Ingibjörg Sólrún Gísladóttir
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir
Eftir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur: "... góðærið hefur ekki verið notað til að auka jöfnuð og velsæld allra í samfélaginu."
Á UNDANFÖRNUM tíu árum hefur orðið sú skaðlega þróun á Íslandi að dregið hefur í sundur með þeim sem hæstar tekjur hafa og hinum sem hafa lægstu tekjurnar. Þessi þróun vegur að grunngildum íslensks samfélags og rótgrónum hugmyndum okkar um samheldni og ábyrgð. Hugmyndum sem á hátíðarstundum eru settar í þann búning að hér eigi að búa "ein þjóð í einu landi" eða markmiðið sé að hér standi "stétt með stétt". Þessi orð koma fyrir lítið andspænis þeirri hörðu staðreynd að ójöfnuður hefur vaxið. Þetta hefur ekki gerst fyrir slysni heldur er þetta afleiðing vondrar stjórnarstefnu.

Þessi þróun hófst þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hreiðraði um sig í stjórnarráðinu. Þessi þróun er á ábyrgð þingmanna stjórnarflokkanna sem hafa samþykkt aðgerðir sem hafa leitt til aukins ójafnaðar. Og þessari þróun er ekki lokið því slíkar ákvarðanir er m.a. verið að taka á Alþingi þessa dagana með samþykkt fjárlagafrumvarpsins.

Skattastefnan

Að undanförnu hafa komið fram óhrekjanlegar staðreyndir um að aldraðir og öryrkjar hafi dregist aftur úr öðrum í lífskjörum. Ástæðan er sú að í góðærinu hefur það verið meðvituð pólitísk stefna stjórnvalda í landinu að halda aftur af hækkun lífeyrisbóta, stemma stigu við útgjaldaaukningu í félags- og heilbrigðiskerfinu og lækka skatta á háum tekjum, fyrirtækjum og fjármagni. Þessi stefna hefur komið mjög hart niður á lífeyrisþegum.

Einhverjum kann að finnast það harkalegt að tala um stefnu í þessu sambandi. Engin stjórnvöld vilji koma illa fram við þá sem hafa lítið sér til lífsviðurværis eða þurfa á aðstoð samfélagsins að halda. Þetta er út af fyrir sig rétt. Stjórnmálamenn vilja vel en pólitískur rétttrúnaður villir þeim sýn. Þannig geta ákvarðanir, sem eiga samkvæmt kenningunni að skapa meiri almenna hagsæld í samfélaginu, komið mjög illa við einstaka hópa. Og það er einmitt þetta sem hefur gerst á Íslandi á sl. áratug.

Það er stefna núverandi ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að lækka skatta vegna þess að það er talið vinnuhvetjandi og verðmætaskapandi. Sú leið sem valin var við skattalækkanir á einstaklingum var að fella niður hátekjuskatt í áföngum og lækka almennt tekjuskattshlutfall. Það segir sig auðvitað sjálft að þessi leið skilar flestum krónum til þeirra sem hæstar tekjurnar hafa.

Samhliða þessari lækkun á tekjuskattshlutfallinu hefur það svo gerst að skattleysismörkin hafa ekki haldið í við þróun launa eða verðlags. Þetta þýðir einfaldlega að skattleysismörkin hafa færst niður, fólk er að greiða skatta af stærri hluta tekna og fleiri greiða skatta en áður. Skattleysismörkin eru nú við tæplega 72 þús. kr. en ættu að vera um 86 þús. kr. ef þau hefðu fylgt neysluvísitölu.

Afleiðingar stjórnarstefnunnar

Þessi skattastefna er í þágu þeirra sem hafa góðar tekjur en hinum í óhag sem hafa litlar tekjur. Hún á sinn stóra þátt í því að ráðstöfunartekjur þess fimmtungs þjóðarinnar sem hefur hæstar tekjur hafa hækkað tvöfalt meira en ráðstöfunartekjur þess fimmtungs sem hefur lægstu tekjurnar.

Stefna ríkisstjórnarinnar kemur fram í því að um tíu þúsund ellilífeyrisþegum er nú gert að lifa af tekjum undir 110 þús. kr. á mánuði. Þeir greiða um 14% af þessum tekjum í skatt en greiddu 2-3% af samsvarandi tekjum fyrir tíu árum. Talið er að um 25-30% ellilífeyrisþegar falli í þennan hóp.

