Ásgeir Tómasson
Ásgeir Tómasson
Upprifjun á lífi og starfi Rúnars Júlíussonar í sextíu ár eftir Ásgeir Tómasson. 220 bls. Bókaútgáfan Tindur - 2005.
EF einhver ber með rentu nafngiftina "Herra Rokk" er það tónlistarmaðurinn Rúnar Júlíusson. Sem unglingur, á sjöunda áratug síðustu aldar, varð hann einn vinsælasti popptónlistarmaður landsins og hann er enn að og lætur engan bilbug á sér finna. Efni bókarinnar "Herra Rokk" er upprifjun á lífi og starfi Rúnars í sextíu ár, og er um margt skemmtileg lesning, að minnsta kosti fyrir þá sem hafa áhuga á sögu dægurtónlistar á Íslandi og hafa gaman af frásögnum af litríkum karakterum, sem Rúnar vissulega er.

Ég verð að játa að í fyrstu var ég dálítið efins um þau stílbrögð höfundarins, Ásgeirs Tómassonar, að setja textann upp í eins konar viðtalsform, bæði við Rúnar sjálfan og samferðafólk hans í gegnum árin. Þegar frásögn er brotin svona upp, með tilvitnunum í marga aðila, getur það komið niður á samhenginu og frásögninni hættir til að verða yfirborðskennd. Ásgeir Tómasson sleppur þó vel frá þessum efnistökum, enda þaulvanur blaðamaður sem greinilega kann að láta frásögnina renna lipurt og áreynslulaust. Bókin byrjar að vísu dálítið þunglamalega með lýsingum á þjóðlífi og atvinnuháttum í Keflavík um og fyrir miðja síðustu öld, en um leið og söguhetjan sjálf kemur til skjalanna fer frásögnin smám saman á skrið og fer stígandi þegar á líður.

Lífið hjá Rúnari Júlíussyni snerist aðallega um fótbolta á uppvaxtarárunum og eru því gerð ágæt skil í bókinni. Rúnar var í hópi fyrstu Keflvíkinga sem hömpuðu Íslandsmeistaratitli, fyrst í 4. flokki og síðar í meistaraflokki karla. Þegar hljómsveitin Hljómar var stofnuð vantaði bassaleikara og Rúnar þótti líklegastur í hlutverkið enda "töffari" af guðs náð, án þess þó að streða við að setja sig í þær stellingar. Þannig hefur Rúnar verið allt fram á þennan dag, hógvær og lítillátur, en þó með þau sérstöku einkenni sem gera menn að "töffurum", hvort sem þeir ætla sér það eða ekki. Vitnað er í Valgerði Sverrisdóttur, þáverandi kvennaskólapíu og síðar ráðherra, en hún var mikil aðdáandi Hljóma og safnaði úrklippum og myndum af þeim í sérstaka stílabók: "Þeir voru allir sætir en maður var nú mest skotinn í Rúnari. Það er ekki hægt að neita því. Hann var aðaltöffarinn."

Töffarinn Rúni Júl. skín víða í gegn í bókinni, bæði í samtölum við hann sjálfan og í lýsingum samferðamanna hans á honum og einstökum atvikum. Með hjálp viðmælendanna rekur höfundur sig í gegnum líf og starf rokkarans og er honum yfirleitt borin vel sagan svo sem vænta mátti.

Í sérstökum viðauka er fjallað um hljómsveitina Thor's Hammer , sem var eins konar "erlend" útgáfa af Hljómum og ætluð til útflutnings, enda ólu þeir félagar þann draum í brjósti að "meika" það í útlandinu, eins og ýmsir fleiri íslenskir popptónlistarmenn hafa gert. Margt athyglisvert kemur fram í þessum viðauka, meðal annars varðandi ágreining og vonbrigði vegna kvikmyndarinnar Umbarumbamba . Um þessa kvikmynd segir Gunnar Þórðarson meðal annars: "Það er satt að myndin var stórslys og við töpuðum fullt af peningum á henni." Í þessum kafla er einnig gefið í skyn að Pétur Östlund hafi komið til greina sem trommuleikari í bresku hljómsveitinni The Animals, en misst af tækifærinu fyrir klaufaskap eða handvömm?

Í öðrum viðauka bókarinnar er Plötuskrá Rúnars Júlíussonar , og má þar glöggt sjá að kappinn hefur verið býsna afkastamikill við útgáfu á hljómplötum. Bókin er því í heild vel brúklegt heimildarit, en

hér er þó fyrst og fremst um að ræða upprifjun á lífi og starfi einhvers ástsælasta rokktónlistarmanns landsins, sem sett hefur svip sinn á samtímann í nærri hálfa öld. Sem slík stendur hún vel fyrir sínu; er skemmtileg aflestrar og skilur eftir sig þægilegar minningar um "Herra Rokk".

Sveinn Guðjónsson