"Spennandi að gefa út efni sem manni þykir vænt um," segir Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson, skáld og útgefandi.
"Spennandi að gefa út efni sem manni þykir vænt um," segir Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson, skáld og útgefandi. — Morgunblaðið/ÞÖK
Ég held að þetta tilheyri mér og mínum skoðunum.

Ég held að þetta tilheyri mér og mínum skoðunum. Mér finnst gaman að standa í því að gefa út, maður ræður meiru sjálfur um allan útgáfu ferilinn en reyndar byrjaði ég sem höfundur hjá Fjölva útgáfunni, gaf svo út á eigin vegum, fór til annars forlags, gaf út sjálfur á ný og lenti síðan hjá enn einu forlagi," segir Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson rithöfundur og útgefandi en forlagið hans er Dimma.

Aðalsteinn Ásberg er höfundur þriggja bóka á þessu ári; ljósmynda- og ljóðabókarinnar Eyðibýli í samstarfi við Nökkva Elíasson, Romsubókarinnar í samstarfi við Höllu Sólveigu Þorgeirsdóttur myndskreyti og Ljóða sem er bók ásamt geislaplötu með lestri hans á ljóðum sínum við frumsamda tónlist Sigurðar Flosasonar. Strax skal tekið fram að Eyðibýli eru gefin út af Eddu útgáfu, hinar tvær gefur Dimma út.

Bækurnar þrjár lýsa Aðalsteini betur en flest annað. Þær sýna fjölhæfni hans sem höfundar og einnig sífelldri leit að nýjum formum og löngun hans til að starfa með öðrum, og þarna eru samstarfsmenn hans úr þremur listgreinum, ljósmyndun, tónlist og myndlist.

"Tónlistarútgáfan hefur aðeins verið að breiða úr sér og núna ákvað ég reyndar í fyrsta skipti að fylgja bókaútgáfunni eftir alla leið með því að dreifa sjálfur í verslanir og skynja markaðinn. Mér finnst þetta mjög skemmtilegt og á þessum tímapunkti er ég ágætlega bjartsýnn. Auðvitað hefur lítill útgefandi stundum minni möguleika á kynningum og auglýsingum en mér finnst það ekkert endilega vera galli. Mitt markmið er ekki að selja allt fyrir jólin heldur gefa út verk sem seljast jafnt og þétt og þannig hefur það verið með mínar útgáfur. Þær seljast kannski ekkert grimmt fyrir jólin en smátt og smátt gengur þetta upp.

Þetta er langtímaefni og mér finnst það spennandi að gefa út efni sem manni þykir vænt um og er ekki bara einnota fyrir þessi jól. Ég hef til hneigingu til að treysta því að verkin sem ég gef út muni standa undir sér.

Ég er t.d. núna með eldri útgáfur sem eru að skila hagnaði og svo er engin yfirbygging á fyrirtækinu, ég er eini fasti starfsmaðurinn."

Dimma hefur einnig gefið út hljóðbækur, þar sem höfundar lesa inn barna- og unglingabækur á hljómdiska. Aðalsteinn brosir og segir að sér finnist hreinlega gaman að vera útá kantinum í útgáfubransanum en hljóðbækurnar njóti þó vaxandi vinsælda. "Aðrir útgefendur hafa sýnt hljóðbókaútgáfu furðu lítinn áhuga en mér finnst þetta eiginlega jafn sjálfsögð útgáfa og prentútgáfa. Hljóðbækurnar henta t.d. börnum mjög vel. Ég geng út frá því að höfundur lesi sjálfur verk sitt og það bætir oft skemmtilegri vídd við það."

Frumsamin tónlist við úrvalsljóð

Af öðrum toga en þó á hljómdiski ásamt bók er metnaðarfull útgáfa á lestri skálds á úrvali ljóða sinna við frumsamda tónlist. Í fyrra komu út tveir titlar, Ljóð eftir Gyrði Elíasson ásamt lestri hans og tónlist Kristins Árnasonar gítarleikara og Ljóð eftir Ingibjörgu Haraldsdóttur ásamt lestri hennar og tónlist Tómasar R. Einarssonar. Nýkominn er út Ljóð Aðalsteins Ásbergs ásamt lestri hans og tónlist Sigurðar Flosasonar.

