Slátrun á eldislaxi hefur gengið vel í ár.
Slátrun á eldislaxi hefur gengið vel í ár.
Eftir Brján Jónasson brjann@mbl.is Nýtt met í framleiðslu á eldislaxi sett í fyrra Laxeldi í sjókvíum á sér langa sögu hér á landi, en eldi hófst árið 1972 í Hvalfirði. Fyrstu löxunum var slátrað á Fáskrúðsfirði árið 1977.
Eftir Brján Jónasson brjann@mbl.is

Nýtt met í framleiðslu á eldislaxi sett í fyrra

Laxeldi í sjókvíum á sér langa sögu hér á landi, en eldi hófst árið 1972 í Hvalfirði. Fyrstu löxunum var slátrað á Fáskrúðsfirði árið 1977. Tilraunir héldu áfram, og í byrjun níunda áratugarins var framleiðslan komin í um 90 tonn. Framleiðslan jókst, og var komin í um 2.700 tonn árið 1990, og á bilinu 2-3.000 tonn frá 1996-2001. Met var sett í fyrra, þegar framleidd voru 6.620 tonn.

Útlit er fyrir að slátrun á eldislaxi verði sama og engin hjá þremur laxeldisstöðvum í meirihlutaeigu Oddeyrar, dótturfélags Samherja, árið 2007 þar sem ekki náðist að framleiða nema brot af þeim seiðum sem reiknað var með í ár. Tapið á seiðaframleiðslu er yfir 100 milljónir króna á þessu ári, og fyrirsjáanlegt tekjutap vegna skertrar slátrunar einnig verulegt.

Seiðaframleiðsla gekk betur annars staðar og er engan bilbug að heyra á samkeppnisaðilum Samherja þó gengið sé erfitt, enda heimsmarkaðsverð á eldislaxi hátt um þessar mundir.

Samherji á meirihluta í þremur laxeldisfyrirtækjum; Silfurstjörnunni í Öxarfirði, Sæsilfri í Mjóafirði, og Íslandslaxi í Grindavík og Ölvusi. Aðeins 120 þúsund seiði voru sett í sjó í ár, en reiknað hafði verið með að setja út 1,2 milljónir seiða, segir Jón Kjartan Jónsson, framkvæmdastjóri laxeldis hjá Samherja. Hann segir ástæðuna þá að stöðvarnar hafi fengið sýktan efnivið frá þriðja aðila sem hafi valdið þessu gríðarlega tjóni.

Á sama tíma og erfiðleikar í seiðaframleiðslu koma upp hefur framleiðsla á hrognum ekki gengið vel hér á landi, og hefur verið erfiðleikum bundið að kaupa hrogn til seiðaframleiðslu.

Jón Kjartan segir að nú sé talið að búið sé að komast fyrir erfiðleika sem steðjað hafa að seiðaframleiðslu, en framleiðslan verði engu að síður lítil á næsta ári, á bilinu 6-700 þúsund seiði, samanborið við 1 milljón seiði árið 2004 og 1,5 milljónir árið 2003. Því komist seiðaframleiðslan varla í eðlilegt horf fyrr en árið 2007.

Ljóst er að framleiðslutapið vegna afkomu ársins í ár verði verulegt, enda afleiðingarnar af þessu þær að svo til engum laxi verður slátrað árið 2007, og árin 2006 og 2008 verður skert framleiðsla. Framleiðsluhlé hefur ekki bein áhrif á samninga um fisksölu, enda þeir yfirleitt ekki gerðir nema einhverja mánuði fram í tímann, segir Jón Kjartan. Þó er ljóst að óstöðugleiki í rekstrinum hefur áhrif á stöðu fiskeldisstöðvanna á mörkuðum erlendis.

Ætla að slátra 2.000 tonnum á næsta ári

Sala Icelandica hf. hefur ekki lent í sömu vandræðum með seiðaframleiðslu og eldisstöðvar í eigu Samherja, og segir Gunnar Steinn Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sala Icelandica, að seiðaframleiðsla hafi gengið eins og reiknað var með í ár. Stöðin er nýleg, og hóf slátrun í fyrsta skipti í október sl.

Gunnar segir að fiskurinn sé stór og vel hafi gengið að slátra, og því verði haldið áfram eins og hægt er fram eftir ári 2006. Reiknað er með því að slátra um 2.000 tonnum á næsta ári, sem sé vel viðunandi.

Ekki er búið að taka ákvörðun um hversu mikið verður sett út af seiðum á næsta ári hjá Sala Icelandica, sett voru út um 70 þúsund seiði í ár, og trúlega svipað magn á næsta ári, samanborið við 360-380 þúsund árin 2003 og 2004. Gunnar segir að tekin hafi verið ákvörðun um að draga heldur úr í ár og trúlega næsta ár, og slá heldur í árið 2007.

Staða laxeldis veik

Jón Kjartan segist meta stöðu laxeldis hér á landi afar veika um þessar mundir. Sterk staða krónunnar hafi þar áhrif, því sjávarútvegsfyrirtæki eigi vart fé aflögu til þess að leggja í áhættusaman og fjárfrekan rekstur á borð við laxeldi. Á móti kemur að heimsmarkaðsverð á eldislaxi er vel viðunandi, þótt það hafi lækkað umtalsvert frá því það náði hámarki í sumar. Gunnar er þvert á móti bjartsýnn, og segir áætlanir fyrirtækisins hafa gengið nokkuð vel eftir, bæði í laxeldinu og þorskeldi.

Framleiðsla íslenskra laxeldisstöðva hefur aukist mikið á undanförnum árum, og á framleiðslutölum á vef Landsambands fiskeldisstöðva kemur fram að árið 2004 var metár, en þá var 6.620 tonnum af óslægðum eldislaxi slátrað hér á landi. Árið áður var 3.700 tonnum slátrað, og árið 2002 um 1.500 tonnum. Áætluð framleiðsla árið 2005 er þar sögð 5.800 tonn, sem verður trúlega nærri lagi. Má svo búast við verulegum samdrætti í framleiðslu á næstunni vegna vandræða hjá Samherja.

Megnið á markað í Evrópu

Eldislax sem framleiddur er hér á landi er nær allur seldur úr landi ferskur, yfirleitt heill en í sumum tilvikum flakaður. Eldisstöðvar Samherja selja um 90% afurða til Evrópu en innan við 10% til Bandaríkjana. Það er þó ekki algild skipting, og selur Salar Islandica um helming á Bandaríkjamarkað og afganginn á Evrópumarkað.

Óhagstætt gengi hefur því mikil áhrif á greinina, eins og aðrar útflutningsgreinar, og étur í raun upp megnið af hagnaðinum.