"Ljóðin bregða birtu á nýjan flöt," segir Eysteinn Björnsson ljóðskáld.
"Ljóðin bregða birtu á nýjan flöt," segir Eysteinn Björnsson ljóðskáld. — Morgunblaðið/Þorkell
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leitin að sjálfum sér, kjarna persónu sinnar, er eitt meginþema nýrrar ljóðabókar Eysteins Björnssonar, Logandi kveikur.
Leitin að sjálfum sér, kjarna persónu sinnar, er eitt meginþema nýrrar ljóðabókar Eysteins Björnssonar, Logandi kveikur. Fimm ár eru liðin frá síðustu ljóðabók Eysteins, Fylgdu mér slóð, en aðrar bækur hans eru Bergnuminn, skáldsaga (1989), Dagnætur, ljóð (1993), Snæljós, skáldsaga (1996), Í skugga heimsins, skáldsaga (1999), Út í blámann, barnasaga (2002).Ljóðin í Logandi kveik eru öll ort á síðustu árum, flest á tveimur undanförnum árum að sögn Eysteins.

"Sumir eru alla ævina að reyna að leysa gátuna um sjálfan sig, aðrir eyða minni tíma í slíka sjálfskoðun og líður ágætlega þannig. Sjálfur hef ég alltaf haft ríka þörf til að vita hver ég er og hvaðan ég er kominn, vita glögg deili á forfeðrum mínum og átta mig á því hvernig þetta hefur þróast. Aðrir baka bara brauð eða byggja hús. Hver finnur sína leið."

Viðfang skálda er oft maðurinn sjálfur og Eysteinn bætir við: "Ég held að maður megi ekki vera of ánægður eða fullnægður. Þá hverfur þessi þörf til að leita að einhverju betra."

Þurfa skáldin að þjást?

"Það þarf einhverja togstreitu, eitthvert ójafnvægi sem verður til þess að sálin leitar stöðugt eftir jafnvæginu. Sá sem er í jafnvægi þarf ekki að leita að því. Ég öfunda stundum slíkt fólk. En ég tel mig þó ekki hafa lært neinar þýðingarmiklar lexíur í lífinu nema í gegnum sársaukann. En þá þarf maður líka að komast í gegnum hann. Ekki festast í honum. "Ei vitkast sá er verður aldrei hryggur, hvert viskubarn á sorgarbrjóstum liggur ," orti skáldið og þessu er ég sammála. Maður skilur hlutina ekki fyllilega nema hafa lent í þeim sjálfur."

Reynslan er þó ekki alltaf viðfangsefni skáldsins heldur veitir hún aukinn skilning til að fjalla um tilfinningar eða umhverfið.

"Já, ljóðin koma til mín, það er ekki hægt að þvinga þau fram, þau bregða birtu á nýjan flöt og opna nýja vídd inn í raunveruleikann. Ég hef haft afskaplega gaman af að fást við ljóðagerð en aftur á móti alltaf fundist erfitt að skrifa skáldsögur. Það er svo erfitt að finna rétta tóninn og sjálfsgagnrýnin er minn versti óvinur við slík skrif."

Þarf ekki að berja sjálfsgagnrýnandann miskunnarlaust af sér og þagga niður í honum við skriftirnar?

"Hann er nú bara viðurstyggilegasta kvikindi sem ég þekki, þessi dómari sem situr stöðugt á öxlinni á manni og efast um það sem maður skrifar. Heldur manni í heljargreipum. The tyranny of the should er það kallað á enskunni. Mér hefur alltaf fundist efinn erfiður en hann er kannski það sem gerir okkur mannleg."

Hringur lífsins

Eysteinn gefur ljóðabókina út sjálfur undir forlagsheitinu Jökultindur og skipar sér þar með í fjölmennan flokk ljóðskálda sem gefa út sjálfir fremur en taka höfnun útgáfufyrirtækja sem ekki sjá sér hag í því að gefa út ljóðabækur.

"Ég hef verið lengi að vinna þessa ljóðabók og með því að gefa hana út sjálfur þá hef ég ráðið öllu og t.d. er ég ánægður með útlitið á þessari bók. Ég vildi hafa hana í vönduðu bandi og fallega frá henni gengið. Mér finnst gaman að þessu öllu því þetta er prentgripur um leið og innihaldið er manni hjartfólgið. Letur og uppsetning hefur allt sitt að segja um hvernig lesandinn meðtekur efnið og því skiptir það verulegu máli."

Bókin er í þremur hlutum. "Fyrsti hluti nefnist Eldur og fjallar um ástina og dauða ástarinnar. Millikaflinn heitir Kvika þar sem ljóðin eru kaldhæðnislegri og snerta erfiðleika og þjáningar sem menn verða fyrir í lífinu. Þriðji og síðasti hlutinn nefnist Kyrrur sem er eins konar sátt í bókarlok. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum er konan mín hrifnust af þeim hluta! Það er svo undir lesandanum komið hvaða hluti höfðar sterkast til hans. Og ég hef oft velt því fyrir mér að lesandinn skapar verkið að stórum hluta. Ég segi stundum að bók sem enginn hefur lesið sé í rauninni ekki til. Það vantar a.m.k. talsvert upp á að hún nái að lifa og dafna."