María Herborg Þorsteinsdóttir fæddist í Neðri Miðvík í Aðalvík 6. desember 1912. Hún lést á Sólvangi í Hafnarfirði 22. október síðastliðinn og var útför hennar gerð frá Hafnarfjarðarkirkju 4. nóvember.

Mig langar að minnast ömmu minnar, Maríu Þorsteinsdóttur, því að í dag, 6. desember hefði hún orðið 93 ára gömul.

Amma á Eyri var hún gjarnan kölluð og var það sannarlega viðeigandi því að tengsl hennar við bæinn Eyri í Skötufirði við Ísafjarðardjúp voru sterk. Við fráfall ömmu rifjast upp margar góðar minningar og þá sérstaklega frá þeim stundum sem ég og fjölskylda mín áttum með henni. Það var með ólíkindum hvað gat orðið mikið líf í kotinu þegar gamla konan var komin vestur og búið að skúra út eftir veturinn. Löngu áður en snjóa leysti á Eyri var hún orðin friðlaus og ferðbúin á meðan hún hafði heilsu. Þar ljómaði hún öll. Þegar amma var komin vestur fóru gjarnan fleiri að tygja sig, enda vissi það á líf og fjör að fara á Eyri því að margt þurfti að gera: tjarga skektuna, leggja silunganet, smíða kamar, sóthreinsa kabyssu, skjóta svartfugl og gera að sel. Amma vildi gjarnan að sitt fólk léti sjá sig og að eitthvað væri um að vera.

Ég held að margir úr fjölskyldunni eigi líka þá minningu að liggja fram á skektustefni undir áratökum, horfandi í blátæran sjóinn í von um að sjá kola eða marhnút. Þó að nánast allir bæir í firðinum væru lagstir í eyði náðum við samt mörg hver að kynnast lífinu eins og það var áður, þegar búið var á hverri eyri og á hverjum hól, því oft voru rifjaðir upp gamlir tímar.

Þau amma og afi bjuggu félagsbúi á Eyri með Guðjóni syni sínum og Jónu Jónsdóttur konu hans. Þegar búskap var hætt á Eyri fluttu þau til Þorlákshafnar þar sem þau bjuggu í húsi Sigurðar sonar þeirra. Talsvert ævintýri var að koma þangað þar sem verbúð var fyrir útgerð Sigurðar var í öðrum enda hússins en íbúðin þeirra í hinum endanum. Þetta hús gekk undir nafninu Eyri og var það vel við hæfi.

Eftir að amma varð ekkja bjó hún lengst af í kjallara hjá Þóru dóttur sinni og Kristjáni manninum hennar þar sem þau höfðu útbúið íbúð handa henni. Það hefur verið henni ómetanlegt að búa þar á meðan hún hafði heilsu til.

Það er gott og gagnlegt fyrir okkur, afkomendur Maríu Þorsteinsdóttur og Jóns Helgasonar, að fara vestur að Eyri því þar getum við séð þær aðstæður sem þau bjuggu við í Skötufirði. Sumir afkomenda hafa komið sér upp aðstöðu á Eyri þannig að áfram verður farið vestur að njóta bæði fegurðar og kyrrðar sem þar er. Við höfum verið svo lánsöm að kynnast þessum stað og í mínum huga er mikilvægt að halda tengslum við Eyri og minninguna af ömmu.

Blessuð sé minning ömmu á Eyri.

Sveinn Samúel Steinarsson.