Eftir Örnu Schram arna@mbl.is HALLDÓR Ásgrímsson forsætisráðherra ítrekaði á Alþingi í gær að hann teldi 0,25% stýrivaxtahækkun Seðlabanka Íslands vera stefnubreytingu af hálfu bankans. Steingrímur J.
Eftir Örnu Schram arna@mbl.is
HALLDÓR Ásgrímsson forsætisráðherra ítrekaði á Alþingi í gær að hann teldi 0,25% stýrivaxtahækkun Seðlabanka Íslands vera stefnubreytingu af hálfu bankans. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, gagnrýndi hins vegar að forsætisráðherra, sem og reyndar Geir H. Haarde utanríkisráðherra, skyldu með þessum hætti túlka ákvarðanir Seðlabankans. Með því væri verið að hjóla í ákvarðanir bankans og reyna að draga úr trúverðugleika hans.

Steingrímur og Halldór tókust á um þessi mál í fyrirspurnartíma á Alþingi síðdegis í gær. Steingrímur, málshefjandi umræðunnar, sagði að ekkert í yfirlýsingu bankans sjálfs, rökstuðningi hans og í útgáfu Peningamála, gæfi tilefni til að ætla að bankinn teldi að hann væri að breyta um stefnu. "Síðan hvenær varð það hlutverk forsætisráðherra að gerast sjálfskipaður talsmaður og útskýrandi fyrir hönd Seðlabankans?" spurði hann.

Halldór svaraði því m.a. til að Seðlabankinn væri sjálfstæð stofnun en það þýddi ekki að forsætisráðherra eða ríkisstjórnin gætu ekki haft skoðanir á málefnum bankans. "Ég hef sagt og stend við það að ég hef ekki talið ástæðu til vaxtahækkunar af hálfu Seðlabankans núna. Ég hef hins vegar fagnað því að Seðlabankinn hefur farið mjög mildilega í þessa hækkun og hún er minni en flestir gerðu ráð fyrir. Ég tel það vera stefnubreytingu og menn mega hafa aðra skoðun á því.

Seðlabankinn talar ekki um það núna í yfirlýsingum sínum að hann ætli sér að hækka vexti enn frekar. Það hefur komið skýrt fram í tilkynningum Seðlabankans að undanförnu. Mín vegna geta menn kallað það eitthvað annað en stefnubreytingu - það skiptir ekki máli - en ég tel að þessi ákvörðun Seðlabankans sé hógvær og viðunandi við núverandi aðstæður, jafnvel þótt ég hafi haft þá skoðun að ekki hefði verið ástæða til að hækka vexti núna. Við það stend ég."

Vinni með bankanum

Steingrímur sakaði Halldór hins vegar um grundvallarmisskilning. Steingrímur tók fram að hann vildi endilega að forsætisráðherra og ríkisstjórnin hefðu skoðanir á efnahagsmálum, en þær skoðanir þyrftu að vera réttar og skynsamar. "Ég vil að forsætisráðherra og ríkisstjórnin vinni með Seðlabankanum en ekki á móti honum." Mikill munur væri á því, sagði hann, að lýsa yfir almennum viðhorfum sínum til efnahagsmála og því að fara "beint inn í ákvörðun Seðlabankans" og reyna að útskýra hana á þann hátt sem gengi þvert gegn vilja bankans sjálfs, m.ö.o. á þann hátt sem hentaði ríkisstjórninni.

"Í staðinn fyrir að ganga til samstarfs við Seðlabankann um einhverjar samræmdar aðgerðir virðist núna vera komin upp sú staða að ríkisstjórnin hjóli í Seðlabankann og reyni að draga úr trúverðugleika hans. Það er háskalegt," sagði Steingrímur síðar í umræðunni. Hann sagði miklu skipta að markaðurinn hefði þá trú að Seðlabankinn væri vandanum vaxinn. Halldór sagði það hins vegar af og frá að hann talaði af ábyrgðarleysi.