Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingaráðherra, hefur lagt fram á Alþingi stjórnarfrumvarp þess efnis, að reykingar verði bannaðar með öllu á veitinga- og skemmtistöðum frá og með 1. júní árið 2007 eða eftir eitt og hálft ár.
Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingaráðherra, hefur lagt fram á Alþingi stjórnarfrumvarp þess efnis, að reykingar verði bannaðar með öllu á veitinga- og skemmtistöðum frá og með 1. júní árið 2007 eða eftir eitt og hálft ár. Það er sérstök ástæða til að fagna þessu frumvarpi.

Allar vísindarannsóknir, sem máli skipta sýna, að óbeinar reykingar valda heilsutjóni og jafnvel dauða. Í ljósi þeirra rannsókna er auðvitað óviðunandi með öllu, að þeir sem ekki reykja verði að þola afleiðingarnar af reykingum annarra.

Tóbak er eitur. Um það verður ekki deilt. Þetta eitur leiðir til dauða fólks. Um það verður ekki deilt. Þess vegna er lagasetning sem þessi löngu tímabær.

Þar að auki verður húsnæði, sem mikið er reykt í daunillt og ónothæft þegar til lengdar lætur. Það eru hagsmunir eigenda húsnæðis, að það verði ekki verðlaust vegna reykinga. Sama á við um bíla, sem reykt er í. Þeir verða verðminni en bílar, sem aldrei hefur verið reykt í.

Það hefur mikið áunnizt í að draga úr reykingum almennt og meðal ungs fólks sérstaklega. Raunar hefur svo mikið áunnizt, að það er tilefni til að íhuga, hvort hægt er að efna til nýs átaks, sem leiðir til þess að reykingar verði í slíku lágmarki að þær teljist ekki lengur til alvarlegs heilsufarsvandamáls.

Ekki þarf annað en ferðast um önnur lönd til þess að sjá hve miklum árangri við Íslendingar höfum náð á þessu sviði, sem er okkur til sóma. Á margan hátt getum við verið öðrum þjóðum til fyrirmyndar í þessum efnum.

Frumkvæði ráðherrans og ríkisstjórnarinnar í heild er lofsvert og þess er að vænta, að Alþingi afgreiði þetta mál með afdráttarlausum hætti.