"Þetta gengur eiginlega útá það að velja saman ljóðskáldið og tónskáldið. Ljóðin eru valin úr áður útgefnum verkum skáldanna, en tónskáldið nýsemur og leikur tónlistina á sitt hljóðfæri. Ég á eftir að sjá hvernig ég held áfram með þessa útgáfu en þau "pör" sem hér eru nefnd þekktust ágætlega." Þetta er sannarlega útgáfa sem leynir á sér. Bók í litlu broti ásamt geisladiski lætur ekki mikið yfir sér en á bakvið liggur mikil vinna og mikið listfengi.

"Ég hef vandað mjög mikið til vinnslunnar á þessu og upplagið er lítið, þannig að hvert eintak er dýrt í framleiðslu. Ég hugsa þetta sem safn og með hverjum diski verður þetta vonandi æ eigulegra."

Aðalsteinn segir að tónlistarútgáfan sé í rauninni það sem Dimma hafi hafið starfsemi sína á. "Það var hinn upphaflegi tilgangur okkar Önnu Pálínu konu minnar þegar við settum útgáfuna á stofn." Hann dregur fram fimm diska sem Dimma gefur út á þessu ári, þar af þrjár jassplötur, Gunnars Gunnarssonar, Sigurðar Flosasonar og Kristjönu Stefánsdóttur & Agnars Más Magnússonar. Endurútgáfurnar eru sálmajass og löngu ófáanleg sálmaplata með Önnu Pálínu.

"Ég hef alltaf verið mjög veikur fyrir jasstónlist þó vísna- og þjóðlagatónlistin hafi verið sú grein sem ég hef lagt mesta rækt við sjálfur." Jasstónlistarmennirnir sem Aðalsteinn gefur út eru í hópi þeirra bestu og þekktustu og aðspurður um ástæðu þess að þeir kjósi Dimmu sem útgefanda segir hann að þeir verði nú að svara því sjálfir. "En ætli það sé ekki sama ástæð an og ég nefndi áðan, að þeir telji sig hafa meira að segja um allan útgáfu ferilinn."

Fyrr á þessu ári kom út bókin Eyðibýli með ljóðum Aðalsteins og ljósmyndum Nökkva Elíassonar.

"Þessi bók dróst í útgáfu um nokkurra mánaða skeið og ég var að vinna að þessu verkefni í ein þrjú ár með Nökkva. Kveikjan að bókinni eru myndirnar hans sem ég sá á sýningu sem hann hélt og höfðu þessi áhrif á mig. Ég þekkti Nökkva ekkert þá en við Gyrðir bróðir hans eru hinsvegar vel kunnugir. Ég hafði orð á því við Gyrði að mér þættu þetta frábærar myndir og hvort þeim bræðrum hefði ekki dottið í hug að leiða saman hesta sína í ljóðum og myndum. Gyrði sagði það hentaði þeim hreint ekki en að ég ætti endilega að hafa samband við Nökkva sem ég gerði og í framhaldinu ákváðum við að vinna saman að þessari bók sem kom loksins út síðastliðið vor, bæði í íslenskri og enskri útgáfu. Þetta var mjög skemmtilegt verkefni og myndirnar og ljóðin bera í sér mikinn söknuð og trega. Þetta er efni sem mér hefur verið hugleikið mjög lengi og þarna fékk ég loksins tækfæri til að leyfa því að blómstra. Ég held að vinnan við þessa bók hafi beint mér aftur inn á braut ljóðsins en undanfarinn áratug hef ég aðallega skrifað skáldsögur fyrir börn og unglinga. Þetta varð til þess að sameina þetta tvennt á þann hátt að ég fór að semja barnaljóð og afrakstur þess er Romsubókin sem við Halla Sólveig myndlistarmaður unnum síðan saman."

Aðalsteinn lýsir aðdragandanum að barnaljóðabókinni sem löngum og með ýmsum útúrdúrum. "Þegar við Anna Pálína vorum að vinna að barnatónlistinni okkar velti ég fyrir mér ýmsum möguleikum í ljóðagerðinni og á plötunni Bullutröll flutti ég eitt kvæði með áhrifshljóðum. Þannig birtist fyrsta romsan mín og þá langaði mig strax til að gera þessu formi betri skil á bók."

Aðalsteinn segist yfirleitt ekki semja barnaefni með börnin ein í huga. "Ég prófa það bæði á börnum og fullorðnum og hef fengið þau viðbrögð frá fólki að það hafi sérstaka ánægju af að lesa romsurnar mínar með börnunum. Það þykir mér mjög vænt um að heyra og tel til marks um að bókin eigi erindi til bæði stórra og smárra."