Annað dæmi: fertugur einhleypur öryrki, með engar aðrar tekjur en frá almannatryggingum, fær að hámarki 108 þúsund krónur á mánuði, greiðir af því rúmlega 12 þúsund krónur í skatt og heldur því eftir um 95 þúsund krónum. Og enn annað: Stuðningur við einstæða foreldra í hópi öryrkja í formi barnabóta og vaxtabóta hefur dregist saman frá árinu 1995. Þessi stuðningur var þá 18.9% af heildartekjum en lækkaði í 2.6% árið 2004.

Aftenging launa og lífeyris

Við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1996 ákvað ríkisstjórnin að aftengja þróun launa og bóta. Þessi eina aðgerð kom í veg fyrir að lífeyrisgreiðslur til aldraðra og öryrkja héldi í við launaþróunina í landinu. Þess vegna hafa lífeyrisþegar ekki fengið sinn réttmæta hlut í þeirri kaupmáttaraukningu sem síðan hefur orðið. Það er ótrúlegt en satt að góðærið hefur ekki verið notað til að auka jöfnuð og velsæld allra í samfélaginu. Þvert á móti hefur svigrúmið fyrir ójöfnuð verið aukið.

Í nýútkominni skýrslu Stefáns Ólafssonar prófessors um örorku og velferð á Íslandi eru birtar upplýsingar sem varpa skýru ljósi á þessa einu aðgerð. Þar kemur fram að kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann í landinu hækkaði frá 1995-2004 um ríflega 50%. Á sama tíma hækkaði kaupmáttur ráðstöfunartekna einhleypra öryrkja og öryrkja í sambúð um nærri 40% en kaupmáttur einstæðra foreldra í hópi öryrkja um nærri 30%.

Laun skerða bætur

Mikil umræða hefur verið um það að undanförnu hversu mikill fengur væri að því að fá aldraða í hlutastörf t.d. í verslunum eða leikskólum. Fáir hafa hins vegar orðið til að benda á hvað það er eftir litlu að slægjast fyrir aldraða sjálfa. Ég sá nýverið dæmi frá Landssambandi eldri borgara um einhleypan ellilífeyrisþega sem er með 50 þús. kr. greiðslu úr lífeyrissjóði og fær um 82 þús. kr. frá Tryggingastofnun. Þegar hann er búinn að greiða skatt hefur hann liðlega 110 þús. í ráðstöfunartekjur.

Það er erfitt að ná endum saman með þessar tekjur og hann langar því að auka þær. Honum býðst hálft starf fyrir 70 þús. kr. á mánuði en þegar betur er að gáð þá verður sú tekjuaukning til þess að greiðslurnar frá Tryggingastofnun lækka um liðlega 45 þúsund, skattgreiðslur aukast og þegar allt er tekið saman hefur hann liðlega 126 þúsund í ráðstöfunartekjur. Með hálfu starfi tekst honum að auka ráðstöfunartekjur sínar um 16 þúsund á mánuði! Hver vill vinna hálfan daginn upp á þau býti?

Samfylkingin

Þegar Samfylkingin mætti til þings nú í haust lagði hún megináherslu á málefni lífeyrisþega. Fyrsta mál flokksins var þingsályktun um að samið yrði um afkomutryggingu fyrir lífeyrisþega og tekin upp tenging launa og lífeyris að nýju. Lagt er til að fyrsta skrefið í afkomutryggingunni verði að hækka grunnlífeyri og fulla tekjutryggingu um 12 þús. kr. á mánuði til að raungildi lífeyrisgreiðslna verði það sama í dag og það var á árinu 1995. Þá leggjum við til að dregið verði úr þeirri skerðingu bóta sem lífeyrisþegar verða fyrir ef þeir bæta einhverju við sig í tekjum. Mjög mikilvægt er að ná þessu fram þar sem það eykur bæði svigrúm aldraðra og öryrkja til virkrar atvinnuþátttöku sem og fyrirtækja og stofnana til að fá gott fólk til starfa.

Við afgreiðslu fjárlaga hefur Samfylkingin jafnan lagt til að farin verði leið í skattamálum sem tryggir meiri jöfnuð en leið ríkisstjórnarinnar. Við viljum hækka skattleysismörkin og lækka virðisaukaskatt á matvörum úr 14% í 7%. Öll þurfum við að borða og matvöruverð er einfaldlega alltof hátt á Íslandi og íþyngjandi fyrir þá tekjulægstu.

Samfylkingin er flokkur jafnaðarstefnu á Íslandi en í því felst að flokkurinn er ábyrgur í afstöðu sinni til atvinnulífs og verðmætasköpunar en setur líka fram þá skýlausu stefnu að verðmætaaukning sé notuð til að auka velsæld allra og rétta hag þeirra sem verst eru settir. Og þar skilur á milli Samfylkingarinnar og ríkisstjórnarflokkanna.

Höfundur er formaður Samfylkingarinnar.