Þórhallur Heimisson
Þórhallur Heimisson
Höfundur: Þórhallur Heimisson 242 bls. Útgefandi: Salka 2005
NÝBÚUM með rætur í ýmsum menningarsvæðum heimsins fjölgar stöðugt hér á landi. Þeir hafa flutt trú sína og menningu með sér og eftir því sem þeim hefur fjölgað hafa sumir hópar þeirra myndað eins konar átthagafélög þar sem þeir geta hist, talað móðurmálið og iðkað trú sína og siði. Búddistum og kaþólikkum hefur til dæmis fjölgað mikið á undanförnum árum og sama þróun hefur átt sér stað meðal annarra trúarhópa. Þrátt fyrir mikinn menningarmun hefur þetta fólk ákveðið að setjast að á Íslandi og freista gæfunnar í þessu kalda og harðbýla landi. Auk fjölgunar hópa fólks sem aðhyllist trúarbrögð sem ekki eiga rætur innan kristninnar hafa margir kristnir hópar og kirkjudeildir einnig orðið til hér á landi á undanförnum árum. Fáar bækur hafa verið skrifaðar á íslensku um þessa hópa og engin hefur verið fáanleg sem gefur breitt yfirlit yfir marga þeirra.

Efnistök höfundar eru óhefðbundin. Í stað þess að ganga út frá hefðbundnum trúarbrögðum sem um hefur verið ritað og sem að jafnaði mynda þann stofn sem nýrri trúarhreyfingar eru sprottnar út úr, velur hann í fyrri hluta bókarinar að skoða landakortið og lýsa í stuttu máli hvaða trúarbrögð eru ríkjandi í einstökum heimshlutum.Hann veltir vöngum yfir uppruna trúarbragðanna og nefnir til sögunnar ýmsa merkismenn sem um málið hafa fjallað en sleppir þó frumkvöðlum eins og Durkheim og Tylor. Hann dregur fram ýmsa þætti sem eru sameiginlegir mörgum trúarstefnum en fjallar aðallega um mismun á ýmsum kirkjudeildum, og skýrir hugtök eins og fjölgyðistrú, algyðistrú og eingyðistrú og spyr hvort guðlaus átrúnaður sé ekki átrúnaður. Þessum hluta lýkur með útskýringu á hugtakinu einingarhyggju, "mystik" sem er að finna í mörgum trúarbrögðum.

Í seinni hluta bókarinnar er gerð grein fyrir áberandi straumum nýtrúarhreyfinga en þær eru skilgreindar sem stefnur sem orðið hafa til á undanförnum 200 árum. Þeim er skipt í fjóra flokka, þær sem eru af austrænum uppruna, þær sem rekja upphaf sitt til kristni, hafa þróast út frá íslam eða eru skilgreindar sem dulrænar hreyfingar. Bókinni lýkur á umfjöllun um allar helstu kirkjudeildir og trúfélög á Íslandi og útskýringu á ýmsum hugtökum er koma fyrir í bók Dans Browns, Da Vinci lykillinn.

Efnistök höfundar bera þess merki að efnið virðist hafa verið samið upphaflega til annarrar notkunar sem síðan hefur verið steypt saman í eina heild í þessari bók. Áhugi hans á Suður-Ameríku er greinilega mikill enda er þeim heimshluta gert hærra undir höfði en öðrum, þó að frásögnin sé áhugaverð og skemmtileg. Næstum enga umfjöllun er að finna um trúarbrögð Afríku. Varðandi útbreiðslu íslam í Afríku gætir nokkurrar ónákvæmni því að sá siður hefur náð sunnar en til Keníu, þar sem hann er veikur, en hann stendur styrkum fótum í Tansaníu sem er þar fyrir sunnan en telst einnig til Austur-Afríku (s.134). Lítið er fjallað um íslam nútímans. Það hefði verið fengur að því að fá nokkra umfjöllun um útbreiðslu hans og stöðu í Evrópu nú á tímum og Austurlöndum nær með tilliti til atburða undanfarinna missera. Nokkur orð stungu í augu við lesturinn, til dæmis orðið svertingi, sem er hlaðið kynþáttafordómum en betra hefði verið að nota einhver önnur orð, til dæmis orðið blökkumaður. Oftast hefði farið betur á að nota orðið þjóðflokkar í stað ættflokkar, og samninginn í staðinn fyrir kontraktinn (s. 168). Mér finnst að almennt beri að nota orðið bókstafstrú af varkárni því að stundum er það notað í niðrandi merkingu um trú annarra. Sums staðar hefði framsetningin orðið skýrari með notkun fleiri undirfyrirsagna, til dæmis í kaflanum "Nokkrir gúrúar." Skýringin á hugtakinu illt auga á bls. 69 er ónákvæm en illt auga er máttur sem býr í sumu fólki, án þess að það geti að því gert, og getur skaðað annað fólk með því einu að það horfi á það.

Það er metnaðarfullt viðfangsefni að ætla sér að gera grein fyrir trúarbrögðum almennt í einni lítilli bók. Höfundi hefur tekist vel með sumt en lakar með annað.Þó að bókin sé ekki fullkomin er mikill fengur að henni og hún fyllir stórt tómarúm. Hún hentar vel fyrir alla sem vilja fræðast um trúarbrögð samtímans, bæði skólanemendur á ýmsum skólastigum og almenning. Orðfæri er lipurt, pappír er góður og frágangur til fyrirmyndar. Eftirtektarvert er hve bókin er þjál í notkun.

Kjartan Jónsson