu og þremur. Þá erum við komnir í sökkla á þriðju blokkinni á Reyðarfirði. Íbúðirnar í henni verða til sölu eða leigu eftir því hvað markaðurinn vill. Þetta hefur gengið gríðarlega vel hjá okkur í vetur og það er ekki síst veðurfari að þakka. Við hófum að reisa blokkina á Reyðarfirði í september og ljúkum því fyrir jól, sem telst nokkuð gott."

Til stendur að BVA byggi alls þrjú fjölbýlishús á Egilsstöðum og segir Haraldur búið að reisa kjallara á blokk nr. tvö þar. "Uppsteypa hefst næsta sumar þegar við erum búnir með blokkina á Reyðarfirði. Blokk tvö á Egilsstöðum verður eins og sú fyrsta, en númer þjú verður hins vegar með þriggja og fjögurra herbergja íbúðum." Haraldur segir ekki búið að tímasetja byggingu þess húss og muni eftirspurn hafa þar nokkuð að segja.

Mest eftirspurn 2006-2007

"BVA er að byggja sjö blokkir í heildina og er að ráða í hvað markaðurinn tekur við hverju sinni. Það er engum til framdráttar að spýta of miklu inn eða að einhver vöntun sé. Við skoðum eftir hverja og eina blokk hvernig landið liggur, en teljum okkur vita að aðalsprengjan á fasteignamarkaðnum á Austurlandi verði um mitt næsta ár og út 2007."

Byggingaverktakar Austurlands byggja húsin fyrir Fasteignafélag Austurlands á Egilsstöðum og Leiguíbúðir í Fjarðabyggð. Eigendur BVA auk Haraldar eru þeir Ágúst Benediktsson og Franz Jezorski. Um 50 manns vinna að byggingunum, og er talsverður hluti þeirra erlendis frá. Mennirnir eru ráðnir beint til BVA en ekki í gegnum starfsmannaleigur. Byggingarstjóri BVA er Valþór Sigþórsson húsasmíðameistari.

Áætlað er að verkefnið á Reyðarfirði kosti um 1,6 milljarða króna og fjölbýlishúsin á Egilsstöðum um 1,2 milljarða. Húsin á Reyðarfirði eru teiknuð af Úti Inni en húsin á Egilsstöðum teiknaði Kristinn Ragnarsson.