[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
"VIÐ stefnum á það að sigra í okkar riðli í UEFA-keppninni og fá góða andstæðinga í 32-liða úrslitum keppninnar en fram til þessa hefur tímabilið verið með ágætum hjá okkur og skemmtilegt að fá að taka þátt í þessu verkefni," segir íslenski...

"VIÐ stefnum á það að sigra í okkar riðli í UEFA-keppninni og fá góða andstæðinga í 32-liða úrslitum keppninnar en fram til þessa hefur tímabilið verið með ágætum hjá okkur og skemmtilegt að fá að taka þátt í þessu verkefni," segir íslenski landsliðsmaðurinn Grétar Rafn Steinsson, sem leikur með hollenska liðinu AZ Alkmaar, en liðið er sem stendur í öðru sæti deildarinnar eftir 2:1 sigur um helgina gegn Hereveen en liðið er með 32 stig, þremur færra en PSV Eindhoven sem er í efsta sæti deildarinnar.

Eftir Sigurð Elvar Þórólfsson seth@mbl.is
Grétar hefur náð að vinna sér fast sæti í vörn Alkmaar sem hægri bakvörður en Louis van Gaal, hinn kunni þjálfari liðsins, keypti Grétar sl. haust frá svissneska liðinu Young Boys.

"Ég kann vel við mig í þessari stöðu, varnarhlutverkið er að sjálfsögðu mikið, enda leikum við maður á mann vörn hér í Hollandi líkt og flest önnur lið, og það má ekkert klikka þá er einhver sloppinn í gegn. Hins vegar er tek ég mikinn þátt í sóknarleiknum og á að brjótast upp kantinn ef tækifæri gefst og oft er ég bara eins og kantmaður en við leikum 4:3:3," segir Grétar en hann lék 76 leiki með ÍA í úrvalsdeildinni og skoraði í þeim 12 mörk. Hann á að baki leiki með öllum landsliðum Íslands en Grétar lék tvö tímabil með mfl. KS á Siglufirði, þar sem hann er fæddur og uppalinn, og er fylgst vel með Grétari í heimabæ hans.

Grétar sleit krossband í hné í leik með ÍA í lok júlí árið 2003 og það liðu aðeins átta mánuðir þar til hann var farinn að leika á ný með ÍA vorið 2004, en Grétar lagði mikið á sig í endurhæfingunni og fór m.a. til sérfræðinga í Hollandi í endurhæfingu.

"Ég lagði allt undir og ætlaði mér að ná því að koma sterkari til baka úr erfiðum meiðslum - í dag hugsa ég ekkert um meiðslin enda þýðir það ekkert."

Grétar kann vel við sig í Alkmaar þar sem hann hefur fjárfest í húsnæði og býr þar ásamt unnustu sinni, Eyrúnu Eyleifsdóttur (Hafsteinssonar).

Hollenskur Abramovich

"Alkmaar er um 30 mínútna akstur frá Amsterdam og er gamalgróið lið sem hefur vaxið undanfarin ár. Það er einn maður sem hefur að mestu séð um að fjármagna liðið, Dirk Scheringa, við getum kallað hann hollenska útgáfu af Roman Abramovich, eiganda Chelsea," segir Siglfirðingurinn en hann er ekki alveg með það á hreinu hvernig hollenski auðmaðurinn hefur hagnast svo mjög. "Það er góð spurning, hef ekki velt því fyrir mér en ég veit að hann á banka hér í Almaar og eflaust víðar. En hann hefur verið stuðningsmaður liðsins frá því hann var barn og þeir sem þekkja betur til hans segja að hann hafi lagt ótrúlegar upphæðir í þetta lið á undanförnum árum enda er verið að reisa nýjan heimavöll og það eru spennandi tímar framundan."

Í liði Alkmaar eru fjölmargir landsliðsmenn og segir Grétar að þrátt fyrir að flestir þeirra séu ekki mjög þekktir á Íslandi þá séu margir þeirra stór nöfn í hollenskum fjölmiðlum.

Landsliðsmenn í hverri stöðu

"Liðið er mjög ungt en ég held að það séu 11 landsliðsmenn í byrjunarliðinu, og landsliðsmenn á varamannabekknum einnig. Markvörðurinn okkar, Henk Timmer, er í landsliðinu, allir fjórir miðverðirnir í okkar liði eru einnig í hollenska landsliðinu, og tveir þeirra komast ekki í byrjunarliðið hjá okkur. Joris Mathijsen, Barry Opdam, Ron Vlaar og Tim de Cler eru allir landsliðsmenn. Fyrirliði 21-árs landsliðsins er á miðjunni hjá okkur og það eru einnig hollenskir landsliðsmenn við hlið hans, Barry van Galen og Denny Landzaat. Hægri kantmaðurinn, Adil Ramzi, er landsliðsmaður frá Marokkó, Kenneth Perez, danskur landsliðsmaður, er á þeim vinstri og framherjinn er georgískur landsliðsmaður, Shota Arveladze. Ég er að leika í stöðunni sem Jan Kromkamp skildi eftir er hann var seldur til Villareal en hann er hægri bakvörður hollenska landsliðsins. Þetta er því sterkt lið sem er skipað ungum leikmönnum að mestu og framtíðin er því björt hjá AZ Alkmaar."

Van Gaal gerir kröfur

Hinn kunni þjálfari Luis van Gaal er skipstjóri á Alkmaar-skútunni en hann hefur m.a. þjálfað Barcelona á Spáni, Ajax í Hollandi og van Gaal var einnig þjálfari hollenska landsliðsins. Grétar segir að van Gaal sé alls ekki ólíkur Ólafi Þórðarsyni, þjálfara ÍA, í skapgerð og áherslum.

"Reyndar er hann mun hærri en Ólafur og kemur ekki á æfingar á trukk eða vörubíl," segir Grétar Rafn og hlær en hann segir van Gaal vera með einföld markmið sem leikmenn liðsins fara eftir. "Það er ótrúlega margt líkt hjá þeim og sérstaklega hvernig þeir tala fyrir æfingar og leiki. van Gaal gerir miklar kröfur til sinna leikmanna og þeir sem ekki skila því eru einfaldlega ekki valdir í liðið. Svo einfalt er þetta og ég reyni því að standa í stykkinu. En fyrir utan æfingar er van Gaal mikill félagi leikmanna, hann sendir kveðju á afmælisdögum og ætli maður fái ekki jólakort frá honum, ég veit það reyndar ekki. Þjálfarinn er vinur okkar utan vallar og hugsar vel um að okkur líði vel, en þegar á æfingar og í leiki er komið ræður hann öllu og lætur alla heyra það ef þeir ekki standa sig," segir Grétar Rafn Steinsson, landsliðsmaður í knattspyrnu.